Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2004 Dómsmálaráðuneytið

Starfsumgjörð dómstóla.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, flutti ávarp við upphaf aðalfundar Dómarafélags Íslands, sem haldinn er í dag, föstudaginn 26. nóvember. Í ávarpi sínu ræddi ráðherra um starfsumgjörð dómstólanna, breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, aðferðir við skipan dómara og birtingu dóma á netinu. Ávarpið birtist hér í heild.

Ég vil í upphafi færa forystu Dómarafélags Íslands þakkir fyrir að bjóða mér hingað á aðalfund sinn. Í síðasta mánuði var aldarfjórðungur liðinn, frá því mér voru veitt réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi, en þar sem starfsvettvangur minn hefur - að minnsta kosti enn sem komið er – verið utan réttarsalanna, hafa dómarar ekki þurft að sitja undir ræðuhöldum mínum svo heitið geti. Nú fæ ég hins vegar færi á ykkur öllum í einu, og það er mér fagnaðarefni.

Ég minnist þess með ánægju, þegar ég var á sínum tíma á kúrsus í bæjarþingi Reykjavíkur og það á sama tíma og formaður hins ágæta félags ykkar og má segja, að það séu einu beinu kynni mín af dómstólunum, fyrir utan heimsóknir mínar til ýmissa héraðsdómstóla síðan ég tók við núverandi embætti mínu. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka fyrir góðar og vinsamlegar móttökur. Þessar heimsóknir mínar hafa sannfært mig um, að mjög vel er að héraðsdómstólum búið, þegar litið er til húsakosts þeirra.

Eitt er það mál sem mörgum dómara er að vonum hugstætt, eins og fleirum, og það eru fjármál héraðsdómstólanna. Ég fagna því, að þar hafa mál mjög færst til betri vegar fyrir dómstólana. Með sérstakri aukafjárveitingu sem samþykkt var í sumar, og nam 35 milljónum króna, var öllum uppsöfnuðum halla dómstólanna eytt, og í því frumvarpi til fjárlaga, sem nú liggur fyrir alþingi er gert ráð fyrir að framlög til rekstrar dómstólanna aukist um 25 milljónir frá því sem verið hefur, en í fjárlögum þessa árs nam hækkun til dómstólanna 15 milljónum króna.

Öll sanngirni mælir með þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórn og fjárveitingarvald hafi sýnt því góðan skilning með þessum fjárráðstöfunum, að fjárhagsrammi dómstólanna hafi við upphaf ársins verið of þröngur, eins og varð einnig niðurstaða óhlutdrægs úttektarmanns á vegum dómstólaráðs og dómsmálaráðuneytis.

Ef ég horfi til þeirra laga og reglna er snerta dómstóla og meðferð mála þar, langar mig fyrst til að víkja að lögum um meðferð opinberra mála.

Lengi hefur staðið til að endurskoða þessi mikilvægu lög. Ég hef lýst yfir því, að ég hef fullan hug að leita leiða til að flýta því verki og tryggja, að við þá vinnu sé tekið mið af reglum, sem best hafa reynst í nágrannalöndum okkar.

Ég hef áður sagt, að sérsmíðaðar íslenskar reglur í þessu efni geti, ef illa tekst til, hvatt alþjóðlega glæpahringi til að leita sér skjóls hér á landi.

 

Eitt af því, sem ég hef velt fyrir mér, er, hvort of ríkar kröfur séu gerðar til lögreglu um að upplýsa um þær aðferðir, sem hún hefur til að upplýsa glæpi. Ég hef spurt, hvort kröfur á hendur lögreglunni um gögn og upplýsingar geti orðið til þess að veikja stöðu hennar og veita alþjóðlegri brotastarfsemi meira skjól hér en annars staðar. Við gerð reglna um rannsókn og meðferð opinberra mála þarf hins vegar auðvitað að fara með gát og skynsemi.

Þó markmiðið með lögunum sé að auðvelda en ekki torvelda rannsókn sakamála þá má vitaskuld ekki svipta þann, sem rannsakaður er öllum réttindum, eða gera honum ómögulegt eða mjög torvelt að færa fram varnir sínar og útskýringar. Rannsakaður og eftir atvikum ákærður maður á rétt á sanngjarnri málsmeðferð og hinn almenni borgari á ríka heimtingu á því, að sakamál fái eðlilega meðferð og rétta niðurstöðu. Rétturinn til málsvarnar má ekki verða til þess, að rannsókn máls verði þrautum lagt völundarhús, sem ekki skilar réttri niðurstöðu nema endrum og eins.

 

Réttur borgaranna til að mál séu upplýst og að sekir menn sleppi ekki, má ekki verða til þess, að ákærður maður geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér og varist því, sem hann er sakaður um. Hér þarf að fara þann meðalveg, sem skynsemi og sanngirni bjóða, og það er að mínu mati sjálfsagt, að lög um meðferð opinberra mála séu skoðuð með það í huga, hvernig þau sinna sínu hlutverki á hverjum tíma.

Þá er margt annað, sem athuga þarf í lögunum, og eins og ég sagði, þá tel ég mikilvægt að vinnu við þá endurskoðun verði flýtt og hef ég í hyggju að skipa sérstakan starfshóp til að sinna því verki.

 

Önnur lög marka umgjörð og starfsumhverfi dómara, dómstólalögin. Eins og þið öll vitið hafa ýmsar breytingar verið gerðar á þeim lögum í áranna rás. Um þessar breytingar gildir það sama og um mörg önnur mannanna verk; að það er skynsamlegt að staldra af og til við og meta hvernig til hefur tekist.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefur þetta verið skoðað og er til skoðunar. Meðal þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, má nefna, að starf dómarafulltrúans var lagt niður og það er breyting, sem ráðuneytið er ekki sannfært um, að hafi verið skynsamleg.

 

Dómarafulltrúakerfið hafði ýmsa kosti, enda hafa nágrannaþjóðir okkar ekki farið þá leið að leggja það af. Með dómarafulltrúastarfinu öðluðust lögfræðingar reynslu af dómsstörfum, sem nýttist þeim vel; þeim sem síðar gerðust embættisdómarar og einnig þeim, sem reru á önnur mið. Þá nýttust fulltrúar dómstólunum vel til ýmissa dómstarfa, sem nú dómarar einir geta sinnt. Má þar til dæmis nefna afgreiðslu þeirra einkamála, þar sem ekki er sótt þing af hálfu stefnda, en eins og þið vitið, þá verður embættisdómari að reka endahnút á þau mál svo stefna geti orðið aðfararhæf.

Dómarafulltrúar gætu hæglega sinnt ýmsum einfaldari dómsathöfnum og yrðu skynsamlegar reglur settar um starfsöryggi þeirra, ætti fátt að vera í vegi fyrir því að starf þeirra verði endurvakið.

Fleira í dómstólalögunum þarf vitaskuld að skoða í ljósi reynslunnar, svo sem dómstólaráð og hugmyndafræðina að baki því. Við þá skoðun hefur dómsmálaráðuneytið meðal annars í huga þá eindregnu skoðun sína, að héraðsdómstólar landsins séu átta en ekki einn og að sú eigi að vera raunin bæði í orði og á borði.

Þessi orð mín má hins vegar alls ekki skilja sem gagnrýni á starf dómstólaráðs undanfarin ár. Ég tel einfaldlega eðlilegt. að skoðað verði, hvaða verkefni rétt er að ráðið hafi með höndum, hvaða verkefni eigi að tilheyra hverjum og einum héraðsdómstóli og hvaða verkefni eigi  að vinnast í dómsmálaráðuneytinu.

Vil ég í þessu sambandi taka fram, eins og ég hef lýst yfir á alþingi, að ég tel að stofnsetning dómstólaráðs árið 1998 skipti ekki máli um sjálfstæði dómstólanna. Dómstólaráð, með fullri virðingu fyrir því, er engin forsenda þess, að sjálfstæði dómara sé tryggt.

Ég tel ekki, að íslenskir dómstólar hafi ekki hlotið sjálfstæði fyrr en dómstólaráð var stofnað hinn 1. júlí 1998. Íslenskir dómstólar voru sjálfstæðir fyrir þann tíma og þeir eru það enn. Árið 1998 hafði hver og einn héraðsdómstóll svipaða stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað varðar fjármál og aðstöðu alla og Hæstiréttur Íslands hefur um þessar mundir. Hæstiréttur Íslands er fullkomlega sjálfstæður í dómstörfum sínum og það voru héraðsdómstólarnir fyrir tilkomu dómstólaráðs.


Góðir áheyrendur!

Ekki þarf að segja neinum hér inni, að dómstólar verða oft fyrir opinberri gagnrýni vegna einstakra dóma. Ekki þarf ég heldur að segja ykkur, að oft er sú gagnrýni byggð á misskilningi eða mistúlkun.

Vitaskuld er hins vegar ekki hægt að hafna allri gagnrýni með því að gagnrýnandinn viti bara ekki um hvað hann talar. Þó dómarar vinni auðvitað og eftir bestu vitund, eftir því sem þeir telja gildandi lög á hverju sviði, þá eru störf þeirra auðvitað ekki hafnari yfir gagnrýni en störf annarra.

Dómari getur auðvitað gert mistök eins og hver annar - og sennilega myndi einhver bæta því við, að væri aldrei neitt við dóm að athuga, væri lítil ástæða til þess að reka áfrýjunardómstól. En gagnrýnin umræða um einstaka dóma leiðir hugann að því, hversu fáir verða yfirleitt til þess að taka upp hanskann fyrir dómarann og þann dóm, sem hann kvað upp. Ein skýring á því er vitaskuld sú staðreynd, að dómarar svara sjaldan eða aldrei slíkri gagnrýni beint, jafnvel ekki til að leiðrétta augljósar rangtúlkanir á dómum.

Hér má þó geta þess, að gagnrýni stjórnmálamaður dómsniðurstöðu, sjá ýmsir strax ástæðu til að andmæla honum, hvort sem það er af umhyggju fyrir dómstólnum eða löngun til að gagnrýna stjórnmálamanninn. En að öðru leyti er fátítt að menn komi dómurum til varna og leitist við að sýna fram á, að hin umdeilda niðurstaða þeirra kunni nú að styðjast við efnismeiri rök en gagnrýnendur hafa talið. Velta má fyrir sér, hvort ástæða sé til að leita leiða til að rétta hlut dómstóla að þessu leyti.

Þegar rætt er um dómstóla, berst talið gjarnan að skipun dómara og eru ólíkar skoðanir uppi um það, hvernig standa skuli að því vali. Ég hef í sannleika sagt ekki gert upp við mig, hvernig ég tel, að þær reglur gætu bestar verið. Á öllum tillögum, sem komið hafa fram, eru ýmsir gallar.

Staðfesting alþingis á tilnefndum dómara, hvort sem væri með einföldum eða auknum meirihluta, hefði ýmsa greinilega galla. Hætt er við því, ef farið yrði fram á aukinn meirihluta alþingismanna fyrir staðfestingu dómaraefnis, að þá yrði minnihluta þingmanna mikil freisting að taka tilnefninguna í gíslingu, til að nota í samningum um hefðbundin þingmál. Og jafnvel þó ekki yrði farið fram á annað en samþykki einfalds meirihluta þingmanna, þá má velta fyrir sér hversu geðfelld sú hugmynd er í raun, að efna til þingumræðna og atkvæðagreiðslna um skipun embættismanna, svo persónulegt sem slíkt mat hlýtur að verða.

Sumir tala um hæfnisnefndir, skipaðar mönnum, sem stundum eru kallaðir óháðir. Ég tel, að slíkar nefndir hafi líka ýmsa galla og þá meðal annars, að nefndarmennirnir bera enga ábyrgð á störfum sínum. Ég er hreint ekki viss um, að mat slíkra nefnda sé alltaf svo mikið faglegra eða óháðara en pólitísks ráðherra. Ekki vil ég efast um, að nefndarmenn vinni eftir bestu getu, en þeir búa ekki við sömu kjör og stjórnmálamaðurinn, sem þarf að leita endurkjörs og svara til pólitískrar ábyrgðar. Hæfnisnefnd gefur bara álit og svo eru nefndarmenn farnir að gera eitthvað annað.

Þá er erfiðara að halda niðurstöðu hóps upp á einstaka menn úr hópnum, en ráðherra, sem tekur ákvörðun um ráðningu. Hann verður einn að svara fyrir hana og getur ekki bent á aðra til að gera það í sinn stað.

Á hinn bóginn er ástæðulaust að neita því, að pólitísk ábyrgð ráðherrans hefur sína galla, því að hún gefur pólitískum andstæðingum hans, innan og utan formlegrar stjórnmálabaráttu, ástæðu til að gera ákvarðanir hans, jafnt um veitingu embætta sem annað, ótrúverðugar. Árásir af slíkum toga geta á mjög ómaklegan hátt bitnað á þeim, sem ráðherra veitir embætti hverju sinni, hvort heldur dómaraembætti eða annað.

Engin þeirra tillagna, sem nefndar hafa verið, er að mínu mati gallalaus. Og enn hef ég ekki sannfærst um, að nokkur þeirra sé betri en núverandi skipan, sem þó er alls ekki fullkomin, eins og ég hef nefnt.

 

Góðir áheyrendur!

Í stjórnmálastarfi hef ég verið þess almennt hvetjandi, að ný tækni sé notuð, þar sem hún á við, ekki síst tölvutæknin og það, sem stundum er nefnt upplýsingatækni.

Ég hef í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu nýlega hleypt af stokkunum átaki í upplýsingatæknimálum og er því ætlað að ná til ráðuneytisins og stofnana á þess vegum.

Þetta leiðir hugann að álitamáli, sem er rafræn birting dóma. Ég segi álitamáli, því álitamál er það, hvort og þá hve langt réttlætanlegt sé að ganga í því efni.

Þó hagræði ýmissa, og áhugi fleiri, myndi mæla með rafrænni birtingu dóma, þá eru einnig afar sterk rök, sem mæla gegn því, að lengra sé gengið í þessa veru. Á það sérstaklega við um héraðsdóma, sem eðli málsins samkvæmt hafa mun minni þýðingu fyrir aðra en málsaðila en dómar hæstaréttar.

Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að mótun stefnu um þessi mál, eitt er að geta leyst þau tæknilega, annað að taka ritstjórnarlegar ákvarðanir.  Ég er þeirrar skoðunar, að hverja ákvörðun í þessu efni verði að vanda og væri nokkurs virði, ef félag ykkar legði þar sinn skerf af mörkum.

Ég get sagt það hér, að enn er dómsmálaráðuneytið ekki búið að koma sér upp sannfæringu fyrir því, að rétt sé að ganga lengra en nú er gert við birtingu dóma.

Góðir áheyrendur!

Ég hef hér reifað nokkur sjónarmið, sem snerta dómstóla á einn eða annan hátt. Að sumu leyti hef ég einfaldlega verið að hugsa upphátt um mál, sem ég tel vert að íhuga hér á þessum virðulega vettvangi, án þess að hafa komist að endanlegri niðurstöðu. 

Ég skáka vitaskuld í því skjóli, að dómarar eru öllum mönnum vanari að hlusta og draga sínar ályktanir, jafnvel þótt sumar fullyrðingar séu hæpnar.

Ég vona, að fundur ykkar verði árangursríkur og óska Dómarafélagi Íslands og þeim, sem þar veljast til forystu, velfarnaðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta