Mál nr. 59/1999
Á L I T
K Æ R U N E F N D A R F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A
Mál nr. 59/1999
Skaðabótaábyrgð: Lekaskemmdir.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, dags. 24. nóvember 1999, beindu A og B, X nr. 16, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, X nr. 16, hér eftir nefndur gagnaðili.
Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Athugasemdir gagnaðila hafa ekki borist en frestur var veittur til 13. desember 1999. Á fundi nefndarinnar 29. desember sl. var málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Um er að ræða fjölbýlishúsið X nr. 16. Húsið skiptist í þrjá eignarhluta. Álitsbeiðendur eru eigendur kjallara og gagnaðili er eigandi miðhæðar. Ágreiningur er um skaðabótaábyrgð vegna lekaskemmda.
Krafa álitsbeiðenda er:
Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða það tjón sem orðið hafi á séreign álitsbeiðenda.
Í álitsbeiðni kemur fram að 6. október sl. hafi lekið af svölum gagnaðila inn í íbúð álitsbeiðenda með þeim afleiðingum að hurð, hurðakarmur og þröskuldur hafi skemmst. Þann 13. október sl. hafi aftur lekið inn í íbúðina. Þá hafi skemmst parket og rafmagnsrofi. Vátryggingafélag Íslands hf. hafi metið tjónið á kr. 85.000. Skipta hafi þurft um parket á eldhúsi og hluta af gangi þar sem myglusveppur hafi myndast undir parketinu og mála þar sem vatnið hafði lekið. Í álitsbeiðni segir að orsök lekans hafi verið sú að niðurfall á svölum gagnaðila hafi stíflast af laufblöðum og vatn safnast þar fyrir. Gagnaðili hafi í upphafi viðurkennt að bera ábyrgð á tjóni álitsbeiðenda og beðið álitsbeiðendur að hafa samband við Tryggingamiðstöðina hf. sem sé tryggingafélag gagnaðila. Þegar í ljós hafi komið að gagnaðila var ekki tryggður fyrir tjóninu hafi hann neitað að hann bæri skaðabótaábyrgð á því. Bæði tryggingafélögin hafi hins vegar bent á að gagnaðili væri skaðabótaábyrgður. Tryggingamiðstöðin hf. hafi viðurkennt að það hefði bætt tjónið hefði gagnaðili verið með tryggingu.
III. Forsendur.
Gagnaðili hefur hvorki sent kærunefnd athugasemdir sínar né komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því.
Í málinu liggur ekki fyrir tæknileg lýsing á orsökum þess að vatn rann inn í íbúð álitsbeiðenda. Þannig verður ekki séð hvort tjónið verði að einhverju leyti rakið til þess að ástand og viðhald ytra byrðis hússins hafi verið ábótavant eða bilun sé í sameiginlegum leiðslum hússins. Kærunefnd telur hins vegar að leggja beri til grundvallar í málinu atvikalýsingu álitsbeiðenda enda hefur henni ekki verið mótmælt. Ber gagnaðili samkvæmt henni ábyrgð á tjóni álitsbeiðenda með vísan til 1. mgr. 51. gr. laga nr. 26/1994.
IV. Niðurstaða.
Það er álit kærunefndar að gagnaðili beri að greiða tjón það sem varð á séreign álitsbeiðenda.
Reykjavík, 29. desember 1999.
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson