Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

A-474/2013. Úrskurður frá 31. janúar 2013

ÚRSKURÐUR


Hinn 31. janúar 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-474/2013.

Kæruefni og málsatvik


Með bréfi, dags. 9. júní 2012, kærði [A] þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 8. júní, að synja um aðgang að upplýsingum „vegna lánasamninga sem bærinn gerði fyrir hönd bæjarbúa við Depfa banka“.

Með kærunni fylgdi tölvupóstur frá Hafnarfjarðarbæ, dags. 8. júní, þar sem fram kemur að beiðni kæranda sé synjað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem hinir erlendu viðsemjendur bæjarins geri kröfu um algjöran og frávikalausan trúnað um viðskiptakjör og beri fyrir sig þá hagsmuni sem þeir eigi undir vegna samninga og samningsumleitana við aðra aðila.

Málsmeðferð og rökstuðningur aðila


Kæran var kynnt Hafnarfjarðarbæ með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2012.

Athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar af því tilefni bárust úrskurðarnefndinni með bréfi [B] hrl., f.h. Hafnarfjarðarbæjar, dags. 22. júní. Þar er synjun á aðgangi að umbeðnum gögnum fyrst og fremst rökstudd með vísan til 5. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Fram kemur að Hafnarfjarðarbær sé skuldlaus gagnvart þeim banka sem vísað sé til í kæru málsins, þ.e. Depfa banka, með því að nýr kröfuhafi FMS Wertmanagement hafi yfirtekið kröfuna með nýjum lánssamningi sem geymi niðurstöður viðræðna sem hafi staðið í þrjá ársfjórðunga, en lyktað á fundi í London þann 24. nóvember 2011. Hafi málið verið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi 7. desember 2011. Af hálfu viðsemjenda bæjarins hafi verið mikill þrýstingur lagður á fyrirsvarsmenn bæjarins um trúnað um efnisatriði, sem hafi verið þvert gegn vilja og ætlan þeirra. Eindreginn vilji fyrirsvarsmanna Hafnarfjarðarbæjar hafi staðið til þess að gera niðurstöður viðræðnanna heyrinkunnar. Þess hafi hins vegar verið krafist að trúnaðarloforð yrði undirritað og haldið, sbr. 34. gr. í samningnum. Áður hafi bærinn verið látinn gefa sérstakt trúnaðarloforð í skilmálaskjali sem hafi verið undanfari samningsins. Til samræmis við þetta hafi fundur bæjarstjórnar verið haldinn fyrir luktum dyrum og ekki útvarpað svo sem venja sé.

Hafnarfjarðarbær eigi samkvæmt framanröktu ekki annarra hagsmuna að gæta í þessum tiltekna þætti málsins en að leitast við að standa við loforð um trúnað sem fyrirsvarsmönnum hans hafi verið gert að gefa að kröfu viðsemjenda, sem beri fyrir sig að eiga ríka viðskiptahagsmuni í húfi af því að trúnaður verði haldinn, vegna samskipta við aðra viðsemjendur.

Miklir hagsmunir Hafnarfjarðarbæjar séu undir í samskiptum við þennan lánardrottinn. Með samningnum hafi tekist að forða Hafnfirðingum frá alvarlegum vanskilaafleiðingum. Lausnin hafi hins vegar verið því verði keypt að fyrirsvarsmenn bæjarins hafi orðið að gefa greind trúnaðarloforð og hafi í því sambandi horft til 5. gr. upplýsingalaga. Trúnaðarloforð um viðskiptaskilmála séu tíðkanleg og viðtekin á vissum sviðum viðskiptalífsins. Þessa gæti á viðskiptasviðum sem opinberir aðilar komist ekki hjá að taka þátt í, svo sem í bankaviðskiptum og raforkusölu.

Öðrum þræði séu það jafnframt almannahagsmunir að fyrirsvarsaðilar opinbers valds geti haldið trúnaðarloforð sem gefin séu til framgangs aðgerðum úr alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum. Viðsemjandi Hafnarfjarðarbæjar FMS Wertmanagement sé í eigu og starfi á vegum þýska ríkisins, sem ráðstafað hafi til hans eignum úr bönkum sem þýska ríkið hafi yfirtekið við greiðsluþrot.

Í niðurlagi bréfsins segir að verði ekki fallist á kröfur Hafnarfjarðarbæjar sé með vísan til 18. gr. upplýsingalaga sett fram krafa um frestun réttarárhrifa slíks úrskurðar.

Með athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar fylgdi skjal á ensku, dags. 15. desember 2011, sem nefnist: „Term Loan Facility Agreement“ á milli Hafnarfjarðarbæjar og FMS Wertmanagement.

Með bréfi, dags. 25. júní, var kæranda kynnt framkomin umsögn Hafnarfjarðarbæjar og veitt tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum vegna hennar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 22. nóvember 2012, var FMS Wertmanagement gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum vegna kæru málsins og aðgangs að samningi þeim sem málið snýr að.

Með bréfi, dags. 21. desember 2012, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir Kára Hólmars Ragnarssonar hdl. fyrir hönd FMS Wertmanagement. Kemur þar fram að félagið telji að umbeðinn samningur sé undanþeginn upplýsingarétti á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Nánar tiltekið telji félagið að undanþága 5. gr. laganna nái til lánssamningsins í heild sinni.

Í umsögninni segir að eðli málins samkvæmt séu upplýsingar um lánakjör viðkvæmar upplýsingar er varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Vísað er til reglna um bankaleynd sem séu hluti gildandi réttar í öllum ríkjum Evrópu, sbr. t.d. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í samningsfrelsi felist réttur aðila til að kveða á um leynd, t.d. vegna sérumsaminna kjara sem kunni að vera hagstæðari en bjóðist að jafnaði. Telji fyrirtækið það bæði sanngjarnt og eðlilegt í samræmi við 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að samningur sá sem óskað er aðgangs að sé undanskilinn ákvæðum upplýsingalaga sem heimila almenningi aðgang að gögnum.

Í umsögninni segir svo orðrétt:

„Í alþjóðlegum lánaviðskiptum á borð við þau sem hið umdeilda skjal varðar er almennt samið um gagnkvæma trúnaðarskyldu vegna þeirra stórfelldu hagsmuna sem tengjast samningum og samningsumleitunum við aðra aðila. Er það almennt mat aðila að slíkum viðskiptum að trúnaður sé mikilvæg forsenda góðs viðskiptasambands og eru aðilar einnig almennt meðvitaðir um að lánskjör eru sérstaklega umsamin og hafa báðir aðilar almennt hagsmuni af því að fara með þau kjör sem trúnaðarmál. Það er ekki síst mikilvægt gagnvart lánastofnuninni, t.d. í þeim aðstæðum þar sem samningaviðræður standa yfir um fjöldann allan af lánum á sama tíma.

Umbjóðandi minn efast um að það myndi teljast heppilegt fyrir íslenska stjórnsýslu ef létt væri leynd af lánasamningum sem opinberir aðilar hefðu heitið að yrðu ekki gerðir opinberir. Þannig myndi traust gagnvart opinberum aðilum eiga á hættu að bíða hnekki sem gæti orsakað að samningsstaða þeirra myndi versna gagnvart lánastofnunum á borð við umbj.m. sem myndu telja það áhættusamt að semja við aðila sem ekki væri hægt að treysta á að myndi standa við orð sín um leynd. Þess ber þó að geta í ljósi yfirlýsingar Hafnarfjarðarbæjar þess efnis að umbj. minn hafi lagt ofuráherslu á trúnað í samskiptum aðilanna að sveitarfélagið undirgekkst samningsákvæði um trúnaðarskyldu af fúsum og frjálsum vilja líkt og önnur ákvæði lánssamingsins.“

Um viðskiptahagsmuni FMS Wertmanagement segir svo að byggt sé á sjónarmiðum um samkeppnishagsmuni: „...enda myndi aðgangur að umræddum upplýsingum, einkum upplýsingum um lánskjör, mögulega veikja rekstrar- og samkeppnisstöðu umbj.m. með tilheyrandi tjóni. Virðist liggja ljóst fyrir að meta afleiðingar þessa fyrir umbj.m,. sem starfar á sviði þar sem traust um trúnað er meðal grunnstoða sem liggur til grundvallar starfseminn[i], gætu orðið verulegt tjón. Rétt er að geta þess að umbj.m. er lánveitandi til annarra íslenskra aðila svo og til aðila erlendis og samningsstaða umbj.m. gagnvart þessum aðilum kynni að verða önnur og verri, gæti almenningur (og þar með gagnaðilar umbj.m. á öðrum vettvangi, svo og samkeppnisaðilar hans) nálgast upplýsingar um lánskjör í einstökum viðskiptum.“

Í athugasemdum FMS Wertmanagement er ennfremur vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-330/2010, nr. A-388/2011 og nr. A-453/2012. Fram kemur að FMS Wertmanagement telji að verulegar líkur séu á því að fyrirtækið verði fyrir tjóni, verði veittur aðgangur að umræddum gögnum. Lánskjör séu viðkvæmustu fjárhagsupplýsingar sem varði rekstur og viðskipti lánastofnana. Eðli upplýsinganna séu viðkvæmar lánskjaraupplýsingar úr einstökum viðskiptum og upplýsingarnar séu svo nýjar að lánssamningurinn sé enn í gildi og líklegt að samkeppnisaðilar og gagnaðilar FMS Wertmanagement geti nýtt sér þær í andstöðu við hagsmuni fyrirtækisins og þannig valdið tjóni. Aðgangur að upplýsingunum geti skert samkeppnishæfni þess.

Að lokum segir að fallist nefndin ekki á fortakslaust bann gegn aðgangi að umræddum samningi, fari FMS Wertmanagement fram á að afmáðar verði þær upplýsingar sem nefndin telji að skuli fara leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-438/2012 og A-177/2004. Er þess sérstaklega krafist að afmáðar verði, með vísan til 7. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, upphæðir í tilteknum ákvæðum samningsins og að undanskilja beri eftirfarandi ákvæði, þar sem þau séu sérstaklega viðkvæm:

1.    Skilgreining á „Margin“ á bls. 6. Fram kemur að skilgreiningin sé grundvallarákvæði samningsins um vaxtaprósentu og því „verð“ lánsins. Samsvari ákvæðið þeim ákvæðum skilmálaskjalsins („Term Sheet“) sem beri heitin „Tranche A Margin“ og „Tranche B Margin“ sem hafi sérstaklega verið undanskilin aðgangi með úrskurði nefndarinnar 5. júlí 2012.
2.    Ákvæði 6.1. („Repayment“). Í ákvæðinu komi fram endurgreiðsluskilmálar lánsins. Sé um að ræða annan gundvallarstólpa samningsskilmálanna, þ.e. hinna viðskiptalegu skilmála. Ákvæðið svari til ákvæða skilmálaskjalsins um „Scheduled amortisation payments“, sem hafi sérstaklega verið undanskilin aðgangi með úrskurði nefndarinnar 5. júlí 2012.
3.    Ákvæði 7.3 („Mandatory Prepayment – Allocation Proceeds.“). Ákvæðið fjalli um innborganir eða fyrirframgreiðslur ef tiltekin veðréttindi falli. Ráðstöfun fjárhæða sem komi til á þennan hátt sé afar mikilvægt atriði varðandi það hvernig samið hafi verið um skilmála lánsins og sé hluti af endurgreiðsluskilmálum lánsins, sem séu sérstaklega viðkvæmar upplýsingar fyrir FMS Wertmanagement.
4.    Ákvæði 9.1 („Calculation of interest“ – útreikningar vaxta). Ákvæðið fjalli um aðferðina við útreikning vaxta. Því sé um að ræða lykilatriði í lánaskilmálunum og, á sama hátt og skilgreiningin á „Margin“ sem fjallað var um að framan, sé grundvallarþáttur í þeim viðkvæmu viðskiptaupplýsingum sem fram komi í lánssamningnum.
5.    Ákvæði 9.3.1 („Rate of default interest“ – dráttarvextir). Líkt og vaxtastig almennt sé umsamið stig dráttarvaxta lykilatriði í hinum umsömdu skilmálum lánsins. Ákvæðið samsvari ákvæði skilmálaskjalsins um „Default Interest“ sem hafi sérstaklega verið undanskilin aðgangi með úrskurði nefndarinnar 5. júlí 2012.
6.    Ákvæði 11.2.1 („Calculation of interest in the event of a Market Disruption Event“). Vísað er til umfjöllunar um ákvæði 9.1. Eini munurinn sé að ákvæði 11.2.1. eigi við þegar markaðir séu óvirkir („Market Disruption Event“) eins og það er nánar skilgreint í ákvæði 11.2.2.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er kærð synjun Hafnarfjarðarbæjar um aðgang kæranda að lánasamningi Hafnarfjarðarbæjar við FMS Wertmanagement, dags. 15. desember 2011. Lítur úrskurðarnefndin svo á, með vísan til þess er rakið hefur verið hér að framan, að ekki leiki vafi á að beiðni kæranda um aðgang að gögnum taki til þessa samnings þótt beiðnin hafi í upphafi lotið að samningi við DEPFA Bank.

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar Hafnarfjarðarbær tók hina kærðu ákvörðun voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996. Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar var því byggð á efnisákvæðum þeirra laga.

Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessu leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt að teknu tilliti til þeirra efnisreglna um upplýsingarétt sem í gildi voru þegar hún var tekin. Meðferð úrskurðarnefndarinnar á kærumálinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju laga, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram. Með vísan til þessa er í úrskurði þessum tekin til þess afstaða hvort hin kærða ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar hafi verið í samræmi við efnisákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996. Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðarins, verði ekki fallist á kröfur stjórnvaldsins í málinu, ber hins vegar að afgreiða á grundvelli þeirra laga sem nú eru í gildi, þ.e. með vísan til 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
 
2.
Til rökstuðnings þeirri ákvörðun að synja kæranda um aðgang að framangreindum lánssamningi, dags. 15. desember 2011, byggði Hafnarfjarðarbær á ákvæði 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í því ákvæði kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um „samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.“ Bendir Hafnarfjarðarbær á, í þessu sambandi, að viðsemjandi Hafnarfjarðarbæjar FMS Wertmanagement sé í eigu og starfi á vegum þýska ríkisins, sem hafi ráðstafað til hans eignum úr bönkum sem þýska ríkið hafi yfirtekið við greiðsluþrot.

Í athugasemdum við ákvæði 2. tölul. 6. gr.  í frumvarpi sem síðan varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. að ákvæðið eigi við um: „samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða annars konar toga. Þeir hagsmunir, sem hér er verið að vernda, eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.“

Úrskurðarnefndin telur ekki að með öllu verði útilokað að sveitarfélag geti talist aðili á vegum íslenska ríkisins, í skilningi 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. A-438/2012. Sveitarfélög eru stjórnvöld og starfsemi þeirra lögbundin líkt og annarra stjórnvalda. Í þessu sambandi ber þó jafnframt að líta til 1. gr. sömu upplýsingalaga, en þar er hvort um sig tilgreint, ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar.

Það sem hér ræður hins vegar úrslitum, að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál, er að óskað er upplýsinga um tiltekin lánakjör og samninga sem grundvallast meðal annars á ákvörðunum aðila sem starfa á markaði. Nánar tiltekið er óskað upplýsinga frá Hafnarfjarðarbæ sem til hafa orðið vegna lántöku sveitarfélagsins á almennum lánamarkaði, og tiltekinnar endurnýjunar eða endurskoðunar þeirra samninga og skilmála í þeim. Breytir í því sambandi engu þótt lögaðilinn FMS Wertmanagement sé í eigu og starfi á vegum þýska ríkisins samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýringum Hafnarfjarðarbæjar til úrskurðarnefndarinnar, enda er hér um markaðsviðskipti að ræða en ekki lántöku af þýska ríkinu eða fjölþjóðastofnun í skilningi 2. tölul. 6. gr. uppýsingalaganna nr. 50/1996. Úrskurðarnefndin telur að aðgangur að gögnum um þessi tilteknu viðskipti geti ekki, eins og hér stendur á, fallið undir það ákvæði.  Synjun Hafnarfjarðarbæjar á aðgangi að umbeðnum gögnum varð því ekki byggð á því ákvæði.

3.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er að finna meginreglu laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.-6. gr. sömu laga. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum um túlkun laga verða þær undantekningar ekki skýrðar rúmt. Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna var þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Af tilgreindu ákvæði í 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum máls geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni, verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).

Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um kjör í viðskiptum fyrirtækja við hið opinbera geti skaðað samkeppnisstöðu þeirra og kunni jafnvel að skaða samkeppnisstöðu hins opinbera, hvort sem er ríki eða sveitarfélög. Það sjónarmið verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Til grundvallar umræddum lánssamningi er skilmálaskjal, dags. 5. desember 2011, milli  Hafnarfjarðarbæjar, FMS Wertmanagement og DEPFA banka, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011, en um aðgang að því skjali var fjallað í úrskurði nefndarinnar nr. A-438/2012 frá 5. júlí 2012 og tekin efnisleg afstaða til aðgangs að ákvæðum sem svara til þeirra ákvæða sem lögmaður FMS Wertmanagement hefur bent á að séu sérstaklega viðkvæm. Í skilmálaskjalinu er m.a. að finna upplýsingar um samningsskilmála endurfjármögnunar tiltekinna lána, þar með talið upplýsingar um afborganir og vaxtafót. Niðurstaða þess úrskurðar var sú að heimila skyldi aðgang að skjalinu að undanskildum ákvæðum um umsamda vexti og áætlaðar afborganir, sbr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Til þess ber að líta við mat á aðgangi að þeim lánssamningi sem kærumál þetta varðar að um er að ræða sömu viðskipti og lágu til grundvallar því skilmálaskjali sem fjallað var um í úrskurði nr. A-438/2012 en auk þess að umrætt skilmálaskjal liggur til grundvallar umbeðnum lánssamningi.

Tekið skal fram að ákvæði 34. gr. lánssamnings kærða við FMS Wertmanagement, um að efni hans skuli vera trúnaðarmál á milli aðila, getur ekki, eitt og sér, komið í veg fyrir aðgang kæranda að samningnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996, eins og skýrt er tekið fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps sem síðan varð að þeim lögum.

4.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið ítarlega yfir lánssamning milli Hafnarfjarðarbæjar og FMS Wertmanagement, dags. 15. desember 2011, en samningurinn er 63 blaðsíður auk forsíðu og efnisyfirlits, eða í heildina 65 blaðsíður. FMS Wertmanagement telur að samningurinn í heild falli undir vernd 5. gr. upplýsingalaga, en hefur jafnframt bent á að skilgreining á orðinu „Margin“ á bls. 6 í samningnum, auk ákvæða 6.1, 7.3, 9.1, 9.3.1 og 11.2.1 séu sérstaklega viðkvæm.

Sé samningurinn sem kærandi hefur óskað eftir að fá aðgang að virtur í heild sinni í ljósi þess sem að framan segir um 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, er það álit úrskurðarnefndar að kærandi eigi rétt á að fá aðgang að samningnum að undanskildum ákvæðum um umsamda vexti og áætlaðar afborganir í þeim viðskiptum sem um er að ræða. Byggist sú undantekning á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Ennfremur er það afstaða úrskurðarnefndarinnar að Hafnarfjarðarbæ beri, með vísan  til sama lagaákvæðis,  að undanskilja vaxtaprósentu í ákvæði um innborganir eða fyrirframgreiðslu ef tiltekin veðréttindi falla brott. Nefndin lítur svo á að slíkar upplýsingar sem fram komi í skilgreiningi á orðinu „Margin“ og ákvæðum 6.1., 7.3., og 9.3.1. séu það viðkvæmar, með tilliti til samkeppnisstöðu FMS Wertmanagement, að þær falli undir 5. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig m.a. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-177/2004 og A-438/2012.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á að Hafnarjarðarbæ hafi verið rétt samkvæmt 5. gr.  upplýsingalaga nr. 50/1996 að undanskilja aðgang að ákvæði 9.1. í samningnum, þar sem fjallað er um útreikning vaxta. Í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-438/2012 var heimilaður aðgangur að sambærilegu ákvæði í því skilmálaskjali sem þar var til umfjöllunar. Vísast til röksemda fyrir þeirri niðurstöðu.

Sama á við um aðgang að ákvæði samningsins nr. 11.2.1. um útreikning vaxta þegar markaðir eru óvirkir. Í ákvæðunum er ekki vísað til sérstakrar prósentutölu eða vaxtakjörin gefin upp með beinum hætti heldur er í ákvæðinu vísað til „margin“. Þær upplýsingar sem í þessu ákvæði koma fram veita í sjálfu sér ekki beinar upplýsingar sem leynt eiga að fara, að teknu tilliti til þess sem þegar hefur verið fallist á að skuli afmáð fyrir afhendingu, sbr. framangreint.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um þá hluta skjalsins sem veita ber aðgang að byggist á því annars vegar að þar komi fram upplýsingar sem ekki verði séð að muni valda samningsaðilum tjóni verði þær gerðar opinberar og hins vegar að um sé að ræða upplýsingar sem lúti með svo beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna að þær beri af þeim sökum að gera opinberar með vísan til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þrátt fyrir að viðsemjendur Hafnarfjarðarbæjar telji æskilegt að þeim yrði haldið leyndum af tilliti til fjárhagslegra hagsmuna sinna.

Með vísan til framangreinds og meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 um upplýsingarétt almennings ber Hafnarfjarðarbæ að afhenda kæranda afrit af umræddum lánasamningi, dags. 15. desember 2011, en þó með eftirtöldum útstrikunum, sbr. 7. gr. þeirra laga:

1) Afmá skal prósentuhlutfall vaxta undir skilgreiningu á „Margin“ á bls. 6.
2) Afmá skal prósentuhlutfall vaxta undir liðnum „Repayment Instalment“ í ákvæði 6.1 á bls. 16.
3) Afmá skal prósentuhlutfall sem fram kemur í ákvæði 7.3.5 á bls. 17.
4) Afmá skal prósentuhlutfall dráttarvaxta sem fram kemur í ákvæði 9.3.1.

Þar sem ákvæði 5. gr. upplýsingalaga á aðeins við um hluta umrædds samnings skal veita kæranda aðgang að öðrum hlutum hans, sbr. ákvæði 7. gr. upplýsingalaga.

5.
Í umsögn kærða, Hafnarfjarðarbæjar, var sett fram krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar þessa, yrði ekki fallist á kröfur Hafnarfjarðarbæjar. Í 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er mælt fyrir frestun á réttaráhrifum úrskurða úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt ákvæðinu getur úrskurðarnefndin, að kröfu þess sem ber að afhenda gögn samkvæmt úrskurði nefndarinnar, ákveðið að fresta áhrifum ákvörðunar sinnar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal berast úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki síðar en sjö dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum bundin því skilyrði að mál verði borið undir dómstóla innan sjö daga frá birtingu úrskurðar og óskað eftir að það hljóti flýtimeðferð. Verði beiðni um flýtimeðferð synjað skal höfða mál innan sjö daga frá þeirri synjun.

Hafnarfjarðarbær hefur engar forsendur til að óska frestunar á réttaráhrifum þessa úrskurðar fyrr en hann hefur verið birtur sveitarfélaginu, enda liggja ekki fyrr fyrir hjá því þau rök og tilvísun til þeirra lagareglna sem úrskurðurinn byggist á. Eðli máls samkvæmt og í samræmi við orðalag 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal stjórnvald gera kröfu um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þegar úrskurður hefur verið birtur. Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þessa, sem borin var upp í athugasemdum bæjarins við kæruna, ber því að vísa frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu.

Úrskurðarorð


Hafnarfjarðarbæ ber að afhenda kæranda afrit af lánssamningi, dags. 15. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og FMS Wertmanagement, með eftirtöldum útstrikunum:

1) Afmá skal prósentuhlutfall vaxta undir skilgreiningu á „Margin“ á bls. 6.
2) Afmá skal prósentuhlutfall vaxta undir liðnum „Repayment Instalment“ í ákvæði 6.1. á bls. 16.
3) Afmá skal prósentuhlutfall sem fram kemur í ákvæði 7.3.5. á bls. 17.
4) Afmá skal prósentuhlutfall dráttarvaxta sem fram kemur í ákvæði 9.3.1.

Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þessa er vísað frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu.






Trausti Fannar Valsson
formaður





                                                 Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta