Nýsköpunarmót um bætta þjónustu og frekari skilvirkni í opinberum rekstri
Nýsköpunarmót sem miðar að bættri þjónustu og frekari skilvirkni í rekstri hins opinbera verður haldið vikuna 26. maí – 2. júní næstkomandi. Þar koma saman fyrirtæki og frumkvöðlar og vinna að því með opinberum aðilum að leysa ýmsar áskoranir þeirra.
Markmiðið er að auka nýsköpun í opinberum rekstri á sama tíma og skilvirkni eykst enn frekar og opinber þjónusta batnar.
Ríkiskaup standa að Nýsköpunarmótinu í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið en það verður hluti af nýsköpunarvikunni sem fram fer 26. maí til 2. júní.
Nýsköpunarmótið samræmist nýrri stefnu um nýsköpun í opinberum innkaupum og er því ætlað að styðja við alla innkaupaferla. Mótið er vettvangur fyrir opinbera aðila og fyrirtæki að hittast á fyrir fram bókuðum stuttum veffundum.
Opinberir aðilar skrá þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir og vantar lausnir á en fyrirtæki skrá sérhæfingu sína. Allir aðilar sem skrá sig geta í framhaldinu óskað eftir veffundum með öðrum þátttakendum á nýsköpunarmótinu. Veffundirnir fara fram í gegnum skráningarsíðuna (B2Match). Auðvelt er að bóka fundi, samþykkja eða breyta umbeðnum tíma þá viku sem mótið fer fram.
Á síðasta Nýsköpunarmóti sem haldið var haustið 2019 tóku um 130 aðilar þátt, sem opnaði nýja möguleika og leiddi til samstarfsþróunar á milli aðila.
- Upplýsingar um nýsköpunarmótið - Hægt er að skrá sig til leiks hægra megin á síðunni undir „Register now“.