Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 174/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 174/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030056

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 30. mars 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2022, um að vísa frá umsókn hans um dvalarleyfi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda verði endurskoðuð.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi af Útlendingastofnun hinn 20. júní 2016 sem staðfest var með úrskurði kærunefndar útlendingamála hinn 13. október 2016. Hinn 14. júní 2018 var kæranda birt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og tveggja ára endurkomubann vegna ólögmætrar dvalar á landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Í kjölfarið lagði umboðsmaður kæranda fram vegabréf þar sem fram kom að kærandi væri með grískt ríkisfang. Var umrætt vegabréf sent í áreiðanleikakönnun til lögreglu og var niðurstaðan sú að það væri grunnfalsað. Í kjölfarið var síðastnefnd ákvörðun um brottvísun endurupptekin og kæranda brottvísað að nýju á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga en ekki tókst að birta ákvörðunina fyrir kæranda. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. apríl 2020, var kæranda brottvísað á sama grundvelli og ákveðið þriggja ára endurkomubann til landsins. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda hinn 16. nóvember 2021 og var ekki kærð til kærunefndar.

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki hinn 26. október 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2022, var umsókninni vísað frá. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar hinn 30. mars 2022 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er kærandi enn staddur á landinu.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að við endanlega ákvörðun um brottvísun falli útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfi úr gildi og þá skuli óafgreiddum dvalarleyfisumsóknum vísað frá, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Ljóst væri að kæranda hefði verið gert að sæta brottvísun og endurkomubanni samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar sem birt hefði verið fyrir honum hinn 16. nóvember 2021. Var umsókn kæranda því vísað frá.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi borið sig rangt að við upphaflega komu til landsins og ílengst umfram heimildir. Engu að síður séu börn hans með dvalarleyfi á Íslandi og sé umsókn maka hans í réttu og viðeigandi ferli. Kæranda bjóðist föst atvinna og geti atvinnurekandi hans boðið tryggingu fyrir slíkum starfssamningi og fleiri atriðum sem Útlendingastofnun gæti þótt nauðsynlegt að fá, svo hægt sé að veita honum dvalar- og atvinnuleyfi. Sé þess óskað að umrædd ákvörðun verði tekin til endurskoðunar svo lausn fáist þar sem kæranda sé veitt leyfi til samræmis við útgefin leyfi nánustu fjölskyldu eða ellegar að viðurlög ákvörðunar um brottvísun og endurkomubann verði endurskoðuð, í ljósi þess óeðlilega aðskilnaðar sem yrði hjá kæranda við fjölskyldu sína hér á landi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga kemur fram að við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfis útlendings úr gildi. Óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi skal þá vísað frá. Síðastnefnd málsgrein kom inn í ákvæðið með breytingarlögum nr. 149/2018, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að áðurnefndum breytingarlögum segir m.a. að í framkvæmd hafi reynt á það hvað verði um dvalarleyfisumsóknir sem útlendingur hefur lagt fram áður en honum er vísað brott, eftir að honum er tilkynnt um hugsanlega brottvísun eða jafnvel eftir að ákvörðun um brottvísun hafi verið tilkynnt honum en hafi ekki verið framfylgt. Með ákvæðinu sé tekinn af vafi um áhrif brottvísana á óafgreiddar umsóknir um dvalarleyfi og tiltekið sérstaklega að þeim skuli vísað frá. Þegar ákvörðun hafi verið framfylgt geti útlendingur sótt um dvalarleyfi að nýju erlendis frá.

Eins og greinir í II. kafla úrskurðarins var kæranda brottvísað og ákveðið þriggja ára endurkomubann til landsins með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. apríl 2020, sem birt var fyrir kæranda hinn 16. nóvember 2021. Ljóst er að þeirri ákvörðun hefur ekki verið framfylgt og því ber í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga að vísa dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 26. október 2021, frá. Vegna athugasemdar í greinargerð bendir kærunefnd á að sjónarmið um fjölskyldutengsl kæranda við landið hafa ekki þýðingu í málinu en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur uppkominn sonur hans dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga og þá hefur maki hans til meðferðar umsókn um dvalarleyfi, en hún hefur líkt og kærandi aldrei haft útgefið dvalarleyfi á Íslandi. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

Vegna athugasemda kæranda þess efnis að viðurlög ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði endurskoðuð þá var sú ákvörðun ekki kærð til kærunefndar og öðlaðist því full réttaráhrif 15 dögum eftir birtingu hennar, eða hinn 1. desember 2021. Sætir sú ákvörðun því ekki endurskoðun hjá kærunefnd.

 

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta