Hoppa yfir valmynd
6. júní 2013 Forsætisráðuneytið

A-484/2013. Úrskurður frá 6. júní 2013

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 6. júní 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð  nr. A-484/2013 í máli ÚNU 13010003.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 17. janúar 2013, kærði [A], f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna, afgreiðslu velferðarráðuneytisins á beiðni, dags. 14. nóvember 2012, um aðgang að reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Laut kæran að því að erindi samtakanna til ráðuneytisins hefði ekki verið sinnt. Í kærunni kom jafnframt fram að samtökin hefðu ítrekað beiðni sína með tölvupóstum til velferðarráðuneytisins, dags. 7. desember 2012 og 18. desember 2012.

 

Í kærunni er bent á að í 34. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga sé kveðið á um að ráðherra setji, að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara, reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem m.a. skuli kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar. Hagsmunasamtök heimilanna telja að reglugerð þessi hljóti að vera gagn sem falli undir 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og skylt sé að veita almenningi aðgang að, sé þess óskað. Þá telja þau jafnframt að með því að svara ekki erindi þeirra hafi ráðuneytið að öllum líkindum brotið gegn 17. gr. upplýsingalaga, þar sem kveðið sé á um að hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku skuli skýra frá ástæðu tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki fengið slíkar upplýsingar.

 

 

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi velferðarráðuneytinu afrit af kæru Hagsmunasamtaka heimilanna með bréfi, dags. 22. janúar 2013. Í bréfi nefndarinnar var þar því beint til kærða að svara erindi kæranda eigi síðar en 29. janúar, sbr. 11. og 13. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, nú 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Nefndin ítrekaði erindið með bréfi, dags. 5. febrúar 2013.

 

Úrskurðarnefndinni barst afrit af bréfi velferðarráðuneytisins til Hagsmunasamtaka heimilanna, dags. 7. febrúar 2013. Í bréfinu kemur fram að umbeðin reglugerð hafi ekki verið sett. Vísað er til þess að ráðuneytið hafi nú þegar hafið vinnu við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og stefnt sé að því að þeirri vinnu ljúki á vormánuðum 2013. Í ljósi þessa hafi verið ákveðið að fresta setningu reglugerðar um greiðsluaðlögun einstaklinga uns gerðar hafi verið nauðsynlegar breytingar á lögunum. Þá biðst ráðuneytið jafnframt velvirðingar á því hve dregist hafi að svara erindinu. 

 

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2013, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Hagsmunasamtaka heimilanna til þess hvort það teldi afgreiðslu ráðuneytisins fullnægjandi miðað við beiðni þeirra. Samtökin svöruðu fyrirspurn nefndarinnar með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, og kemur þar fram að þau telji að upphaflegri beiðni hafi verið svarað að fullu.  Samtökin óski samt sem áður eftir því að úrskurðað verði um þá hlið málsins sem snúi að töfum á afgreiðslu fyrirspurnarinnar.

 

Í kjölfar þessa óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál, með bréfi dags. 14. mars 2013, eftir skýringum velferðarráðuneytisins á þeim töfum sem urðu á afgreiðslu á beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna og ástæðu þess að ekki var skýrt frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar mætti vænta, sbr. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

 

Svar ráðuneytisins barst með bréfi, dags. 4. apríl 2013. Þar kemur fram að það sé ávallt markmið ráðuneytisins að afgreiða erindi eins fljótt og unnt er og innan þeirra fresta sem lög kveði á um. Fjöldi erinda sem hafi borist ráðuneytinu ásamt fjölmörgum verkefnum öðrum sem starfsmenn ráðuneytisins þurfi að sinna hafi hins vegar leitt til þess að því miður hafi ekki náðst svara innan frestsins. Er jafnframt bent á að gætt sé að því að erindum sé svarað í þeirri röð sem þau berast ráðuneytinu svo jafnræðis sé gætt að því leyti sem unnt sé. Umræddan drátt á svörum ráðuneytisins á beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna sé því að rekja til mikilla anna innan ráðuneytisins á síðustu mánuðum.

 

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn.

 

Eins og rakið er hér að framan hefur velferðarráðuneytið nú afgreitt beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna, dags. 14. nóvember 2012, um aðgang að reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga. Jafnframt liggur fyrir að samtökin gera ekki athugasemd við efnislega afgreiðslu ráðuneytisins, sbr. bréf samtakanna til úrskurðarnefndarinnar 22. febrúar 2013. Samtökin telja hins vegar að ráðuneytið hafi ekki afgreitt beiðnina nógu fljótt og þannig brotið gegn málshraðareglum stjórnsýsluréttar, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. áður 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Í 4. mgr. 9. gr. segir að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til. Í athugasemdum við 4. mgr. 9. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir að heimild þessa skuli skoða í því ljósi að skv. 2. mgr. 26. gr. laganna sé gengið út frá því að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir, sem ekki binda enda á stjórnsýslumál, fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Því sé 4. mgr. 9. gr. undantekning frá þeirri reglu. Af framangreindu verður ráðið að ákvæði 4. mgr. 9. gr. sé einkum ætlað að tryggja að æðra stjórnvald geti knúið á um að lægra sett stjórnvald taki ákvörðun í máli hafi það dregist úr hófi. Í athugasemdum við 20. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 er bent á umrætt ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Segir í athugasemdunum að af ákvæðinu leiði að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti í ákveðnum tilvikum verið valdbær til að taka til meðferðar mál þar sem sá sem afgreiðir beiðni hefur dregið afgreiðsluna án réttmætra ástæðna.

 

Dragi stjórnvald óhæfilega að afgreiða mál á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 getur sá er biður um upplýsingar þannig skotið málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Upphafleg kæra Hagsmunasamtaka heimilanna laut að drætti á svörum. Sú aðstaða er hins vegar ekki lengur uppi enda hefur velferðarráðuneytið nú afgreitt beiðni samtakanna og þau gera ekki efnislegar athugasemdir við þá afgreiðslu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur jafnframt rétt að geta þess að fyrir liggur viðurkenning ráðuneytisins á því að beiðni samtakanna hafi ekki verið afgreidd í samræmi við lögboðna fresti, sbr. bréf ráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 4. apríl 2013, og verður ekki séð að aðila greini á um það atriði.

 

Samkvæmt framangreindu liggur ekki fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum eða dráttur á svörum sem kæranlegur er skv. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þeim sökum ber að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Úrskurðarorð

Kæru Hagsmunasamtaka heimilanna, dags. 17. janúar 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta