Degi íslenska táknmálsins fagnað
Dagur íslenska táknmálsins var í gær og var honum fagnað með margvíslegum hætti. Íslenskt táknmál er fyrsta mál um 200 Íslendinga en fjölmargir fleiri nýta sér íslenskt táknmál í daglegu lífi og starfi. Í tilefni dagsins heimsótti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra en stofnunin gegnir fjölþættu hlutverki fyrir döff-samfélagið á Ísland. Stofnunin sinnir meðal annars túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku, rannsóknum á íslensku táknmáli og kennslu íslensks táknmáls og námsefnisgerð. Hjá Samskiptamiðstöðinni starfa tæplega 30 starfsmenn að því að efla þjónustu við táknmálstalandi fólk sem víðast í samfélaginu.
„Þetta er mikilvægur dagur fyrir döff-samfélagið á Íslandi og okkur öll. Íslenska táknmálið er eina hefðbundna minnihlutamálið hér á landi og það á sér merka sögu. Hins vegar er staða þess, líkt og margra annarra táknmála heimsins, flókin vegna þeirra breytinga sem meðal annars hafa átt sér stað í menntun og málumhverfi okkar. Það er áskorun að mæta því en eitt mikilvægasta skrefið í þá veru er að vinna málstefnu um íslenskt táknmál. Ég vil einnig nýta þetta tækifæri til þess að þakka fráfarandi forstöðumanni Samskiptamiðstöðvarinnar, Valgerði Stefánsdóttur, kærlega fyrir hennar fjölbreyttu störf í þágu íslenskra táknmálsins og óska Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur, nýjum forstöðumanni stofnunarinnar, velfarnaðar í sínum störfum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Málnefnd um íslenskt táknmál er stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni íslenska táknmálsins og er stefnt að því, samkvæmt þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, að henni verði falið að vinna drög að málstefnu um íslenskt táknmál í samvinnu við sérfræðinga og hagsmunaaðila. Lengi hefur verið kallað eftir því að unnin verði slík stefnumótun í málefnum íslenska táknmálsins en meðal áhyggjuefna þar eru bág máltaka og menntun barna sem tala táknmál. Að auki hefur verið bent á að setja þurfi lög um túlkaþjónustu í daglegu lífi og um túlkaþjónustu í atvinnulífi til að tryggja rétt þeirra sem tala táknmál.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur hvatt skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til þess að huga að því að nota þennan dag, 11. febrúar, og dagana þar í kring til að kynna íslenskt táknmál. Fræðsluefni um íslenskt táknmál má meðal annars finna á vefnum, í þekkingarbrunninum Sign Wiki og á KrakkaRÚV.