Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 284/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 27. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 284/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060042

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.               Málsatvik

Þann 18. júní 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. febrúar 2020 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júní 2020. Þann 29. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem og beiðni kæranda um endurupptöku. Þann 6. júlí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda og þá bárust viðbótargögn þann 20. ágúst 2020.

Kærandi fer fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik.

Kærandi byggir á því að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar við afgreiðslu umsóknar hans, þ.m.t. rannsóknarreglan, jafnræðisreglan, meðalhófsreglan, lögmætisreglan sem og leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Auk þess byggir kærandi á því að afgreiðsla á umsókn hans hafi ekki verið í samræmi við grundvallarreglur í flóttamannarétti, þ.m.t. um bann við að vísa fólki brott á hættusvæði. Með vísan til framangreinds telji kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar ógildanlega.

Um brot stjórnvalda á rannsóknarreglunni vísar kærandi m.a. til þess að stjórnvöld hafi átt að taka tillit til þeirra sönnunargagna sem hann hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. Kærandi telji að með því að virða þessi gögn að vettugi hafi stjórnvöld ekki tryggt að mál hans hafi verið nægjanlega upplýst þegar ákvörðun hafi verið tekin. Þá telji kærandi ósanngjarnt og gegn vönduðum stjórnsýsluháttum að tilraunir hans til að aðstoða við að upplýsa mál sitt hafi verið honum í óhag í stað þess að vera honum til málsbóta. Þá byggir kærandi á því að óljóst sé hvernig mat stjórnvalda að lokinni rannsókn hafi getað leitt til þeirrar niðurstöðu að hann sé ekki flóttamaður, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til umfjöllunar Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála um almennar aðstæður í heimaríki kæranda. Auk þess hafi kærandi gefið greinargóðar lýsingar á persónulegri reynslu sinni frá dvöl sinni í heimaríki og lagt fram gögn því til stuðnings. Kærandi vísar þá til þess að fullnægjandi rannsókn og heildstætt mat stjórnvalda hefði leitt til þess að hann hlyti viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 40. gr. sömu laga eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að rannsókn stjórnvalda og rökstuðningur er þetta varðar hafi ekki verið í samræmi við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir einnig á því að jafnræðisregla og meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar við meðferð málsins auk lögmætisreglunnar. Stjórnvöld hafi ekki fylgt leiðbeiningum í handbók Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna um kröfur sem gera megi til umsækjenda um alþjóðlega vernd um gagnaöflun. Stjórnvöld hafi gert óraunhæfar kröfur til hans um gagnaöflun auk þess sem að þau gögn sem hann hafi lagt fram hafi verið skýrð honum í óhag. Byggir kærandi á því að vegna vanrækslu stjórnvalda um að fylgja leiðbeiningum í framangreindri handbók hafi þau ekki tryggt samræmda málsmeðferð.

Þá byggir kærandi á því að brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, við meðferð umsóknar hans. Kærandi telji óumdeilanlegt að hann sé með sýnilega áverka eftir árás, þ.e. skotárás og líkamsárás, auk þess sem að hann hafi leitað aðstoðar lögreglu og hafi lagt fram gögn því til stuðnings. Kærunefnd hafi talið þessi skjöl ófullnægjandi en hafi hins vegar ekki leiðbeint kæranda um það hvernig hann gæti uppfyllt þær kröfur um gagnaöflun sem að nefndin hafi gert til hans.

Kærandi telji jafnframt að með vísan til almennra aðstæðna í Rússlandi, mannréttindabrota þar í landi og reynslu hans af slíkum brotum hafi ranglega verið komist að því að endursending hans til Rússlands myndi ekki leiða til brots gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi telji að niðurstaða stjórnvalda brjóti gegn rannsóknarreglunni og byggi á ófullnægjandi mati á aðstæðum. Vísar kærandi m.a. til þess að það ofbeldi og hótanir sem hann hafi orðið fyrir og afleiðingar þess nái þeim þröskuldi um alvarleikastig sem gert sé ráð fyrir í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og vísar því til stuðnings til tveggja dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá telji kærandi jafnframt sýnt fram á að rússnesk stjórnvöld geti ekki og hafi ekki veitt honum vernd þrátt fyrir að hann hafi leitað aðstoðar þeirra. Að auki hafi kærandi samkvæmt frásögn sinni orðið fyrir kynþáttafordómum og annars konar mismunun, m.a. vegna trúarskoðana sinna. Þessu til stuðnings vísar kærandi til heimilda sem fjalli um hatursglæpi gagnvart útlendingum í Rússlandi og fordóma í garð innflytjenda.

Kærandi lagði þann 20. ágúst sl. fram viðbótargögn, þ.e. afrit af samskiptaseðli sálfræðings hjá Göngudeild sóttvarna, dags. 6. júlí og 10. ágúst 2020, þar sem lýst er áhyggjum yfir hrakandi andlegu ástandi kæranda. Þá var upplýst um að kærandi hefði sent beiðni til velferðarsviðs í Reykjanesbæ til að komast í sálfræðimeðferð.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 18. júní 2020 og var úrskurður birtur fyrir kæranda 22. júní 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti hann því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki hafi ekki verið með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku á því að úrskurður kærunefndar hafi grundvallast á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir jafnframt á því að kærunefnd hafi, við vinnslu málsins, brotið gegn tilteknum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Auk þess hafi niðurstaða kærunefndar falið í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í endurupptökubeiðni sinni vísar kærandi m.a. til þess að stjórnvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra gagna sem hann hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. Þá hafi stjórnvöld brotið gegn leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, við meðferð á umsókn hans þar sem stjórnvöld hafi ekki leiðbeint honum um hvaða gögn myndu teljast fullnægjandi í máli hans. Kærunefnd tekur fram að við vinnslu málsins voru öll þau gögn sem kærandi lagði fram máli sínu til stuðnings, bæði hjá Útlendingastofnun og kærunefnd, lögð til grundvallar ákvarðanatöku í málinu. Þá hafi kæranda verið leiðbeint, með tölvupóst nefndarinnar dags. 15. maí sl., og gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn við meðferð málsins hjá kærunefnd, sem hann hafi gert, og þau gögn einnig lögð til grundvallar í málinu.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 18. júní 2020, kemur fram að kærunefnd hafi lagt til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir einhverju ofbeldi í heimaríki af hálfu ótilgreindra aðila en að hann hafi ekki leitt nægilegar líkur að því að umrætt ofbeldi tengdist skipulögðum glæpasamtökum. Þá var það mat nefndarinnar að þrátt fyrir að einstaklingar geti orðið fyrir mismunun á grundvelli trúar og uppruna í heimaríki kæranda þá hafi heildarmat á gögnum málsins ekki bent til þess að slík mismunun næði því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga. Jafnframt var það mat nefndarinnar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á því að leita ásjár stjórnvalda í heimaríki ef hann telji sig þurfa á aðstoð að halda.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna. Í umræddu gagni kemur m.a. fram að kærandi sé í miklu uppnámi og líði illa eftir að hafa fengið aðra neitun á umsókn sinni. Hann sakni barna sinna, eigi erfitt með svefn og sé verkjaður í fótleggjum. Þá sé hann einangraður þar sem hann dvelji einn í búsetuúrræði hér á landi og hafi ekkert að gera. Þá komi fram það mat sálfræðings Göngudeildar sóttvarna að hann óttist að kærandi slasi sig vegna þeirrar angistar og uppnáms sem hann upplifi.

Þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda þann 18. júní 2020 lagði nefndin heildstætt mat á heilsufarsaðstæður kæranda í ljósi þeirra gagna sem lágu fyrir í málinu. Byggði matið á frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og framlögðum heilsufarsgögnum. Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 17. október 2019 og 8. janúar 2020, hafði kærandi greint frá því að hann væri með of háan blóðþrýsting, ætti erfitt með svefn, væri stressaður og hefði áhyggjur af börnum sínum auk þess sem að hann hafi óskað eftir því að vera komið fyrir í búsetuúrræði nær höfuðborginni. Þá kom fram í framlögðum gögnum frá Göngudeild sóttvarnar, dags. 31. október til 18. desember 2019, að kæranda liði ekki vel í búsetuúrræði, hefði áhyggjur af fjölskyldu sinni og að hann ætti erfitt með svefn. Þá kom einnig fram að kærandi hafi hitt sálfræðing í tvígang, dagana 4. og 18. desember 2019. Þrátt fyrir að hið nýja framlagða gagn beri með sér að vanlíðan kæranda hafi aukist þá er það mat kærunefndar að þær upplýsingar sem komi fram í framangreindu gagni séu í samræmi við þær upplýsingar sem kærunefnd byggði á þegar nefndin úrskurðaði í máli kæranda þann 18. júní sl. Þá tekur kærunefnd fram að framlögð heilsufarsgögn kæranda beri ekki með sér að um greiningu á geðrænum sjúkdómi sé að ræða en andleg vanlíðan kæranda virðist fyrst og fremst stafa af stöðu hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd og fjarlægðar frá börnum sínum, sbr. viðtöl kæranda hjá Útlendingastofnun og komunótur Göngudeildar sóttvarna.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar auk þess sem nefndin hefur farið yfir gögn með fyrri beiðni kæranda og upplýsingar um aðstæður í Rússlandi. Kærunefnd hefur áður í úrskurðum sínum fjallað um aðstæður í Rússlandi með tilliti til heilbrigðis- og félagslegra aðstæðna þar í landi, s.s. nýlegum úrskurði kærunefndar nr. KNU19110019 frá 18. júní 2020. Þar kemur fram að í Rússlandi sé til staðar félagslegt kerfi sem ætlað sé að tryggja þeim einstaklingum aðstoð sem á þurfi að halda. Mismunandi geti þó verið eftir svæðum landsins hversu auðvelt sé að sækja um og fá slíka aðstoð. Aðgangur að heilbrigðiskerfinu, s.s. geðheilbrigðisþjónustu, sé jafnframt tiltölulega greiður, en kostnaður við lyf geti verið mikill.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar, dags. 18. júní 2020. Í ljósi framangreinds og að teknu tilliti til gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að fyrrgreind gögn um heilsufar kæranda séu ekki þess eðlis að úrskurður kærunefndar nr. 221/2020 verði talinn hafa byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það enn fremur niðurstaða kærunefndar að þrátt fyrir að framangreind heilsufarsgögn beri með sér að vanlíðan kæranda hafi aukist í kjölfar synjunar hans á alþjóðlegri vernd hér á landi, verði ekki litið svo á að atvik máls kæranda hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin í málinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku er því hafnað.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request for re-examination is denied.

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta