Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2013 Forsætisráðuneytið

A-478/2013, Úrskurður 12. apríl 2013

ÚRSKURÐUR


Hinn 12. apríl 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð, nr. A-478/2013, í málinu nr. 12110011.

Málsatvik

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2013, krafðist Akureyrarbær þess að réttaráhrifum úrskurðar nr. A-472/2013, sem kveðinn var upp 31. janúar 2013, yrði frestað. Því til rökstuðnings segir að nafn kæranda sé rangt tilgreint, ekki sé vitað til þess að [A] sé starfandi, og úrskurðurinn uppfylli að óbreyttu ekki skilyrði til aðfararhæfis. Þá lýsir bærinn sig efnislega ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og ítrekar þau sjónarmið sín sem hefðu komið fram á fyrri stigum málsins. Síðan segir:
„Með vísan til alls framangreinds er annars vegar gerð krafa um að Akureyrarbæ sem hinu kærða stjórnvaldi berist leiðrétt útgáfa úrskurðarins en ella að réttaráhrifum hans verði frestað með vísan til 18. gr. laga nr. 50/1996, sbr. ákvæði 24. gr. núgildandi upplýsingalaga nr. 140/2012.“
Með bréfi, dags. 12. febrúar 2013, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að [B], hdl., f.h. [C], sendi nefndinni þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera við fram komna kröfu um frestun réttaráhrifa. Frestur var veittur til 22. febrúar. Engar athugasemdir bárust fyrir þann dag.

Niðurstaða

Í 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Skuli krafa þess efnis gerð eigi síðar en sjö  dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests. Ákvæði um frestun réttaráhrifa var áður í 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í athugasemdum við þá grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að 18. gr. upplýsinglaga nr. 50/1996, og nú 24. gr. laga nr. 140/2012, eigi fyrst og fremst við um tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem geta verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur er aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kunna síðar að verða skýrð af dómstólum. Af hálfu Akureyrarbæjar hefur ekkert komið fram um að uppfyllt séu framangreind skilyrði og að fyrir hendi sé sérstök ástæða, í skilningi 24. gr. laga nr. 140/2012, til að ákveða að fresta réttaráhrifum úrskurðar nr. A-472/2013, sem kveðinn var upp 31. janúar 2013.
Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns frá 31. janúar 2013. Ber því að hafna kröfu Akureyrarbæjar, þar að lútandi.
Með vísun til þess að nafn [A] var rangt tilgreint, og úrskurðarorð óljóst hefur, með vísun til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verið gefið út leiðrétt endurrit úrskurðar nr. A-472/2013. Fylgir það hjálagt.

Úrskurðarorð

Kröfu Akureyrarbæjar um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar frá 31. janúar 2013 nr. A-472/2013 er hafnað.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


                                                Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta