Hoppa yfir valmynd
3. desember 2012 Innviðaráðuneytið

Ákváðu nánara samstarf á sviði sveitarstjórnarmála

Lokið er heimsókn innanríkisráðherra Færeyja og Grænlands til Íslands og hélt sá grænlenski af landi brott í gær og  færeyski ráðherrann í dag. Ráðherrarnir kynntu sér margvísleg málefni sem heyra undir innanríkisráðuneyti landanna enda segja þeir löndin þrjú eiga margt sameiginlegt og vilja þeir koma á nánara samstarfi landanna einkum á sviði sveitarstjórnarmála.

Innanríkisráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands ásamt forseta grænlenska þingsins.
Innanríkisráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands ásamt forseta grænlenska þingsins.

Kári Höjgaard, færeyski ráðherrann, Anton Frederiksen, innanríkisráðherra Grænlands, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hittust fyrst á fundi síðastliðinn föstudag, skömmu eftir að ráðherrarnir lentu í Reykjavík. Þeir hafa hist nokkrum sinnum á vettvangi norrænna ráðherrafunda og hafa rætt saman um innflytjendamál, sveitarstjórnarmál, björgunar- og almannavarnamál og ýmislegt fleira. Þá ákváðu þeir á fundum sínum í Reykjavík að ástæða væri til að löndin ættu með sér formlegra samband um sveitarstjórnarmál. Er ætlunin að stofna eins konar vinnuhóp eða nefnd fulltrúa ráðuneyta landanna þriggja og fulltrúa frá samtökum sveitarfélaga landanna til að sinna ákveðnum samstarfsverkefnum.

Ráðherrarnir þrír eru sammála um gagnsemi viðræðnanna og að löndin eigi margt sameiginlegt þrátt fyrir að þau séu ólík að stærð, íbúafjölda og menningu enda hafi þau átt mikil samskipti á ýmsum sviðum í áraraðir. Sjá þeir einnig fyrir sér aukið samstarf á sviði viðbúnaðar- og björgunarmála í samræmi við aukna skipaumferð á Norðurslóðum þar sem þessar þrjár þjóðir gegna lykilhlutverki. Báðir erlendu ráðherrarnir segja mikla umræðu hafa verið í löndum sínum um fjármál sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Gunnlaugur Júlíusson greindi frá stöðu og fjármálum sveitarfélaganna.

Á laugardag áttu erlendu ráðherrarnir viðræður við Jón Gnarr borgarstjóra, Björn Blöndal og Ellý Katrínu Guðmunsdóttur og með á þeim fundi var einnig Josef Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins. Einnig skoðuðu þeir varðskipið Þór og kynntu sér ýmsa þætti björgunar- og gæslustarfsins hjá Halldóri Nellet skipherra og áhöfn hans. Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, fór yfir málefni sveitarfélaga og gaf yfirlit yfir fjárhagsstöðu þeirra og stöðu.

Erlendu ráðherrarnir ræddu við Jón Gnarr borarstjóra og helstu samstarfsmenn hans.

Halldór B. Nellet skipherra sýndi gestunum nýja varðskipið Þór.

Ráðherrarnir sátu á föstudag fund með Salvöru Nordal, formanni stjórnlagaráðs, sem kynnti þeim starf ráðsins og tillögur þess um nýja stjórnarskrá. Einnig var starfsemi Fjölmenningarseturs á Ísafirði var kynnt fyrir þeim á fundi í ráðuneytinu. Þá gafst einni tækifæri til að heimsækja Árnastofnun þar sem Guðrún Nordal forstöðumaður og Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknardósent sýndu þeim nokkur handrit.

Á dagskrá ráðherranna í dag var einnig heimsókn í Þjóðskrá Íslands. Þar var undirrituð yfirlýsing Þjóðskrár og Umhvörvisstovu í Færeyjum sem annast ýmiss sambærileg verkefni í stjórnsýslu og Þjóðskrá gerir hérlendis, svo sem að halda fasteignaskrá og þjóðskrá. Yfirlýsinguna undirrituðu þau Jóhanna Olsen, forstjóri Umhvörvisstofu, og Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðskrár, en þar segir að þessar stofnanir láti í ljós vilja sinn til samstarfs um yfirfærslu þekkingar, skráarhald og þróun kerfa árin 2013 til 2015. Verður á hverju ári samningsins einum til tveimur starfsmönnum stofnananna gefinn kostur á að starfa hjá hinni stofnuninni í tiltekinn tíma og sérfræðingar annarrar stofnunarinnar munu rýna starfsemi hinnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta