Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fjölbreytt tækifæri til bættrar orkunýtni

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, við kynningu á skýrslu Implement. - mynd

Nýta má raforku á Íslandi mun betur en nú er gert. Alls eru tækifæri til bættrar orkunýtni um 1.5 TWst á ári, eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar. Þetta kemur fram í skýrslu sem danska ráðgjafarstofan Implement vann fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkustofnun og Landsvirkjun.

Skýrslan er fyrsta heildstæða greining sinnar tegundar á bættri orkunýtni. Markmið verkefnisins var að varpa ljósi á umfang tækifæra á Íslandi til bættrar orkunýtni og raforkusparnaðar og auka vitund um og skilning á orkunýtni. Orkunýtni og sparnaður er ein af meginstoðum orkustefnu Ísland, um sjálfbæra orkuframtíð.

Samkvæmt greiningu Implement, sem kynnt var í dag, er hægt að spara 356 GWst með núverandi tækni og án óheyrilegs kostnaðar. Sparnaði upp á 797 GWst væri hægt að ná fram með meiri fyrirhöfn og kostnaði, en raforkusparnaður um u.þ.b. 353 GWst telst tæknilega og fjárhagslega erfiður í framkvæmd. Talið er að hægt sé að ná 24% af þessum orkusparnaði á næstu fimm árum og 53% á næsta áratug.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:„Bætt orkunýtni skiptir sköpum þegar kemur að því að mæta vaxandi orkuþörf og hámarksnýting grænnar endurnýjanlegrar orku er ein af meginstoðum orkustefnu Íslands. Þessi skýrsla er sú fyrsta sinnar tegundar og er mikilvægur þáttur í þeirri stefnumótun sem á sér stað í dag innan umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Hér er komið enn eitt púslið í alla þessa vinnu sem miðar að því að Ísland nái metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum sínum og við sem samfélag náum að framkvæma þriðju orkuskiptin.“

Kynning á skýrslunni Engin orkusóun.

Frá kynningu á skýrslunni Engin orkusóun, sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkustofnun og Landsvirkjun.

Fram kemur í skýrslunni að stærstu auðsóttu tækifærin til orkusparnaðar sé að finna í einkageiranum og opinberri þjónustu, eða 320 GWst. Stór tækifæri sé einnig að finna í bættri orkunýtni til hitunar þar sem notast er við raforku (178 GWst), endurnýtingu glatvarma frá iðnaði (357 GWst) og bættri nýtni raforku í áliðnaði (112 GWst). Loks séu tækifæri til bættrar nýtingar innan heimila (58 GWst), í landbúnaði (43 GWst), í framleiðslu járnlausra málma (38 GWst) og hjá fiskimjölsverksmiðjum (24 GWst). Þá felist tækifæri í því að minnka töp í flutningskerfi raforku (25 GWst). 

Greining Implement miðar að því að kortleggja og meta stærð lausna og aðgerða sem eru tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegar, en notast var við gögn frá Orkustofnun, gögn um orkunotkun í Evrópu og upplýsingar frá hagaðilum og notendum raforku.

Engin orkusóun - Möguleikar á betri raforkunýtni á Íslandi

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta