Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 226/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 226/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Með bréfi dags. 7. desember 2010 sendi A, kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Úrskurðarnefndin óskaði eftir gögnum málsins og greinargerð hjá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 9. desember 2010. Svarbréf Vinnumálastofnunar er dagsett 30. desember 2010 og því fylgdi afrit af bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 10. desember 2010. Í bréfinu kemur meðal annars fram að stofnunin hafi á fundi sínum þann 10. desember 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 30. desember 2008. Fram kemur að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur sé frestað og var óskað eftir því að hún legði fram vottorð um vinnufærni frá þeim lækni sem hefði annast hana vegna sjúkdóms/veikinda skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi hún dvalið hjá HNLFÍ í Hveragerði en ekkert vottorð um dvalartíma hafi verið lagt fram.

Í áðurnefndu bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. desember 2010, upplýsir stofnunin að ekki hafi verið tekin ákvörðun í máli kæranda sem uppfylli skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir vottorði frá kæranda svo meta mætti rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Gögn frá kæranda hafi ekki borist Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og engin ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda. Telji Vinnumálastofnun því, með vísan til fyrrgreinds ákvæðis, að kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í árslok 2008 og hefur síðan þá fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Með áðurnefndu bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 10. desember 2010, var tekið fram að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 10. desember 2010 fjallað um umsókn kæranda frá 30. desember 2008 og frestað að taka afstöðu til umsóknarinnar. Óskað var eftir því við kæranda að hún léti í té læknisvottorð og nánari upplýsingar um dvöl hennar á HNLFÍ í Hveragerði.

Eftir að atvinnuleitandi hefur töku atvinnuleysisbóta getur hann, til lengri eða skemmri tíma, misst þann rétt ef hann uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun tekur ákvörðun um slík viðurlög, sbr. XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þessa verður að telja það villandi framsetningu í áðurnefndu bréfi Vinnumálastofnunar að verið sé að endurskoða umsókn kæranda frá 30. desember 2008. Eðli málsins samkvæmt hafði stofnunin fyrir löngu tekið afstöðu til þeirrar umsóknar og fallist á hana. Álitaefnið hlaut því að lúta að mögulegum missi kæranda á greiðslu atvinnuleysisbóta. Því hefði með réttu lagi átt að orða bréf Vinnumálastofnunar með öðrum hætti, svo sem að verið væri að kanna hvort fella ætti niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda með vísan til nánar tilgreindra ástæðna.

Einnig hefði bréf Vinnumálastofnunar átt að bera þess merki að verið væri að kanna málið nánar í stað þess að gefa til kynna að endanleg ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda. Þannig verður að finna að fyrirsögn bréfsins en hún var „Ákvörðun“. Uppsetning bréfsins var því með þeim hætti að kærandi mátti líta svo á að kæranleg stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í málinu. Vinnumálastofnun þarf að breyta uppsetningu bréfa af þessu tagi til að auðvelda atvinnuleitendum að taka afstöðu til efnis þeirra en einnig til að draga úr líkum á að kærur sem þessar berist til úrskurðarnefndarinnar.

Framangreindar athugasemdir við framsetningu á efni bréfs Vinnumálastofnunar, dags. 10. desember 2010, hagga því ekki að engin kæranleg stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin í máli þessu og á það er réttilega bent í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar. Með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta