Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Fótspor íslenskrar þróunarsamvinnu í Mangochi héraði

Þau eru mörg íslensku fótsporin í Mangochi. - mynd

Vatnsskrifstofa Mangochi héraðs tók að sér það metnaðarfulla verkefni að beiðni sendiráðs Íslands í Malaví að kortleggja alla innviði og byggingar sem fjármagnaðar hafa verið af hálfu íslenskra stjórnvalda síðasta áratuginn. Kortið er gagnvirkt og sýnir hvar skólabyggingar, heilsugæslustöðvar, vatnsveitukerfi og fæðingadeildir eru í héraðinu en auk þess að sýna upplýsingar um byggingarnar á kortinu er hægt skoða myndir og fá helstu upplýsingar um stuðning Íslands á tilteknum stöðum.

Verkefnið var metnaðarfullt enda tók það um ár að ljúka við að merkja inn allar staðsetningar sem sýna núna 48 heilbrigðisstofnanir sem hafa notið stuðnings, 12 grunnskóla og rúmlega 1100 vatnspósta. Næsta skref er að merkja inn fótspor Íslands í héraðinu frá tímum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands frá 1989 til 2012.

Rúmlega þriggja áratuga samstarf

Þróunarsamvinna Íslands í Malaví spannar yfir rúma þrjá áratugi. Malaví er eitt fátækasta land í heimi, álíka að landræðilegri stærð og Ísland en íbúafjöldi er rúmar 20 milljónir. Samstarf Íslands í landinu hefur að mestu verið í gegnum svokallaða héraðsnálgun þar sem lagt er upp með að byggja upp félagslega innviði á sviði menntunar, heilsu og vatns- og hreinlætismála í samstarfi við héraðsyfirvöld. Nálgunin gengur út á að styðja fjárlagslega við langtíma áætlanir héraðsyfirvalda/sveitarstjórnar til uppbyggingar á þessum sviðum auk þess að veita tæknilegan stuðning. Þessi nálgun setur eignarhald heimamanna í öndvegi og úttektir hafa sýnt fram á góðan árangur samstarfsins.

Frá árinu 2012 hefur Ísland unnið í einu fjölmennesta héraði landsins, Mangochi sem telur ríflega 1,2 milljón íbúa. Náin samvinna Íslands og héraðsyfirvalda í Mangochi hefur vakið athygli og fleiri stærri framlagsríki eru að taka upp þessa nálgun. Það er ekki síst áhersla Íslands á að styðja við innviða uppbyggingu á þessum sem sviðum sem vekur athygli. Á síðustu árum hefur Ísland fjárfest ríkulega í þessari félagslegu uppbyggingu Mangochi eða fyrir rúmlega 41 milljónir bandaríkjadala. Á árinu hefst samstarf við nýtt hérað, Nkhotakota, sem byggir á sömu nálgun.

„Árangurinn af því að styðja við framkvæmdir á sviði heilsu, menntunar og aðgengi að hreinu vatni eru langtíma lausnir og bæta lífsgæði og lífsmöguleika þeirra fátækustu um leið og byggingarnar eru starfhæfar,” segir Inga Dóra Pétursdóttir forstöðukona íslenska sendiráðsins í Lilongve. „Með fjárhagslegum stuðningi og náinni samvinnu á síðustu tíu árum hafa til dæmis tólf grunnskólar verið byggðir upp á heildrænan hátt með 84 skólastofur og 42 kennarahús, mæðra- og ungbarnadeild byggð á héraðssjúkrahúsinu sem þjónar um 50 þúsund konum á barneignaraldri og börnum undir fimm ára, níu fæðingadeildir og 21 heilsupóstar í dreifbýli sem tryggja 71 þúsund konum og börnum grunnheilbrigðisþjónustu í sveitum héraðsins, og ellefu hundruð vatnspóstar og tvö sólardrifin vatnskerfi sem veita 360.000 manns aðgang að hreinu vatni.”

Að auki hefur stuðningur Íslands við byggðaþróunarverkefnið í Mangochi veitt heildrænan stuðning við þessa geira hvað varðar þjálfun og ráðningu starfsfólks við heilbrigðistofnanir og skóla, sem núna eru á launaskrá ríkisins, og valdeflingu samfélagsinnviða, líkt og heilbrigðisnefnda í sveitum, skólanefnda og mæðrahópa sem aðstoða við að fá fólk til að nýta sér og styðja við notkun á nýjum innviðum og viðhalda þeim. Auk þessa hafa skrifstofur fjármála, innkaupa- og framkvæmdasvið héraðsins fengið aðstoð. Skrifstofa jafnréttismála og ungmenna í héraðinu hefur einnig verið styrkt til að framkvæma aðgerðir fyrir efnahagslega valdeflingu þessara hópa.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta