Hoppa yfir valmynd
6. júní 2013 Forsætisráðuneytið

A-482/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

ÚRSKURÐUR

Hinn 6. júní 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-482/2013 í málinu ÚNU 13030003.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 6. mars 2013, kærði [A] ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins varðandi aðgang að kvittunum vegna sölu á Síldarverksmiðjum ríkisins.

 

Málsatvik

Forsaga málsins er sú að þann 15. maí 2012 fór kærandi fram á það við Fjársýslu ríkisins að fá afrit af afsölum og öðrum gögnum er sýndu hvernig greiðslum var háttað vegna sölu ríkisins á Sementverksmiðju ríkisins, Áburðarverksmiðju ríkisins, Símans, Síldarverksmiðju ríkisins, Íslenskum aðalverktökum og hlutum ríkisins í Kísiliðjunni og Orkuveitu Suðurnesja. Með bréfi Fjársýslu ríkisins, dags. 16. maí, var honum tjáð að það væri hlutverk fjármálaráðuneytisins að svara erindinu. Því var málið framsent fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem svaraði kæranda með bréfi dags. 18. september 2012. Með fylgdu þau gögn sem ráðuneytið kvað hafa verið unnt að afla. Einnig var upplýst að vegna aldurs gagnanna væri hluti þeirra kominn á Þjóðskjalasafn Íslands.

 

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 21. janúar 2013, kvaðst kærandi ekki telja framangreint svar vera fullnægjandi. Í bréfinu segir m.a.:

 

„Ég spyr, ef þessar eignir voru borgaðar, hvers vegna er þá ekki hægt að fá ljósrit af kvittunum sem hafa verið afhentar samkvæmt venjum og lögum um leið og eignirnar voru greiddar, […]“

 

Ráðuneytið svaraði kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2013. Með fylgdu afrit af greiðsluskjölum sem Fjársýsla ríkisins hafði útbúið fyrir ráðuneytið. Í bréfinu segir m.a.:

 

„Yður hafa verið afhent ýmis gögn vegna máls þessa, m.a. skýrslur Ríkisendurskoðunar, afrit af ríkisreikningum frá þeim tíma sem sala eignanna fór fram, auk ítarlegra færslulista um greiðslur kaupverðs frá Seðlabanka Íslands og Fjársýslu ríkisins. Þessi gögn, auk þeirra gagna sem fylgja bréfi þessu, sýna svo ekki verður um villst að ríkissjóður hefur fengið kaupverð þessara eigna greitt. Af hálfu ráðuneytisins er máli þessu því lokið og mun það því ekki afla frekari gagna vegna sölu umræddra eigna.“

 

Kærandi sendi kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 6. mars 2013. Í henni segir m.a.:

 

„…ég fékk engin svör um það fyrr en ég fékk aðstoð [B], þá fékk ég afrit af þeim svörum sem hann fékk, og það var svo sem ágætt, en […] það vantar staðfestingu á að Síldarverksmiðjur hafi verið borgaðar og þá hvernig.“

 

Með bréfi, dags. 8. mars 2013, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál umsagnar fjármála- og efnahagsráðuneytisins um kæruna. Í svari þess, dags. 14. mars, segir m.a.:

 

„Eftir að ráðuneytinu barst bréf frá úrskurðarnefndinni var aftur haft samband við Fjársýslu ríkisins og farið fram á að þeir leituðu að gögnum um SR-Mjöl hf. sem tók við rekstri Síldarverksmiðjunnar. Í gagnageymslu Fjársýslunnar fannst skjalakassi merktur SR-Mjöl hf. sem geymir afrit af uppgreiddum skuldabréfum sem gefin voru út vegna sölunnar. Vandinn er hins vegar sá að um mikið magn af gögnum er að ræða, þ.e. ríflega 1.000 bls. af skjölum og kvittunum. Ástæðan fyrir því er að í heildina voru gefin út 167 skuldabréf vegna sölunnar á nafni þeirra 25 aðila sem keyptu hlutabréfin í fyrirtækinu. Ráðuneytið telur óráðlegt að Fjársýsla ríkisins leggi í þá tímafreku vinnu að ljósrita öll þessi gögn sem eru af ýmsum stærðum og gerðum og heftuð saman í bak og fyrir. Ef farið er fram á að ráðuneytið afhendi ljósrit af gögnunum mun ráðuneytið fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra í samræmi við 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en ljósritunarkostnaðurinn fellur þá á [A]. Að mati ráðuneytisins er samt sem áður vel hægt að leyfa [A] að fá að skoða umrædd gögn í húsnæði Fjársýslunnar að kostnaðarlausu.“

 

Hinn 19. mars áréttaði kærandi að hann óskaði „ljósrita af kvittunum eða þá svars á bréfsefni ráðuneytisins upp á það ef verksmiðjurnar hafa ekki verið borgaðar…“ Ráðuneytinu var kynnt þetta. Það svaraði með tölvupósti, dags. 3. apríl 2013, og kvað sitt fyrra svar standa óbreytt. Með tölvupósti, dags. 10. maí 2013, sendi ráðuneytið frekari skýringar um form kvittana. Þar segir: „Hin eiginlega kvittun fyrir greiðslu kaupverðsins er áritun á hvert og eitt skuldabréf um að afborganirnar hafi verið greiddar.“

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi kæranda bréf, dags. 17. apríl sl., gaf honum kost á að tjá sig um svar ráðuneytisins og tók fram að hefðu engin svör borist frá honum 4. maí 2013 mætti vænta þess að málið yrði fellt niður.

 

Kærandi sendi nefndinni bréf, dags. 28. apríl sl. Með því fylgdu gögn frá hlutafélagaskrá, m.a. um aukningu hlutafjár í SR-mjöli hf., um stjórnarkjör og um samruna SR-mjöls hf. og Síldarvinnslunnar hf. o.fl. Í bréfinu segir m.a.:

 

„…það sem þeir hjá ráðuneytinu halda fram á að ekki við rök að styðjast, það á ekki að þurfa neinn blaða eða pappírsbunka út af þessum fimm kvittunum því það voru tveir menn sem voru veitt prókúruumboð svo það voru ekki 25 manns sem voru að greiða fyrir verksmiðjurnar, […]“

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn.

 

Eins og rakið er hér að framan var tilefni þess að kærandi sendi kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingarmál, dags. 6. mars 2013, sú að hann hefði ekki fengið gögn er fælu í sér staðfestingu þess að söluandvirði Síldarverksmiðju ríkisins hefði verið greitt. Samkvæmt bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 14. mars 2013, hafa nú fundist gögn þar að lútandi. Jafnframt liggur fyrir sú afstaða ráðuneytisins að kæranda sé heimilt að kynna sér gögnin og fá þau ljósrituð. Sökum mikils fjölda skjala muni kærandi hins vegar þurfa að bera kostnað vegna ljósritunarinnar, sbr. 3. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr.  140/2012.

 

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að ekki liggi fyrir synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að gögnum í skilningi 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og því séu skilyrði fyrir kæru til nefndarinnar ekki uppfyllt. Fyrirvari ráðuneytisins um hugsanlega gjaldtöku á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laganna felur ekki í sér synjun á afhendingu gagna  og haggar hann því ekki framangreindri niðurstöðu.

 

Úrskurðarorð

 

Kæru [A], dags. 6. mars 2013, er vísað frá nefndinni.

 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                                   Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta