Hoppa yfir valmynd
23. júní 2023

Áherslur Spánverja og ný efnahagsöryggisáætlun Evrópusambandsins

Að þessu sinni er fjallað um:

  • helstu áherslumál Spánverja fyrir komandi formennskutíð í ráðherraráði Evrópusambandsins (ESB)
  • efnahagsöryggisáætlun ESB
  • sjálfbæra fjármögnun og grænar fjárfestingar
  • nýjan tækniþróunarvettvang ESB
  • stjórnsýslu jafnréttismála
  • bætt vinnuskilyrði starfsmanna sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvanga
  • eflingu félagslega hagkerfisins
  • kolefnisjöfnunargjald við landamæri (CBAM)
  • reglugerð um rafhlöður
  • vistvæna framleiðslu snjalltækja
  • tvíhliða samning milli Bretlands og Noregs um makrílkvóta fyrir árið 2023

Áherslumál Spánverja

Spánverjar taka við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí nk. en þá lýkur formennskutíð Svía í ráðinu. Formennska í ráðinu gengur á milli aðildarríkja samkvæmt fyrirfram ákveðinni röð og er formennskutímabilið sex mánuðir. Stendur formennskutímabil Spánverja samkvæmt því frá 1. júlí – 31. desember 2023 en þá munu Belgar taka við formennskukeflinu en þar á eftir gerir gildandi ákvörðun ráðherraráðs ESB ráð fyrir að Ungverjar taki við formennskunni og þar á eftir Pólverjar.

Hlutverk formennskuríkis á hverjum tíma er að leiða starf og stjórna fundum í öllum deildum ráðherraráðs ESB. Þá stýrir formennskuríkið einnig samningaviðræðum fyrir hönd ráðsins við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB í þríhliðaviðræðum um löggjafarmálefni og önnur málefni. Umtalsvert áhrifavald fylgir formennskunni á hverjum tíma enda geta áherslur formennskuríkis haft mikið um það að segja hvort tiltekin mál fái framgang eða ekki.

Spánn hefur enn sem komið er ekki birt starfsáætlun sína fyrir formennskutímabilið. Á hinn bóginn hefur formennskuríkið, tilvonandi, birt stutt yfirlit yfir helstu áherslumál sem það hyggst leggja áherslu á í formennskutíð sinni og er áherslumálunum skipt í fjóra efnisflokka, en þeir eru:

  • Ný iðnvæðing á vettvangi ESB og varðveisla á sjálfræði og sjálfstæði ESB til aðgerða (e. Reindustrialise the EU and ensure ist open strategic autonomy)
  • Græn umskipti og aðlögun að breyttum umhverfisaðstæðum.
  • Aukið félagslegt og efnahagslegt réttlæti.
  • Aukin evrópsk samheldni.

Ný iðnvæðing á vettvangi ESB og varðveisla á sjálfræði og sjálfstæði ESB til aðgerða

Í áherslumáli þessu birtist skýrlega það fráhvarf frá alþjóðavæðingu sem hefur verið að þróast innan ESB frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á og síðan með auknum þunga eftir að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hófst. Er það mat Spánverja að enda þótt hnattvæðing og opin og frjáls heimsviðskipti hafi löngum verið meginþemað í alþjóðapólitík ESB á viðskiptasviðinu og að sú stefna hafi átt sinn þátt í þeim hagvexti og félagslegri velferð sem tekist hefur að skapa í álfunni þá hafi báðir framangreindir atburðir afhjúpað tiltekna veikleika í efnahagslegu öryggi ESB, í framleiðslu- og aðfangakerfi ESB og á mikilvægum sviðum eins og orkuframleiðslu, aðgengi að lækningavörum, stafrænni tækni, matvælaframleiðslu o.fl. með þeim hætti að bregðast verði við. Er það jafnframt mat Spánverja að þær aðstæður sem nú eru uppi gefi tækifæri til að snúa þessari þróun við og laða að ný fyrirtæki og störf til ESB og varðveita þannig sjálfræði og sjálfstæði ESB til aðgerða.

Til að ná framangreindum markmiðum hyggst spænska formennskan leggja áherslu á tvennt. Annars vegar á framgang þeirra mála sem eru fyrirliggjandi og ætlað er að stuðla að uppbyggingu mikilvægs iðnaðar og öruggra aðfangakeðja og má ætla að þar sé meðal annars vísað til framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans (e. Green Deal Industrial plan) og þau mál sem þar eru undir, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl. Hins vegar hyggst spænska formennskan beita sér fyrir framsýnni alhliða alþjóðastefnu til að tryggja efnahagslegt öryggi ESB og sjálfræði og sjálfstæði sambandsins og viðhalda alþjóðlegri forystu ESB á sviði viðskiptamála. Vísa Spánverjar í þessu sambandi til yfirlýsingar sem samþykkt var af leiðtogum allra aðildarríkja ESB í Versölum 10. og 11. mars 2022 í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Rímar framangreint áherslumál spænsku formennskunnar vel við nýframkomið  stefnuskjal framkvæmdastjórnar ESB og utanríkisþjónustu ESB um efnahagsöryggisáætlun ESB sem fjallað er um hér að neðan í Vaktinni.

Græn umskipti og aðlögun að breyttum umhverfisaðstæðum

Í áhersluyfirliti Spánverja kemur fram að það sé ekki aðeins lagaleg og siðferðileg skylda ESB að sporna gegn loftslagsbreytingum og umhverfisspjöllum af þeirra völdum heldur felast mikil tækifæri í grænu umskiptunum sem m.a. geta aukið sjálfstæði ESB í orkumálum m.a. til að lækka raforkureikninga, auka samkeppnishæfni og fjölga störfum.

Spænska formennskan leggur áherslu á að hraða þessum umskiptum, svo sem með því að greiða fyrir umbótum á raforkumarkaði, með því að flýta fyrir útbreiðslu endurnýjanlegrar orku, lækkun raforkuverðs og auknum stöðugleika raforkuframleiðslukerfisins. Þannig hyggst formennskan gera sitt til að flýta framgangi löggjafartillagna sem tengjast „Fit for 55“ aðgerðapakkanum. Enn fremur hyggst Spánn stuðla að aðgerðum og framgangi tillagna til að draga úr mengun vegna úrgangs og örplasts, vistvænni hönnun á sjálfbærum vörum og framleiðslu á grænu eldsneyti. Mun Spánn beita sér fyrir því að ESB viðhaldi stöðu sinni sem leiðandi afl í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Aukið félagslegt og efnahagslegt réttlæti

Spænska formennskan leggur áherslu á nauðsyn þess að tryggja að framtíðarauður og aukin landsframleiðsla komi öllum borgurum ESB til góða og verði til þess að bæta möguleika þeirra og lífskjör með jöfnum hætti með það markmið að skapa samkeppnishæft hagkerfi en líka réttlátt og umhyggjusamt samfélag.

Í þessu skyni hyggst spænska formennskan beita sér fyrir því að settar verði reglur um lágmarksskattlagningu eða viðmið við skattlagningu fyrirtækja í öllum aðildarríkjunum og að barist verði gegn skattsvikum stórra fjölþjóðafyrirtækja, sem talið er að kosti aðildarríki ESB gríðarmiklar fjárhæðir á hverju ári. Spánverjar hyggjast einnig vinna að endurskoðun reglna um langtímafjárhagsáætlun ESB og að fullnægjandi umbætur verði gerðar á fjárlagareglum og fjármálareglum með það að markmiði m.a. að skapa nauðsynlegt svigrúm fyrir fjármögnun grænna og stafrænna umbreytinga sem nauðsynlegar eru. Loks hyggst spænska formennskan beita sér fyrir því að réttindi starfsmanna verði rýmkuð á ýmsum sviðum og einnig réttindi viðkvæmra hópa eins og fatlaðs fólks, barna og kvenna sem verða fyrir ofbeldi.

Aukin evrópsk samheldni

Spánverjar leggja áherslu á mikilvægi aukinnar samheldni innan ESB á þeim óvissutímum sem nú eru.

Til að stuðla að þessu hyggst spænska formennskan beita sér fyrir aukinni samþættingu á innri markaði ESB, m.a. á sviði banka- og fjármálamarkaða (e. banking union and the capital markets union) og að yfirstandandi endurskoðun regluverks á því sviði verði lokið, sbr. m.a. til hliðsjónar umfjöllun um endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka í Vaktinni 21. apríl sl. Þá er lögð áhersla á endurskoðun á sameiginlegum úrræðum eins og „NextGenerationEU-áætlunni“, skilvirkari og samræmdari stjórnun í málefnum farands- og flóttafólks og samræmdan stuðning við Úkraínu m.a. Loks hyggst spænska formennskan í þessu skyni vinna að því að styrkja hin samevrópsku gildi og sjálfsmynd.

Efnahagsöryggisáætlun ESB

Framkvæmdastjórn ESB og utanríkismálaþjónusta ESB birti í vikunni sameiginlegt stefnuskjal um efnahagsöryggisáætlun ESB (e. European economic security strategy).

Í skjalinu er sett fram áætlun um það hvernig lágmarka megi þá efnahagslegu áhættu sem getur falist í alþjóðlegum viðskiptasamböndum á mikilvægum sviðum í ljósi þeirrar auknu spennu sem byggst hefur upp á alþjóðavettvangi að undanförnu og um leið og leitast er við að hraða mikilvægum tæknibreytingum og varðveita að því marki sem unnt er talið, hið opna og frjálsa markaðshagkerfi. Spilar stefnuskjalið og tilgreindar bakgrunnsástæður þess vel saman við eina af megináherslum spænsku formennskunnar, tilvonandi, sem kynntar hafa verið, sbr. sérstaka umfjöllun hér að framan í Vaktinni.

Lögð er áhersla á að við töku ákvarðana á þessu sviði verði gætt meðalhófs og að ákvarðanir séu hnitmiðaðar og nægjanlegar með tilliti til efnahagslegs öryggis ESB. 

Lagt er til að tekið verði upp heildstætt áhættumat, samkvæmt nánar tilgreindri aðferðarfræði, á fjórum tilgreindum sviðum:

  • Á sviði aðfangakeðja, þar með talið á sviði afhendingaröryggis raforku.
  • Á sviði mikilvægra innviða og netöryggis.
  • Á sviði tækniþekkingar og vernd hennar.
  • Á sviði er varðar efnahagslegt sjálfræði og sjálfstæði og efnahagslegra þvingana.

Samkvæmt stefnunni er stefnt að því að draga úr áhættum á framangreindum sviðum með þríþættri nálgun:

  • Með því að efla samkeppnishæfni innri markaðar ESB, styðja við viðnámsþol hagkerfisins og með því að fjárfesta í færni vinnuafls og í rannsóknum og þróun á sviði iðnaðar, tækni og vísinda.
  • Með því að vernda efnahagslegt öryggi ESB með þeim áætlunum og lagalegu úrræðum sem tiltæk eru á grundvelli meginreglunnar um meðalhóf þannig að  forðast megi eins og hægt er möguleg neikvæð hliðaráhrif ákvarðana þeirra ákvarðana sem teknar eru.
  • Með því að efla og útvíkka samstarf og viðskiptasambönd við þriðju ríki með eins víðtækum hætti og mögulegt er, með frekari þróun og frágangi milliríkja samninga á sviði viðskipta auk þess að styðja við viðurkennt alþjóðastarf og alþjóðastofnanir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunina (e. World Trade Organization).

Þá eru jafnframt kynntar tilteknar aðgerðir sem ætlað er að styðja við framangreint, þar á meðal:

  • aðferðarfræði við áhættumat,
  • skipulagt samráðsferli við einkageirann,
  • endurskipulagning á stuðningskerfi við tækniþróun og nýsköpun og nýjan tækniþróunarvettvang á því sviði, sbr. sérstaka umfjöllun um þá tillögu hér að neðan í Vaktinni,
  • endurskoðun reglugerðar um eftirlit með erlendum fjárfestingum,
  • betri innleiðingu reglugerðar um útflutningseftirlit,
  • rannsókn á öryggisáhættum sem stafað geta af fjárfestingum evrópskra fyrirtækja utan ESB og útflutning á starfsemi,
  • ráðstafanir til að verja rannsóknarfyrirtæki og rannsóknarniðurstöður þeirra fyrir misnotkun sem geta m.a. skaðað efnahagslegt öryggi,
  • markvissari notkun úrræða á grundvelli sameiginlegrar utanríkis- og öryggisstefnu ESB,
  • að utanríkisþjónustu ESB verði falið að greina sérstaklega mögulegar ógnir við efnahagslegt öryggi ESB,
  • að tryggt verði að sjónarmið um efnahagslegt öryggi ESB sé samþætt í allri stefnumörkun ESB gagnvart þriðju löndum.

Er orðsendingunni ætlað að leggja grunn að stefnumótandi umræðu innan aðildarríkja ESB og á vettvangi ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins um hvernig best verði staðið að því að vernda efnahagslegt öryggi ESB á þeim ólgutímum sem uppi eru. Er jafnframt ráðgert að stefnuskjalið komi til umræðu á fundi leiðtogaráðs ESB í Brussel í næstu viku, 29. – 30. júní.

Nýr aðgerðarpakki um sjálfbæra fjármögnun og grænar fjárfestingar

Þann 13. júní sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB nýjar tillögur og stefnumótun til að styrkja enn frekar gildandi lagaramma sem ætlað er að stuðla að sjálfbæri fjármögnun og grænum fjárfestingum (e. sustainable finance) í aðildarríkjum ESB.

Unnið hefur verið að mótun lagaramma um sjálfbæra fjármögnun og grænar fjárfestingar um nokkurt skeið en móðurreglugerðin um flokkunarkerfi grænna fjárfestinga eftir einstökum atvinnugreinum var samþykkt árið 2020. Undanfari þeirrar reglugerðar var reglugerð frá árinu 2019 um upplýsingagjöf fyrirtækja á sviði fjármálaþjónustu um fjármögnun á grænum fjárfestingum í ársreikningum sínum. Hafa þessar reglugerðir þegar verið teknar upp í EES-samninginn. Er þessi lagaumgjörð, ásamt afleiddum reglugerðum, talin veigamikil forsenda þess að markmið Græna sáttmála ESB (e. European Green Deal) og „Fit for 55“ aðgerðaráætlunarinar geti raungerst fyrir árið 2055.

Í pakkanum nú kennir ýmissa grasa. Í fyrsta lagi eru þar kynntar breytingar á afleiddri gerð sem ber enska heitið „EU Taxonomy Climate Delegated Act“. Er þar lagt til að bætt verði við fjórum skilgreindum umhverfismælikvörðum er nota ber þegar lagt er mat á sjálfbærni fjárfestingakosta þ.e.:

  • Verndun vatns- og sjávarauðlinda og til sjálfbær nýting þeirra.
  • Umskipti yfir í hringrásarhagkerfið.
  • Mengunarvarnir og eftirlit.
  • Varðveisla og endurheimt vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika.

Áður höfðu tveir umhverfismælikvarðar verið samþykktir, þ.e.:

  • Aðgerðir til að draga úr loftlagsbreytingum.
  • Aðlögun að loftlagsbreytingum.

Þessir mælikvarðar eru hryggjarstykki móðurreglugerðarinnar um flokkunarkerfi sjálfbærra fjárfestinga. Jafnframt leggur framkvæmdastjórnin til að gildissvið flokkunarkerfisins verði víkkað út einkum er kemur að iðnaði og samgöngum.  Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á EU Taxonomy Disclosures Delegated Act, en þær eru nauðsynlegar vegna útvíkkunar á gildissviði flokkunarkerfisins.

Þá er í pakkanum einnig að finna tillögu að nýrri reglugerð til Evrópuþingsins og ráðsins um viðurkennda ESG matsaðila (e. rating providers), en ESG stendur fyrir „Environmental, Social and Governance“. Er þessum matsaðilum ætlað að vera til halds og trausts þegar kemur að upplýsinggjöf til fjárfesta og fjármálastofnana, til dæmis við mótun fjárfestingastefnu og gerð áhættumats með tilliti til þessara þriggja þátta. Matsaðilarnir þurfa að vera óháðir viðskiptavinum sínum, einkum með tilliti til mögulegra hagsmunaárekstra. Er það mat framkvæmdastjórnarinnar að nauðsynlegt sé að sett sé sérstök reglugerð um þessa starfstétt eða fyrirtæki sem bjóða upp á slíka þjónustu til að tryggja traust og gagnsæi gagnvart viðskiptavinunum. Jafnframt er lagt til að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin  (e. European Securities and Market Authority - ESMA) annist leyfisveitingu til þessara aðila og hafi með þeim eftirlit í því skyni að tryggja gæði og áreiðanleika þjónustunar til að vernda fjárfesta og tryggja samræmt mat á þessu sviði á fjármálamarkaði ESB. Hefur framangreind reglugerðartillaga jafnframt verið birt í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 17. ágúst nk.

Leiðbeiningar um notkun flokkunarkerfisins. Í kynningu framkvæmdastjórnarinnar er ekki aðeins að finna tillögur að nýjum eða breyttum reglugerðum heldur einnig upplýsingar og svör við helstu spurningum hagaðila sem hafa vaknað við innleiðingu regluverksins og framkvæmd þess. Vaxandi áhugi virðist vera hjá meðalstórum og stórum fyrirtækjum, sem ekki sinna fjármálaþjónustu, að nota flokkunarkerfið við ársreikningagerð sína enda þótt þau séu ekki skyldug til þess. Skýrist þetta vafalaust af auknum áhuga fjárfesta almennt á grænum fjárfestingum. Kalla fyrirtæki mjög eftir leiðbeiningum um aðferðir og framkvæmd. Framkvæmdastjórnin hefur að þessu tilefni gefið út notkunarleiðbeiningar um flokkunarkerfið. Er þar líka að finna ýmis praktísk dæmi og leiðbeiningar til fyrirtækja og er þar ekki síst horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ljóst er að geta átt erfiðaðar með að tileinka sér aðferðarfræðina vegna smæðar sinnar. Aukinn rekstrarkostnaður mun óhjákvæmilega fylgja innleiðingu á sjálfbærniregluverki fjárfestinga og fjármögnunar sem kann einnig að vera hindrun fyrir smærri aðila.

Framangreindur aðgerðarpakki mun nú koma til umræðu í Evrópuþingsins og ráðherraráði ESB. Fyrir liggur að kapp er lagt á að ljúka málinu fyrir lok ársins en ráðgert er að gerðirnar sem um ræðir taki gildi í janúar 2024. Regluverkið um sjálfbæra fjármögnun er eitt af áherslumálum núverandi framkvæmdastjórnar ESB en eins og kunnugt er verða kosningar til Evrópuþingsins á næsta ári og þá líkur jafnframt skipunartímabili núverandi framkvæmdastjórnar.

Nýr tækniþróunarvettvangur ESB

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni tillögu að reglugerð um nýjan tækniþróunarvettvang (e. Strategic Technologies for Europe Platform - STEP). Felur tillagan í sér tiltekna endurskoðun á regluverki samstarfsáætlana- og samkeppnissjóðakerfis ESB og er tillagan viðbragð ESB við þeirri ríku þörf sem nú er uppi til að efla tækniþróun og auka fjárfestingar í mikilvægum tæknigreinum í Evrópu. Tillagan felur í sér að hinn nýji vettvangur, STEP, muni annars tiltekið utanumhald á grunni núverandi samstarfsáætlana- og sjóðakerfis ESB.

STEP er ætlað að veita öflugri stuðning við þróun og framleiðslu nýrrar tækni sem talin er mikilvægt fyrir græn og stafræn umskipti, efnahagslegt öryggi ESB og sjálfræði og sjálfstæði ESB til aðgerða.

Með STEP er gert ráð fyrir að framkvæmd núverandi samstarfsáætlana verði sveiganlegri og að í stað þess að búa til nýja sjóði þegar ný viðfangsefni koma upp  sem getur verið tímafrekt verði unnt að nýta þær áætlanir sem fyrir eru s.s. Horizon Europe. Þá er gert ráð fyrir því að með STEP verði afgreiðsla umsókna og veiting styrkja til mikilvægra verkefna greiðari en áður.

Til að ná markmiðum um aukna fjárfestingu í nýrri mikilvægri tækni er gerð tillaga, í tengslum við fjárlagatillögur ESB fyrir árið 2024, um að fjármögnun tiltekinna áætlana verði aukin um samtals 10 milljarða evra, og er ráðgert að sú viðbótar fjármögnun skiptist með eftirfarandi hætti:

  • 3 milljarðar til „InvestEU“,
  • 0,5 milljarðar til „Horizon Europe“,
  • 5 milljarðar til „Innovation Fund“,
  • 1,5 milljarðar til „European Defence Fund“.

Eins og jafnan þá hafa fjárveitingar til samkeppnissjóða margföldunaráhrif er kemur að fjárfestingum, vegna krafna sem gerðar eru um mótframlög af hálfu fjárfesta. Sé litið til áhrifa af auknum framlögum til „InvestEU“ sem Ísland hefur nýlega samið um þátttöku í, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl., er talið að viðbótarfjármögun þar geti beint eða óbeint leitt til nýrra fjárfestinga að verðmæti allt að 75 milljarðar evra. 

Ísland er þátttakandi í fjölmörgum samstarfsáætlunum ESB og hefur reynslan af þátttöku verið góð og haft afar jákvæð áhrif til eflingar  á vísinda- og nýsköpunarstarfi á Íslandi, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl. um styrk sem nýverið rann til íslenska verkefnisins um LIFE áætlun ESB. Nái tillögur um auknar fjárveitingar til InvestEU og Horizon Europe fram að ganga, en Ísland er þátttakandi í báðum þeim áætlunum, mun það að líkindum hafa áhrif til hækkunar á greiðsluþátttöku Íslands til viðkomandi sjóða.

Endurskoðun og endurskipulagning á samstarfsáætlana- og sjóðakerfi ESB var meðal þeirra verkefna sem boðuð voru í framkvæmdaáætlun Græna Sáttmálans (e. Green Deal Industrial Plan for the Net-Zero Age), sbr. m.a. umfjallanir í Vaktinni 10. febrúar sl. og 24. mars sl., og felur framangreind tillaga í sér eftirfylgni með þeim þætti þeirrar áætlunar meðal annars.

Tillagan gengur nú til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB til umfjöllunar.

Stjórnsýsla jafnréttismála

Í desember sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögur að tveimur nýjum tilskipunum  sem ætlað er að setja skýrari ramma um stöðu, hlutverk og valdsvið jafnréttisstofnana (e. Equality bodies) sem starfrækja ber í aðildarríkjum ESB. Samkvæmt núgildandi tilskipunum ESB á sviði jafnréttismála þá er sérhverju aðildarríki skylt að starfrækja stofnun sem hafi það hlutverk að berjast gegn mismunun svo sem á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna. Ákvæði um stöðu, hlutverk og valdheimildir þessara stofnana hafa hins vegar verið almenns eðlis og hefur framkvæmdin í aðildarríkjunum verið mismunandi sem og metnaður ríkjanna til að tryggja þessum stofnunum fullnægjandi starfsgrundvöll með fullnægjandi fjárveitingum og nægjanlegu sjálfstæði. Er nýrri tilskipun ætlað að samræma og styrkja starfsgrundvöll þessara stofnana þannig að þær verði betur í stakk búnar til að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað.

Í þessu skyni eru lagt til að settar verði bindandi reglur m.a. um:

  • Aukið valdsvið, þ.e. að valdsvið jafnréttisstofnana verði víkkað út þannig að það taki jafnframt til framkvæmdar tveggja gildandi tilskipana, þ.e. tilskipunar um bann við mismunun á vinnumarkaði og hins vegar tilskipunar um bann við mismunun kynjanna í almannatryggingakerfum.
  • Sjálfstæði, þ.e. að gerð verður krafa um að jafnréttisstofnanir hafi stöðu sjálfstæðra stofnana í stjórnkerfi aðildarríkjanna bæði er varðar framkvæmd laga sem undir þær falla og rekstrarlega þætti.
  • Fullnægjandi fjárheimildir, þ.e. að jafnréttisstofnunum séu tryggðar fullnægjandi fjárheimildir til að sinna hlutverki sínu.
  • Jafnt aðgengi, þ.e. að tryggt sé að þjónusta jafnréttisstofnana sé aðgengileg ólíkum hópum fólks með jöfnum hætti, svo sem fötluðu fólki, og að þjónustan sé án endurgjalds.
  • Samráðsskyldu, þ.e. að opinberum aðilum beri skylda til að hafa samráð við og leita álits jafnréttisstofnunar þegar stefnumótun af þeirra hálfu, eftir atvikum í formi laga- og reglusetningar, tengist jafnréttismálum.
  • Auknar valdheimildir, þ.e. að jafnréttisstofnanir fái auknar heimildir til að rannsaka meinta mismunun og til að gefa út álit eða eftir atvikum bindandi ákvarðanir í slíkum málum, og jafnframt að þær geti haft stöðu málsaðila í slíkum málum fyrir dómi.
  • Vitundarvakningu, þ.e. að aðildarríki og jafnréttisstofnanir skuli leitast við að auka vitund um mikilvægi jafnréttis og þess að draga úr mismunun.
  • Upplýsingamiðlun, þ.e. að jafnréttisstofnanir skuli reglulega gefa út skýrslur um stöðu jafnréttismála og hafi stöðu til þess að gera tillögur um úrbætur þar sem tilefni þykir til.

Þá er í tillögunum kveðið á um að tekið verði upp reglulegt eftirlit með starfsemi jafnréttisstofnana, þ.e. að jafnréttisstofnanir skuli miðla upplýsingum um starfsemi sína til framkvæmdastjórnar ESB sem gefi á fimm ára fresti út skýrslu um stöðu og starfsemi jafnréttisstofnana í aðildaríkjum ESB.

Þann 12. júní sl. samþykkti ráðherraráð ESB afstöðu til málsins. Er ráðið þar með tilbúið til að hefja samningaviðræður við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB um endanlegt efni tilskipunarinnar.

Skýrari rammi og umgjörð um stjórnsýslu jafnréttismála almennt á Íslandi var settur með lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Að ýmsu leyti má segja að sú endurskoðun hafi að nokkru leyti falið í sér svipaða nálgun og nú birtist í framangreindri tillögu. Enda þótt framkomin tillaga falli ekki undir gildissvið EES-samningsins fylgjast íslensk stjórnvöld vel með framgangi þessa máls á vettvangi ESB og er tillagan meðal annars til umræðu í vinnuhópi EFTA um jafnréttis- og fjölskyldumál.

Bætt vinnuskilyrði starfsmanna sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvanga

Í síðastliðinni viku náðist samkomulag í ráðherraráði ESB um afstöðu til fyrirliggjandi tillögu framkvæmdastjórnar ESB að tilskipun um bætt vinnuskilyrði fyrir starfsmenn sem sinna margvíslegum störfum með milligöngu stafrænna vettvangfyrirtækja (e. Platform Workers). Þessi tegund atvinnu verður sífellt stærri hluti vinnumarkaðarins í Evrópu.  Þekktast slíkra fyrirtækja er án efa Uber leigubifreiða- og sendlaþjónustan, sem nýlega hefur rutt sér til rúms á Íslandi. Starfsemi fyrirtækja af þessu tagi nær yfir mörg önnur þjónustusvið svo sem þýðingar, forritun auk ýmissa annarra verkefna. Er talið að nú sinni um 28 milljónir Evrópubúa vinnu í gegnum slíka rafræna vettvanga og gert er ráð fyrir því að á árinu  2025 verði sú tala komin í 43 milljónir manna. Hingað til að hafa þeir sem sinna slíkri vinnu að jafnaði verið skráðir sem sjálfstæðir verktakar en ekki starfsmenn þess fyrirtækis sem heldur úti hinum stafræna vettvangi og þykir sú staða að ýmsu leyti hafa rýrt vinnuskilyrði og réttarvernd þessara starfsmanna. Dómaframkvæmd í Evrópu hefur verið nokkuð misvísandi þar sem reynt hefur á réttmæti þessa og gaf það framkvæmdastjórninni m.a. tilefni til að leggja fram framagreinda tillögu um sameiginlegt evrópskt regluverk á þessu sviði.

Framkvæmdastjórnin lagði fram tillögu að gerðinni í desember 2021 og hefur efni hennar farið allhátt í umræðu á vettvangi ESB, ekki síst í kjölfar uppljóstrana um framferði stjórnenda Uber og um slæman aðbúnað starfsmanna þar. Félags- og atvinnumálanefnd Evrópuþingsins hefur einnig samþykkt nefndarálit um afstöðu til tillögunnar og bíður hún afgreiðslu þingsins en þar er m.a. kallað eftir því að gerð verði aukin krafa til gagnsæis algrímis (e. algorithm) sem notaðir eru í starfrækslu hinna stafrænu vettvanga.

Megintilgangurinn með tillögunni er að skýra réttarstöðu og bæta starfskjör og vinnuaðstæður þeirra sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvangsfyrirtækja hvort sem þeir teljast starfsmenn viðkomandi fyrirtækis eða sjálfstæðir verktakar og tryggja að þeir geti notið félagslegrar verndar, svo sem launa í veikindaleyfum, atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofs o.fl. eftir því sem við á. Þá er markmiðið að tryggja sanngirni og gagnsæi við notkun algríms sem nýttir eru við skipulag vinnunnar á hinum stafræna vettvangi m.a. við úthlutun verkefna auk þess að bæta upplýsingastreymi og gagnsæi við meðferð upplýsinga. Í tillögunni eru sett fram sjö viðmið er nota skal við mat á því hvort tiltekin starfsmaður telst starfsmaður viðkomandi fyrirtækis eða sjálfstæður verktaki. Uppfylli starfsmaður þrjú af þessum viðmiðum, verði litið svo á að hann sé starfsmaður viðkomandi fyrirtækis og skuli njóta réttarstöðu sem slíkur, nema rekstraraðili geti sýnt fram á annað.

Viðmiðin snúa meðal annars að því hvernig endurgjaldi fyrir vinnuna er háttað, hvort takmarkanir séu á heimildum til að afþakka verkefni og reglum sem gilda um útlit og framkomu starfsmanna.

Nokkuð erfiðlega hefur gengið að ná samkomulagi í ráðherraráði ESB um afstöðu til gerðarinnar. Það sem helst hefur steytt á er skilgreining á því hvenær starfsmannasamband telst vera komið á. Þannig reyndu Tékkar, í formennskutíð sinni, til þrautar að ná samkomulagi í desember sl. en án árangurs. Svíar hafa jafnframt lagt mikla áherslu á að ná niðurstöðu innan ráðsins um afstöðu til málsins sem hefur nú tekist eins og framan greinir.

Þegar Evrópuþingið hefur formlega samþykkt afstöðu til málsins geta þríhliðaviðræður ráðherraráðs ESB, þingsins og framkvæmdastjórnar ESB hafist og verður áhugavert að fylgjast með þeim ekki síst þar sem fyrir liggur að ekki er fullur einhugur um efni gerðarinnar meðal aðildarríkjanna þrátt fyrir að ekkert þeirra hafi greitt atkvæði gegn henni í ráðinu. Tuttugu og tvö ríki greiddu atkvæði með þeirri afstöðu sem nú liggur fyrir en fjögur ríki sátu hjá, þ.e. Þýskaland, Grikkland, Eistland og Lettland. Þá skiluðu nokkur ríki, sem greitt höfðu atkvæði með gerðinni, sameiginlegri yfirlýsingu þar sem fram kemur að vilji þeirra standi til að ganga lengra í réttarvernd starfsmanna.

Samtök Evrópskra verkalýðsfélaga hafa lýst yfir óánægju með að ekki sé í tillögunni gengið lengra til verndar starfsmönnum og er þar vonast til að henni verði breytt í þríhliða viðræðunum. Þeir benda á að með henni sé þeim sem sinna störfum með milligöngu stafrænna vettvangfyrirtækja hvorki tryggð lágmarkslaun, né félagsleg vernd. 

Gerðin er merkt EES tæk af hálfu framkvæmdastjórnar ESB en greining sérfræðinga EES-ríkjanna í því efni liggur ekki fyrir.

Efling félagslega hagkerfisins

Þann 13. júní sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögur um að ráðist verði í markvissar aðgerðir á grundvelli aðgerðaráætlunar um félagslega hagkerfið (e. Social economy) sem lögð var fram á árinu 2021. Markmið þeirrar áætlunar var styrkja félagslega hagkerfið og styðja við endurreisn efnahagslífsins í kjölfar  kórónuveirufaraldursins. Skilgreining félagslega hagkerfisins er aðeins mismunandi eftir ríkjum en að jafnaði er það talið ná til óhagnaðardrifinna stofnana, utan hins opinbera stofnanakerfis, og félagasamtaka, góðgerðarsamtaka, félagslegra sjóða og fyrirtækja sem starfa í almannaþágu þar sem mögulegum hagnaði af rekstri er varið til góðgerðar- eða umhverfismála.

Í aðgerðaráætluninni voru boðaðar aðgerðir í þremur liðum;

  1. Skapa betri lagaumgjörð og rekstrargrundvöll fyrir félagslega hagkerfið, og eru í því sambandi nefndar skattaívilnanir, hagstæðir útboðsskilmálar og reglur um ríkisaðstoð.
  2. Skapa betri forsendur fyrir stofnun og viðgang félagslegra stofnana og endurmenntun starfsmanna og boðað að settur verði upp upplýsingabrunnur þar sem hægt er að finna allar viðeigandi upplýsingar á einum stað um möguleika á fjármögnun frá ESB auk aðgerða og stefna á þessu sviði.
  3. Gera félagslega hagkerfið meira sýnilegt og auka vitund um verkefni þess og möguleika, einnig hugðist framkvæmdastjórnin safna upplýsingum um starfsemi félagslega hagkerfisins í Evrópu.

Með tillögunum nú er leitast við að hrinda framangreindri stefnumörkun í framkvæmd og skapa hagstæð skilyrði fyrir vöxt og viðgang óhagnaðardrifinna stofnana og vekja athygli á möguleikum þeirra til að skapa gæðastörf og styrkja efnahag aðildarríkjanna. Aðgerðirnar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:

  1. Sett er fram tillaga að tilmælum ráðherraráðs ESB til aðildarríkjanna um að setja fram og innleiða stefnur á sviði félagslega hagkerfisins. Talið er að fyrirtæki og stofnanir á þessu sviði geti gegnt lykilhlutverki við að búa til góð störf, stuðla að þjálfun og að auka inngildingu í samfélaginu auk þess sem þau gegna gjarnan lykilhlutverki í umönnunargeiranum og geta þannig stutt við innleiðingu á Evrópsku umönnunarstefnunni (e. Care Strategy) auk þess sem hún er til þess fallin að bæta aðgengi að vinnumarkaði og auka inngildingu (e. Inclusion).

  2. Settur hefur verið upp upplýsingabrunnur, Social Economy gateway, en þar má finna allar upplýsingar um aðgerðaráætlunina um félagslega hagkerfið, aðila sem starfa á því sviði og væntanlega viðburði, auk þess sem gerð er grein fyrir samstarfsáætlunum ESB og möguleikum á fjármögnun verkefna með aðkomu þeirra. Þá hefur verið sett upp gátt þar sem þeir sem hyggjast bjóða í verkefni hjá ESB eða sækja um styrki til verkefna geta haft bein samskipti rafrænt við stofnanir ESB. 

Kolefnisjöfnunargjald við landamæri

Í Vaktinni 16. desember sl. var greint frá því að samkomulag hefði náðst í þríhliðaviðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu að reglugerð um upptöku á kolefnisjöfnunargjaldi við landamæri, (e. Carbon Border Adjustment Mechanism - CBAM). Hefur reglugerðin nú verið birt í Stjórnartíðindum ESB og mun regluverkið taka gildi í áföngum, fyrst í október nk. og að fullu 1. janúar 2026.

Til að undirbúa gildistökuna hefur framkvæmdastjórn ESB nú birt drög að fyrstu framkvæmdareglugerð CBAM, um upplýsingaskyldu innflutningsaðila á aðlögunartímabilinu sem hefst 1. október nk. og hafa þau drög jafnframt verið birt í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 11. júlí nk.

Markmiðið með gjaldtökunni er að hindra kolefnisleka tiltekinna vara (e. carbon leakage) sem teljast hafa stórt kolefnisspor og framleiddar eru og fluttar inn frá þriðju ríkjum. Með upptöku CBAM er í reynd verið að jafna verð milli samkynja vara, sem annars vegar eru framleiddar innan ESB undir reglum ETS kerfisins um losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System), og hins vegar innfluttra vara frá ríkjum utan ESB og EFTA, þar sem ekki er til staðar kolefnislosunarkerfi sambærilegt við ETS.

Innleiðing CBAM í áföngum - vöruflokkar. Í fyrsta áfanga mun löggjöfin einungis ná til sex vöruflokka sem framleiddir eru af kolefnisfrekum iðngreinum þar sem mikil hætta á kolefnisleka er fyrir hendi. Tveir þeirra, þ.e. raforka og vetnisorka, eiga ekki við um Ísland. Vöruflokkarnir eru:

  1. Sement,
  2. Áburður,
  3. Járn og stál,
  4. Ál og álvörur,
  5. Raforka og
  6. Vetnisorka.

Í viðauka I við CBAM reglugerðina má finna upptalningu á þeim tollskrárnúmerum (e. CN codes) sem falla undir hana. Sem fyrr segir hefur reglugerðin þegar tekið gildi og kemur fyrsti áfangi til framkvæmda 1. október nk. og gildir til ársloka 2025. Á því tímabili verður einungis um upplýsingasöfnun að ræða, en gjaldtakan sjálf hefst ekki fyrr en í öðrum áfanga CBAM á árinu 2026. Hefur verið rætt um að á því ári verði gildissvið regluverksins jafnframt víkkað út þannig að inn komi nýir vöruflokkar eins og plast, plastvörur og efnablöndur og síðan í þriðja áfanga, fyrir árið 2034, allir vöruflokkar sem nú falla undir ETS-kerfið. Frá þeim tímapunkti verða ekki lengur veittar gjaldfríar losunarheimildir. Segja má að CBAM sé í raun óaðskiljanlegur hluti af nýju eða breyttu ETS kerfi um sölu loftlagsheimilda.

Upplýsingar um kolefnisinnihald. Frá og með 1. október 2023 verður innflytjendum vara sem falla undir CBAM gert skylt að safna og skrá kolefnisupplýsingar þeirra. Um verður að ræða ársfjórðungslega skýrslugjöf, bæði um beint og óbeint innihald kolefnis í viðkomandi vöru. Í flestum tilvikum verður það framleiðandi vörunnar eða útflytjandi sem veitir innflytjanda umræddar upplýsingar. Þessum upplýsingum verður skilað inn í miðlægan gagnagrunn ESB, sbr. framangreind framkvæmdareglugerðardrög. Staðfesting eða formlegt eftirlit með því að upplýsingarnar séu réttar hefst ekki fyrr en árið 2026, þegar gjaldtakan eða sala á CBAM skírteinum hefst. Þá verður líka tekin upp árleg skýrslugjöf með ítarlegri upplýsingum.

Sala CBAM skírteina. Í ársbyrjun 2026 hefst gjaldtaka CBAM eins og áður var nefnt með sölu á svokölluðum CBAM skírteinum, en verð þeirra ræðst af kolefnisinnihaldi vörunnar sem flutt er inn og því kolefnisverði sem skráð er á Evrópumarkaði á hverjum tíma. Í dag er verðið 90 -100 evrur á hvert tonn af kolefni. Ef upplýsingar um kolefnisinnihald liggja ekki fyrir hafa stjórnvöld heimild til að áætla það með ákveðnu álagi eða viðurlögum. Gert er ráð fyrir að til verði viðurkenndir kolefnismatsaðilar (e. accredited verifiers) og sömuleiðis að innflytjendur CBAM vara (e. CBAM goods declarants) þurfi að afla sér sérstakrar viðurkenningar til að kaupa CBAM skírteinin. Geti innflytjendur fært sönnur á að greitt hafi verið kolefnisgjald af viðkomandi vöru í þriðja ríki skal tekið tillit til þess við ákvörðun CBAM í aðildarríkjum ESB og EFTA.

Framkvæmd CBAM - hagsmunaaðilar. Ljóst er að CBAM kerfið kallar á viðamikið utanumhald með tilheyrandi kostnaði. Þeim kostnaði verður ekki mætt með tekjum af gjaldtökunni fyrr en í fyrsta lagi árið 2026 þegar sala CBAM skírteinanna hefst. Af texta CBAM reglugerðarinnar má ráða að tollyfirvöldum í hverju ríki fyrir sig sé ætlað að annast framkvæmd kerfisins, þ.m.t. sölu CBAM skírteina og upplýsingasöfnun. Í dag eru tollyfirvöld þegar að safna ýmis konar upplýsingum um innfluttar vörur samkvæmt tollskrárnúmerum, auk þess að innheimta hvers kyns aðflutningsgjöld af innflutningi. Með því að fela tollyfirvöldum framkvæmdina að þessu leyti nást fram ákveðin samlegðaráhrif sem draga ætti úr kostnaði við framkvæmdina. Fyrir liggur að hin Norðurlöndin munu fela tollyfirvöldum framkvæmdina og að fjármálaráðherrar þeirra  (skattamálaráðherra í Danmörku) munu leggja fram og bera ábyrgð á innleiðingu og framkvæmd regluverksins. Tekjur af sölu skírteinanna mun renna í ríkissjóð í tilviki EFTA ríkjanna.

Verðlagning á kolefni (CO2) samkvæmt CBAM. Þyngdin er sú stærð sem horft er til þegar kolefnisinnihald varanna er metið samkvæmt ákveðinni formúlu sem tilgreind er í viðauka IV með reglugerðinni. Kolefnisverð skráð á Evrópumarkaði á hverjum tíma er hin meginbreyta formúlunnar. Verðmæti innfluttra CBAM vara skiptir þannig engu máli við kolefnisverðlagninguna.

Frumgreining á gildissviði CBAM á Íslandi. Eins og áður hefur komið fram munu CBAM vörur framleiddar eða innfluttar frá aðildarríkjum ESB og EFTA verða undanþegnar gjaldtökunni. Þá er ekki ósennilegt að Bretland falli þar einnig undir a.m.k til framtíðar, en niðurstaða þar um liggur ekki fyrir að svo stöddu. Niðurstaða í því efni getur skipt töluverðu máli fyrir Ísland er kemur að innflutningi á áburði þar sem liðlega 20% af þeim vöruflokki kom frá Bretlandi á árunum 2021 og 2022 svo dæmi sé tekið. Vöruflokkurinn sement vegur þyngst í heildarmagni af innfluttum CBAM vörum. Mikill meirihluti sements kemur frá ríkjum ESB og EFTA og áhrif af CBAM því hverfandi fyrir þann vöruflokk. Af vöruflokknum járn og stál eru um 15% flutt inn frá þriðju ríkjum. Þar vegur þyngst innflutningur frá Kína, Indlandi og Kanada.  Innleiðing á CBAM gæti haft þau áhrif að samkeppnisstaða milli umræddra viðskiptasvæða yrði jafnari vegna hærra verðs á innflutningi frá þriðju ríkjum sem er í samræmi við markmið gjaldtökunnar. Svipuð staða er uppi á teningnum þegar kemur að vöruflokknum ál og álvörur eins og með járn og stál, en 24% af innflutningi í þeim vöruflokki kemur frá þriðju ríkjum. Þar er fyrst og fremst um að ræða innflutning frá Kanada. Innleiðing CBAM ætti að minnka verðmuninn milli viðskiptasvæðanna  og þar með væri markmiði gjaldtökunnar náð. Ekki er talin ástæða að fjalla um orkuflokkana tvo, þ.e. raforku og vetnisorku, sem falla undir gildissvið CBAM, enda Ísland sjálfbært hvað slíka orku varðar.

Áhrif af innleiðingu CBAM á Íslandi. Miðað við frumgreininguna hér að framan ætti innleiðing CBAM að hafa tiltölulega lítil áhrif á verð innflutnings hér á landi þegar á heildina er litið. Hækkun áburðarverðs ætti að vera hverfandi svo fremi að Bretland verði í hópi undanþeginna ríkja og þar með eru áhrif CBAM á landbúnaðargreinar nánast engin. Áhrif CBAM á sementsverð ættu einnig að vera lítil enda er mikill meirihluti sement fluttur inn frá ríkjum ESB og EFTA. Þar með ætti byggingaiðnaðurinn ekki að verða fyrir miklum áhrifum. Aftur á móti gæti meðalverð á járni, stáli, áli og vörum unnum úr þessum málmum hækkað nokkuð með innleiðingu CBAM með tilheyrandi áhrifum á byggingarkostnað, umbúðaverð og þar með mögulega ýmsar neysluvörur. Skýrt skal tekið fram að hér er einungis um frumgreiningu að ræða og er unnið að frekari greiningu á einstökum vöruflokkum reglugerðarinnar. Þá er líka til skoðunar hvernig formúlan um útreikning á kolefnisinnihaldi er samansett þannig að unnt verði að meta tekjurnar af sölu CBAM skírteina á móti þeim kostnaði sem óhjákvæmilega fylgir framkvæmd regluverksins.

Reglugerð um rafhlöður

Framkvæmdastjórn ESB lagði fram tillögu að nýrri reglugerð um rafhlöður 10. desember 2020.

Hinn 9. desember sl. náðu ráðherraráð ESB, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB niðurstöðu í þríhliða viðræðum um efni tillögunar og staðfesti Evrópuþingið þá niðurstöðu í atkvæðagreiðslu 14. júní sl.

Með tillögunni eru í fyrsta skipti settar heilstæðar reglur þar sem tekið er á þáttum er varða framleiðslu, endurnotkun og endurvinnslu rafhlaðna þar sem áhersla er lögð á að rafhlöður séu öruggar, sjálfbærar og samkeppnishæfar

Hin nýja reglugerð mun leysa af hólmi núverandi rafhlöðutilskipun frá 2006 og felur m.a. í viðbót við löggjöf um meðhöndlun úrgangs.

Rafhlöður og sjálfbær framleiðsla þeirra og endurvinnsla er ein af forsendum þess að markmið ESB um núlllosun (e. zero-emission) og kolefnishlutlaust hagkerfi geti náðst. Ljóst er að eftirspurn eftir rafhlöðum mun vaxa mikið og mikilvægt að tryggja að framboð á rafhlöðum sé nægt og að þær séu sjálfbærar í gegnum alla aðfangakeðjuna. Standa vonir til þess að nýju reglurnar muni efla samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar og tryggja að rafhlöðum verði safnað og þær endurunnar á réttan hátt þannig að nýtanlegt efni verði endurheimt og eiturefni berist síður út í umhverfið.

Reglugerðin gildir um allar rafhlöður hverju nafni sem þær nefnast og miða kröfurnar  að því að stuðla að eflingu hringrásarhagkerfisins.

Í reglugerðinni eru sett fram markmið um söfnun úrgangsrafhlaðna (63% fyrir árslok 2027 og 73% fyrir árslok 2030) og kynnt er til sögunnar sérstakt söfnunarmarkmið fyrir úrgangsrafhlöður frá léttum samgöngutækum (51% fyrir árslok 2028 og 61% fyrir árslok 2031). Þá er sett markmið um að endurnýting lithíums úr úrgangsrafhlöðum nái 50% markinu fyrir árið 2027 og 80% markinu fyrir árið 2031.

Reglugerðin kveður á um lögboðið lágmarksmagn af endurunnu efni sem nota skal í framleiðslu iðnaðarrafhlaðna og í rafgeyma og er í reglugerðinni jafnframt kveðið á um skyldu um að rafhlöðum fylgi upplýsingar um magn endurunninna efna sem notuð voru við framleiðsluna. Þá kveður reglugerðin á um endurvinnslumarkmið fyrir nikkel-kadmíum rafhlöður upp á 80% fyrir árið 2025 og 50%, fyrir sama tímamark, fyrir aðrar úrgangsrafhlöður.

Þá er í reglugerðinni kveðið á um að rafhlöðuknúin tæki séu þannig úr garði gerð að neytendur geti sjálfir skipt um rafhlöður í þeim. Rekstraraðilar fá góðan tíma til að aðlaga hönnun vara sinna að þessari kröfu eða 42 mánuði frá gildistöku reglugerðarinnar.

Vistvæn framleiðsla snjalltækja

Þann 16. júní sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögu að nýrri afleiddri reglugerð  sem ætlað er að stuðla að því að neytendur geti með skýrari hætti lagt mat á það við kaup á farsímum og spjaldtölvum að hvaða marki framleiðsla þeirra, orkunýtni og möguleg endurvinnsla sé vistvæn og sjálfbær. Er tillagan lögð fram með heimild í  reglugerð ESB um orkumerkingar. Sama dag og tillagan var lögð fram samþykkti Evrópuþingið og ráðið tillögu framkvæmdastjórnar ESB að tilskipun um vistvæna framleiðslu slíka tækja, þ.e. að þau verði orkunýtnari, endingarbetri og auðveldara að gera við þau, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 1. apríl 2022.

Framangreindar ráðstafanir er ætlað að styrkja hringrásahagkerfið, spara orku, draga úr kolefnisfótspori og skila neytendum ávinningi.

Samkvæmt reglugerðartillögunni verða m.a. upplýsingar um orkunýtni og endingu rafhlöðu að fylgja snjallsímum og spjaldtölvum sem settar eru á markað, sem og upplýsingar um „viðgerðarhæfni“ þegar vara er sett á markað í fyrsta sinn á EES svæðinu. Þetta mun hjálpa neytendum að taka upplýstari og sjálfbærari ákvarðanir við kaup á þessum vörum og styðja við sjálfbært neyslumunstur.

Tillagan verður nú kynnt Evrópuþingið og ráðherraráði ESB áður en hún verður formlega staðfest af framkvæmdastjórn ESB.

Tvíhliða samningur milli Bretlands og Noregs um makrílkvóta fyrir árið 2023

Strandríki hafa verið í viðræðum, mörg undanfarin ár, um varanlega skiptingu á makrílkvóta úr Norðaustur-Atlantshafsstofninum en án árangurs. Þessi ríki og ríkjasambönd eru auk Íslands, Noregur, ESB, Bretland, Færeyjar og Grænland. Fyrir útgöngu Bretlands úr ESB (BREXIT) samdi ESB fyrir hönd Bretlands með sama hætti og það gerir fyrir hönd annarra aðildarríkja ESB en eftir BREXIT eru bæði ESB og Bretland við samningaborðið og hefur það flækt samningaviðræðurnar enn frekar.

Ríkin hafa þó undanfarin ár fallist á heildarkvóta í makríl samkvæmt tillögu frá Alþjóðahafrannsóknarráðinu (e. International Council for the Exploration of the Sea - ICES) og í desember í fyrra samþykktu ríkin að makrílkvótinn fyrir fiskveiðiárið 2023 skyldi vera 782.066 tonn. Ríkin hafa á hinn bóginn ekki geta komið sér saman um innbyrðis skiptingu kvótans og hafa aðildar því hver fyrir sig sett sér einhliða kvóta sem samanlagt hefur reynst vera 30-40% yfir ráðlögðum hámarkskvóta.

Fyrr í þessum mánuði gerðu Bretar og Norðmenn hins vegar með sér tvíhliða samning um makrílkvóta þar sem löndin ákveða einhliða að skipta með sér 58,91% alls makrílkvótans. Samkvæmt samningnum fær Noregur 31,95% í sinn hlut og Bretland 26,96%. Til að halda sig innan samþykkts heildarkvóta mætti samanlagður kvóti annarra ríkja samanlagt ekki vera hærri en sem nemur 41,09% af heildarkvótanum. Fyrirfram verður að teljast afar ólíklegt að það verði raunin enda hefur samanlögð krafa hinna ríkjanna staðið til hærri hlutdeildar. Er því fyrirséð að enn og aftur verði kvótasetning og veiðar úr markílstofninum meiri en ráðleggingar segja fyrir um og er það miður.

Í tvíhliða samningi Bretlands og Noregs er auk þess kveðið á um það að Noregur geti veitt allt að 60% af sínum kvóta í breskri lögsögu og greiði fyrir þann aðgang með 24.635 tonnum af makríl sem flyst af hlut Noregs yfir til Bretlands. Ástæðan fyrir vilja Noregs til samninga í þessa veru liggur í þeirri staðreynd að besta veiðisvæði makríls í Norður-Atlantshafi er í breskri lögsögu og hafa bæði Norðmenn og Færeyingar gert samning við Breta um veiðar í bresku lögsögunni undanfarin ár en ekki liggur fyrir hvort Færeyingar og Bretar hafi gert samning um veiðar á árinu 2023. Ísland hefur hins vegar veitt allan sinn kvóta í eigin lögsögu og á alþjóðlegu hafsvæði.

Tiltekin strandríki hafa áður gert með sér hlutasamkomulag en það var árið 2014 þegar ESB, Noregur og Færeyjar gerðu með sér samning um skiptingu makrílkvótans en skildu Ísland og Grænland eftir, en Grænland var þá nýkomið að borðinu. Loks hamlar það markmiðinu um sjálfbærar veiðar út stofninum enn frekar að Rússar hafa veitt makríl úr stofninum en eru þó ekki hluti af strandríkjahópnum sem átt hefur í samningaviðræðum.

Ísland tók við formennsku í strandríkjaviðræðunum af Bretum í vor og munu samningaviðræður hefjast að nýju í haust.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta