Nr. 707/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 707/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24020068
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 11. febrúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Sýrlands ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. janúar 2024, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hennar um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Hinn 5. júní 2023 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið en umsókn þeirri var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. janúar 2024. Í ákvörðuninni kemur fram að eftir heildarmat á aðstæðum kæranda hafi hún að mati stofnunarinnar ekki sýnt fram á að hún uppfylli skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Var það mat stofnunarinnar að ekki væri séð að aðstæður kæranda væru með þeim hætti að það væri bersýnilega ósanngjarnt að veita henni ekki dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Var umsókn hennar því synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 31. janúar 2024. Með tölvubréfi, dags. 11. febrúar 2024, lagði kærandi fram kæru ásamt greinargerð og fylgigögnum til kærunefndar útlendingamála.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda, dags. 29. janúar 2024, kemur fram að kærandi sé ekkja og búi ein í Sýrlandi, við slæmar félagslegar aðstæður. Ástandið í landinu sé óstöðugt og geti verið hættulegt einhleypum konum sem búi einar. Hér á Íslandi eigi kærandi dóttur, tengdason og nýfætt barnabarn. Fyrstu mánuðirnir eftir fæðingu barnabarns kæranda hafi verið krefjandi fyrir dóttur hennar og því sé henni mjög mikilvægt að kærandi geti komið til Íslands og aðstoðað hana við uppeldið og myndað sjálf tengsl við barnið. Í ljósi framangreinds telur kærandi það ósanngjarnt að koma í veg fyrir að fjölskyldan geti dvalið saman, enda eigi barnið rétt á því að umgangast ömmu sína og mynda samband við hana.
Aðstæður í Sýrlandi séu slæmar að sögn kæranda, einkum vegna borgarastyrjaldar og afleiðinga hennar á sýrlenskt samfélag. Styrjöldin hafi brotið upp fjölskyldur og krafist þess af mörgum að grípa til vopna til þess að vernda réttindi sem annars staðar væru álitin sjálfsögð. Verði fallist á umsókn kæranda geti hún dvalist hér á landi með lögmætum hætti með tryggri framfærslu. Í fyrstu muni kærandi dvelja á heimili dóttur sinnar og tengdasonar ásamt því að aðstoða þau við rekstur saumastofu þeirra. Kærandi sé þjálfuð í saumaskap og því auðvelt fyrir hana að starfa fyrir fyrirtækið.
Þá vísar kærandi til gagna sem lögð voru fram hjá Útlendingastofnun sem sýndu fram á millifærslur á bankareikning einstaklings að nafni [...], í Jórdaníu. Með bréfi Útlendingastofnunar hafi verið óskað eftir gögnum sem sýndu fram á tengsl þessa einstaklings við kæranda. Á kærustigi lagði kærandi fram yfirlýsingu frá [...] þess efnis að hann hafi þegið [...] bandaríkjadali frá tengdasyni kæranda og afhent kæranda fjármunina á árunum 2022 og 2023. Kærandi vísar til þess að erlendar millifærslur til Sýrlands komi ekki til greina vegna viðskiptaþvingana gegn sýrlenskum stjórnvöldum. Því hafi dóttir kæranda og maki hennar nýtt sér aðstoð [...] sem hafi getað komið fjármunum til kæranda. Þar að auki hafi dóttir kæranda afhent henni fjármuni í hvert skipti sem hún ferðaðist til Sýrlands.
Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið ósanngjörn og að stofnunin hafi ekki rannsakað umsókn kæranda með nægjanlega góðum hætti, einkum varðandi fylgigögn umsóknar og mannúðarsjónarmið.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Í 2. mgr. 78. gr. sömu laga kemur fram að til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna. Þá má jafnframt ráða af 2. málsl. 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga að fjölskyldutengsl fari samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga.
Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið í lögmætri dvöl á grundvelli dvalarleyfis, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins.
Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.
Dvalarleyfisumsókn kæranda grundvallast einkum og sér í lagi á fjölskyldutengslum en samkvæmt gögnum málsins á hún dóttur, tengdason og barnabarn hér á landi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er tengdasonur kæranda með ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga en dóttir kæranda og barnabarn dveljast sem aðstandendur handhafa ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 70. og 71. gr. laga um útlendinga. Við meðferð málsins hjá kærunefnd kom einnig fram að dóttir kæranda væri ófrísk öðru sinni. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að uppkomin dóttir kæranda sé handhafi dvalarleyfis sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Þá liggur fyrir af 2. málsl. 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga að um fjölskyldutengsl fer eftir VIII. kafla laga um útlendinga. Leggur kærunefnd þann skilning í ákvæðið, með hliðsjón af öðrum ákvæðum 78. gr. laga um útlendinga, að því sé ekki ætlað að útvíkka gildissvið dvalarleyfa vegna fjölskyldusameininga, heldur þurfi almennt meira að koma til, svo sem sjálfstæð tengsl vegna fyrri dvalar eða umönnunarsjónarmið.
Líkt og fram kemur í greinargerð kveðst kærandi þiggja fjármuni frá dóttur sinni og maka hennar, sem hún hafi ýmist móttekið með aðstoð þriðja manns, eða í heimsóknum dóttur sinnar. Fram kemur í yfirlýsingu, dags. 10. mars 2024, að [...] hafi þegið [...]bandaríkjadali frá tengdasyni kæranda og afhent kæranda á árunum 2022 og 2023. Í gögnum sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun koma fram millifærslur frá reikning í [...] á reikning umrædds [...] í Jórdaníu. Millifærslurnar eru fjórar talsins, dags. 22. maí, 19. júlí, 23. ágúst, og 7. desember 2023, samtals að fjárhæð [...] bandaríkjadala. Yfirlýsingin sjálf er ótraust að forminu til en hún inniheldur m.a. nokkurt magn af stafsetningarvillum, þá koma ekki fram auðkenni votta né inniheldur skjalið vottun lögbókanda. Að teknu tilliti til framangreinds, sem og efnislegs ósamræmis í skjalinu samanborið við framlagðar millifærslukvittanir, telur kærunefnd yfirlýsinguna ótrúverðuga og verður ekki byggt á henni við úrlausn málsins.
Í málinu liggja ekki fyrir gögn sem sýna fram á umönnunarsjónarmið í málinu, hvorki þörf kæranda á sérstakri umönnun, né þörf aðstandenda hennar hér á landi fyrir umönnun kæranda, umfram almenna aðstoð við barnauppeldi. Þá er ekkert í málinu sem bendir til þess að fyrir hendi séu slík félagsleg-, menningarleg- eða önnur sambærileg tengsl við Ísland að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi er kona á sextugsaldri og hefur búið alla sína ævi í heimaríki og á eðli málsins samkvæmt sterk tengsl við heimaríki sitt. Ekkert í gögnum málsins bendir til annars en að hún sé vinnufær og heilsuhraust. Þá kemur fram í greinargerð að kærandi sé ekkja en samkvæmt gögnum málsins hafi hún og maki hennar skilið árið 2007 og því hafi kærandi verið fráskilin í tæpa tvo áratugi.
Óumdeilt er að aðstæður í heimaríki kæranda eru slæmar og nægir í þeim efnum að líta til þess að tengdasonur kæranda hefur hlotið alþjóðlega vernd hér á landi. Að teknu tilliti til gildistöku 78. gr. laga um útlendinga, samanborið við 12. gr. f. fyrri laga um útlendinga nr. 96/2002 er ljóst að sérstökum tengslum við landið er ekki ætlað að vera grundvöllur dvalar fyrir útlendinga sem búa í ríkjum þar sem aðstæður eru almennt erfiðar, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla grundvallast á tengslum viðkomandi við Ísland, samkvæmt þeim atriðum sem tiltekin eru í 78. gr. laga um útlendinga, ásamt 19. og 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. og 20. gr. reglugerðar um útlendinga.
Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis og er hin kærða ákvörðun því staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares