Hoppa yfir valmynd
31. maí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 31. maí 2012

Mál nr. 24/2012B Eiginnafn: Þórsteinunn

Hinn 31. maí 2012 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 24/2012B en erindið barst nefndinni 22. maí:

Í úrskurði nr. 24/2012 dags. 16. maí hafnaði mannanafnanefnd beiðni um eiginnafnið Þórsteinunn (kvk.) á grundvelli þess að það væri þríliðað og bryti því í bág við eitt af skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Í athugasemdum um frumvarp til þessara laga segir að umræddu skilyrði sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Enn fremur komi skilyrðið í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur, t.d. þríliðuð nöfn eins og Guðmundrún, Guðmundpáll og Ragnhildmundur.

Í beiðni um endurupptöku óska umsækjendur eftir því að nafnið Þórsteinunn verði lagt að jöfnu við nafnið Gunnþórunn en ekki við nöfn sem nefnd eru í úrskurðinum, t.d. Guðmundrún og Ragnhildmundur. Um þetta er það að segja að öll þessi nöfn eru sambærileg, þau eru öll þríliðuð. Um samsett nöfn segir m.a. þetta í bók Hermanns Pálssonar Íslenzk mannanöfn (1960:23):

Norræn nöfn eru annað tveggja ósamsett, svo sem Steinn, Bergur, Ketill, Björg ? eða samsett úr tveim nafnaliðum, svo sem Þorsteinn, Arnbergur, Grímkell ? Hins vegar eru þríliða nöfn ranglega mynduð og tíðkast ekki að fornu. Fyrir því eru eftirtalin heiti ekki tekin með í aðalskrána [þ.e. nafnaskrána í bók Hermanns], að þau eru samsett af þrem liðum og brjóta í bága við íslenzka nafnasiði: Hildiguðröður, Sigursteindór, Sigrúnhildur, Sigtryggvina, Ástþórunn, Bergsteinunn, Sigurþórunn, Gunnþórunn, Bjarnasigrún.

Í beiðni um endurupptöku benda umsækjendur á að nafnið Þórsteinunn sé ekki nýmyndun því að þetta hafi þegar nokkrar konur borið. Í athugasemdunum sem vísað er í hér að ofan er sérstaklega talað um nýmyndanir og nafnið Þórsteinunn er augljóslega ekki nýmyndun. Á grundvelli þess er hægt að fallast á nafnið.

Með vísan til þessa er fyrri úrskurður mannanafnanefndar nr. 24/2012 16. maí hér með felldur úr gildi. Eiginnafnið Þórsteinunn (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Þórsteinunnar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Þórsteinunn (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 31/2012 Eiginnafn: Nikoletta

Hinn 31. maí 2012 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 31/2012 en erindið barst nefndinni 30. maí:

Eiginnafnið Nikoletta (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Nikolettu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Nikoletta (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta