Samið við Læknavaktina um móttökuvakt og vitjanaþjónustu
Samningar hafa tekist milli Sjúkratrygginga Íslands og Læknavaktarinnar ehf. um móttökuvakt og vitjanaþjónustu heimilislækna utan dagvinnutíma heilsugæslustöðva í Reykjavík og nágrenni. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra staðfesti samningana í dag.
Læknavaktin ehf. sagði upp gildandi samningi 1. febrúar og átti uppsögnin að taka gildi 1. maí næstkomandi. Læknavaktin hefur sinnt móttöku sjúklinga og vitjanaþjónustu utan dagvinnutíma heilsugæslustöðva í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, á Seltjarnarnesi og Álftanesi.
Nýju samningarnir sem ráðherra staðfesti í dag gilda til ársloka 2012. Samkvæmt þeim er áætlað að Læknavaktin annist um 63.000 móttökur sjúklinga á ári og sinni um 4.000 vitjunum í heimahús. Sú breyting er gerð frá núgildandi samningi að vitjanaþjónusta lækna frá miðnætti til átta á morgnana fellur niður. Á þeim tíma verður starfrækt símaþjónusta hjúkrunarfræðings en bráðatilvikum verður vísað til úrlausnar á bráðamóttöku Landspítala.
Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna samninganna er um 275 milljónir króna á ársgrundvelli.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segist fagna því innilega að samningar hafi tekist milli aðila. Þetta sé mikilvæg þjónusta við almenning sem ekki megi rofna og nú hafi hún verið tryggð til lengri tíma.