Aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni skoðaðar
Félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra kynntu á ríkisstjórnarfundi í morgun áform um skoða í sameiningu breytingar til að styðja betur við barnshafandi konur á landsbyggðinni og fjölskyldur þeirra. Skipaður verður starfshópur sem á að móta og leggja fram tillögur að úrbótum hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti. Starfshópurinn mun fara yfir aðstæður þessara kvenna með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu á landsvísu en margar þeirra þurfa að dveljast fjarri heimabyggð, með tilheyrandi tilkosntaði, í nokkurn tíma til að hafa öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á meðgöngu og eftir fæðingu.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir þetta mikilvægt mál og fagnar því að ráðherrarnir taki höndum saman um að leita leiða til úrbóta og jafna aðstæður fólks hvað þetta snertir.
Óskað verður eftir tilnefningum í þessa vinnu á næstu dögum en gert er ráð fyrir tveir formenn leiði hópinn, annar frá félags og barnamálaráðherra og hinn frá heilbrigðisráðherra.