Atvinnuleysi 0,8% í október
Skráð atvinnuleysi í október 2007 var 0,8% eða það sama og í september síðastliðnum samkvæmt Vinnumálastofnun. Að meðaltali voru 1.315 manns á atvinnuleysisskrá, sem er 21 færri en í september. Atvinnuleysi er um 20% minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,0%.
Fjöldi þeirra sem hafa verið á skrá í innan við þrjá mánuði fór úr 772 í september í 754 í október. Þeim sem verið hafa á skrá lengur en sex mánuði fækkaði úr 507 í september í 476 í október. Gefin voru út 49 ný atvinnuleyfi í október til íbúa utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Nýskráningar ríkisborgara frá nýju ríkjum ESB voru 923 og þeir sem voru áður með leyfi voru 452 eða samtals 1.375.
Vísbendingar um atvinnuástandið í nóvember
Atvinnuleysið versnar yfirleitt milli október og nóvember. Í fyrra jókst atvinnuleysið um 6% milli þessara mánaða og var 1,1% í nóvember, en 1% í október. Lausum störfum í lok október 2007 fækkaði frá því í lok september en alls voru 296 laus störf í lok október, en 381 í lok september. Hins vegar voru 438 laus störf í lok október 2006. Atvinnulausum í lok október fækkaði frá lokum september um 55. Þegar allt er talið er líklegt að atvinnuleysið í nóvember muni lítið breytast eða aukast lítillega og verða á bilinu 0,8%–1,1%.
Sjá nánar í skýrslu um atvinnuástand á vinnumarkaði í októbermánuði 2007 (PDF, 110KB)