Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lausn í málum búseturéttarhafa í Grindavík

Í samræmi við heimild í lögum um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að styrkja búseturéttarhafa um 95% af framreiknuðu búseturéttargjaldi þeirra.

Á undanförnum vikum hafa staðið yfir viðræður milli Fasteignafélagsins Þórkötlu og húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna um útfærslu á kaupum á búseturétti í íbúðarhúsnæði Búmanna í Grindavík, í samræmi við ákvæði laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

Þrátt fyrir vilja beggja aðila náðust samningar ekki um kaup félagsins á búseturéttinum. Fasteignafélagið Þórkatla, í samráði við Búmenn, leitaði því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna málsins þar sem lagt var til að málefni búseturéttarhafa í Grindavík yrðu leyst með vísan til III. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 16/2024, þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að styrkja þá búseturéttarhafa sem falla undir gildissvið laganna.

Eftir mat á tillögu félagsins hefur fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að búseturéttarhöfum í Grindavík verði veittur styrkur sem nemur 95% af framreiknuðu búseturéttargjaldi búseturéttarhafa, líkt og heimild er fyrir í áðurnefndum lögum. Samhliða því munu Búmenn bjóða búseturéttarhöfum í Grindavík að segja upp búseturétti sínum án uppsagnarfrests og losna þar með undan þeim langtíma skuldbindingum sem í honum felast.

Áætlað er að um 30 íbúðir muni falla undir gildissvið úrræðisins. Samtals er áætlað að kostnaður nemi um 275 m.kr. fyrir allar 30 eignirnar. Kostnaður vegna úrræðisins verður fjármagnaður úr ríkissjóði.

Fasteignafélagið Þórkatla mun annast samskipti við umsækjendur og þeim búseturéttarhöfum sem kjósa er bent á að skila inn umsókn í gegnum vef Þórkötlu á island.is. Þá mega búseturéttarhafar sem þegar hafa skilað inn umsókn um kaup til Þórkötlu búast við því að fá sendar nánari upplýsingar í ágúst, en stefnt er að því að þessi mál komi til framkvæmda seinni hluta ágústmánaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta