Hoppa yfir valmynd
27. júní 2018 Innviðaráðuneytið

Ólíkar leiðir til fjármögnunar samgönguinnviða ræddar á ráðstefnu í Helsinki

Frá norræna fundinum í Helsinki: f.v. Baba Lybeck, fundarstjóri, Ketil Solvik-Olsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Anne Berner og Ola Nordlander. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sótti í gær norræna ráðstefnu í Helsinki um ólíkar leiðir til fjármögnunar samgönguinnviða á Norðurlöndunum.

Finnski samgöngu- og fjarskiptaráðherrann, Anne Berner, bauð til ráðstefnunnar til að ræða þá stöðu sem öll Norðurlöndin standa frammi fyrir varðandi fjármögnun og viðhald samgönguinnviða til framtíðar. Markmiðið var að koma af stað umræðu landanna á milli hvernig best sé að endurhugsa fjármögnunarleiðir í samgöngumálum þannig að þær skili mestum ávinningi fyrir samfélagið.

Ráðstefnuna sóttu fulltrúar Norðurlandanna; auk samgönguráðherra Íslands, Noregs og Finnlands, sem var gestgjafi, sóttu hana embættismenn, forystumenn úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Fjallað var um leiðir sem unnið er að á hinum Norðurlöndunum, gjaldtöku af einstaka mannvirkjum, tímagjald og útfærslur af blandaðri fjármögnun, þ.e. hefðbundinni fjárveitingu hins opinbera og gjaldtöku. Þá var einnig rætt um hvernig samþætting samgangna og fjarskipta geti aukið virðisaukandi þjónustu og umferðaröryggi. Í því sambandi var bent á mikilvægi þess að gögn séu eins aðgengileg og kostur er – til hagsbóta fyrir alla.

Sigurður Ingi sagði í ávarpi sínu að mikilvægt væri að líta ekki aðeins til fjárfestingar í samgöngumannvirkjum heldur einnig til þess hvernig fjármagna skuli rekstur þeirra og viðhald. Íslendingar myndu líta til Norðurlandanna á þessu sviði og nýta sér reynslu þeirra. Ljóst sé að við stöndum á krossgötum umbreytinga og því sé nauðsynlegt að ræða framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins með opnum huga. Þrátt fyrir auknar fárveitingar til vegamála dugi þær ekki til alls þess viðhalds og uppbyggingar sem nauðsynlegt sé að fara í. Hann hafi því ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að koma með tillögur um hvernig flýta megi uppbyggingu greiðra og öruggra samgöngumannvirkja til að mæta auknu álagi á einstaka leiðum.

Ráðherrarnir voru sammála um gildi þess fyrir Norðurlöndin að leita saman að bestu lausnunum þar sem samgönguinnviðir landanna eigi svo margt sameiginlegt. Ákveðið var að halda umræðunni áfram; það sé til mikils að vinna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta