Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 552/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 552/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. nóvember 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Maka kæranda var veitt dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar hér á landi þann 1. janúar 2016. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 19. september 2017 og var umsókninni synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2018. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þá ákvörðun með úrskurði þann 18. janúar 2018. Með úrskurði, dags. 13. mars 2018, féllst kærunefnd á endurupptökubeiðni kæranda. Var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. nóvember 2018 felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar að nýju. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 29. október 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 6. nóvember 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun vísaði Útlendingastofnun til ákvæða 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 70. gr. væri að finna nýmæli en þar segði að byggi umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli á hjúskapar rétt sinn á útlendingi sem væri t.a.m. með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. þyrfti sá aðili að hafa starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Samkvæmt 4. mgr. 70. gr. ættu skilyrði 3. mgr. ákvæðisins ekki við í ákveðnum tilvikum. Í fyrsta lagi ef aðilar voru í hjúskap áður en maki búsettur hér á landi fluttist til landsins, í öðru lagi ef aðilar hefðu gengið í hjúskap meðan báðir aðilar höfðu dvalarleyfi hér á landi eða í þriðja lagi ef aðilar ættu saman barn eða ættu von á barni saman. Samkvæmt gögnum málsins hefði maki kæranda fengið útgefið dvalarleyfi fyrir flóttamann skv. 73. gr. laga um útlendinga þann 1. janúar 2016. Þá hefðu kærandi og maki hennar gengið í hjúskap þann [...] 2018, eða eftir að maki kæranda fékk dvalarleyfi hér á landi. Því væri ljóst að undanþágur 4. mgr. 70. gr. laganna ættu ekki við í málinu.

Samkvæmt 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga væri heimilt að veita frekari undanþágu frá skilyrðum 3. mgr. 70. gr. ef sérstakar aðstæður stæðu til þess. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna með ákvæðinu. Tók stofnunin fram að ákvæðið væri undantekningarákvæði sem bæri að túlka þröngt og ætti það einungis við ef sérstakar ástæður stæðu til þess og þannig þyrfti að meta það í hverju tilviki fyrir sig. Var það mat stofnunarinnar að ekki væru fyrir hendi svo sérstakar ástæður að þær réttlættu beitingu undanþáguheimildar 5. mgr. 70. gr. laganna. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar því synjað. Þar sem Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda á grundvelli 3. mgr. 70. gr. kannaði stofnunin ekki frekar hvort kærandi fullnægði öðrum skilyrðum VIII. kafla laganna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Þann 18. júlí 2018 barst Útlendingastofnun greinargerð fyrir hönd kæranda. Kom þar fram að maki kæranda hafi verið með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar hér á landi í tvö og hálft ár og búi með börnum sínum tveimur í [...], en þau hafi komið til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar í apríl 2017. Hafi börnin upplifað mikið rót, óöryggi og aðskilnað frá foreldrum sínum og hafi þau vegna skilnaðar foreldra sinna misst allt samband við móður sína. Maki kæranda hafi nú gengið í hjónaband á ný, þ.e. með kæranda, sem búi í [...]. Sé það einlæg ósk þeirra að að geta sameinast hér á landi og lifað sem hjón. Fór kærandi fram á að vera veitt undanþága frá skilyrðum laganna á grundvelli sérstakra aðstæðna. Þá vísaði kærandi til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og að taka bæri tillit til þess hvað börnunum sé fyrir bestu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varið lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Í 3. mgr. 70. gr. segir m.a. að byggi umsækjandi rétt sinn á útlendingi sem er með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. þurfi sá aðili að hafa starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar. Í máli þessu liggur fyrir að maki kæranda fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, sbr. 73. gr. laga um útlendinga, þann 1. janúar 2016 og er því ljóst að hann uppfyllir ekki tímaskilyrði 3. mgr. 70. gr. laganna.

Samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis eiga skilyrði 3. mgr. ekki við í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef aðilar voru í hjúskap áður en maki búsettur hér á landi fluttist til landsins, sbr. a-lið ákvæðisins, ef aðilar gengu í hjúskap á meðan báðir aðilar höfðu dvalarleyfi hér á landi, sbr. b-lið, eða ef aðilar eiga saman barn eða eiga von á barni saman, sbr. c-lið. Eins og fyrr greinir fékk maki kæranda útgefið dvalarleyfi þann 1. janúar 2016 en hann og kærandi gengu í hjúskap eftir að maki kæranda fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi. Þá hefur kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og liggur ekkert fyrir um að þau eigi barn saman eða eigi von á barni saman. Þannig er ljóst að undanþágur 4. mgr. 70. gr. eiga ekki við í málinu.

Í 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita frekari undanþágu frá skilyrðum 3. mgr. 70. gr. ef sérstakar aðstæður standa til þess. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir:

„Í 5. mgr. er kveðið á um heimild til þess að víkja frá skilyrðum [...] og getur slíkt átt við í undantekningartilvikum ef ráðstöfun væri sérstaklega íþyngjandi eða fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu ættingjum hans. Sérstakar ástæður þurfa að koma til, t.d. að ómögulegt sé að viðkomandi fjölskyldumeðlimur og umsækjandi hans geti stofnað til fjölskyldu í öðru landi og getur það t.d. átt við í málum þar sem útlendingur hefur fengið alþjóðlega vernd hér á landi.“

Eins og fram hefur komið var maka kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi þann 1. janúar 2016, en hann og kærandi eru bæði ríkisborgarar [...]. Að mati kærunefndar er því ómögulegt fyrir kæranda og maka hennar að búa saman í heimaríki þeirra og stofna til fjölskyldu þar í landi enda liggur fyrir mat íslenskra stjórnvalda á því að aðstæðum sem lýst er í 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi við um hann í heimaríki. Liggur ekkert fyrir í málinu um að kærandi og eiginmaður hennar hafi möguleika á að sameinast í öðru ríki. Vegna ummæla í ákvörðun Útlendingastofnunar telur kærunefnd rétt að árétta að nefndin telur ekki að af þessu leiði að undanþága 5. mgr. 70. gr. eigi við um maka allra einstaklinga sem eru með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar. Leggja þurfi einstaklingsbundið mat á hvert mál, m.a. varðandi möguleika hjóna til að sameinast í öruggu þriðja ríki. Af framangreindu virtu er það mat kærunefndar að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í máli kæranda í skilningi 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga svo veita beri undanþágu frá skilyrðum 3. mgr. 70. gr. laganna.

Þar sem Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda á grundvelli 3. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kannaði stofnunin ekki frekar hvort kærandi fullnægði öðrum skilyrðum VIII. kafla laganna. Að mati kærunefndar er rétt að fram fari hjá Útlendingastofnun mat á því hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar sem fram koma í VIII. kafla laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant‘s case.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                       Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta