Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 87/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 87/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 19. september 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans sökum þess að hann hefði verið að vinna hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Þá var hann upplýstur um að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 34.831 kr. með 15% álagi, vegna tímabilsins frá 26. ágúst 2014 til 31. ágúst 2014. Með tölvupósti til Vinnumálastofnunar þann 22. september 2014 óskaði kærandi eftir rökstuðningi stofnunarinnar. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 3. október 2014. Mál kæranda var jafnframt tekið fyrir að nýju og með bréfi, dags. 20. október 2014, var kæranda tilkynnt að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. september 2014 um innheimtu ofgreiddra bóta væri felld niður. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. nóvember 2014. Kærandi óskar eftir leiðréttingu á bótarétti og bótum frá síðasta starfsdegi hjá C. Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 12. ágúst 2014. Með bréfi, dags. 8. september 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hefði starfað hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu er kæranda veittur kostur á að skila inn skýringum og athugasemdum skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Skýringar bárust með tölvupósti þann 10. september 2014 þar sem fram kemur að kærandi sé skráður framkvæmdastjóri yfir félaginu en þiggi engin laun fyrir það. Hann hafi stofnað fyrirtækið árið x en hafi enga aðra aðkomu að því. Fyrirtækið sé rekið af ferðamálafræðingi sem [...]. Bókhaldið sé í höndum Bókhaldsþjónustunnar D. Allur rekstur fyrirtækisins sé því í höndum annarra. Hann hafi alla tíð unnið sem tölvunarfræðingur og haldi áfram að sækja um atvinnu sem slíkur. Með bréfi, dags. 19. september 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar en ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta var síðar felld niður, sbr. bréf stofnunarinnar dags. 20. október 2014.

Kærandi sendi Vinnumálastofnun vottorð frá fyrrum vinnuveitanda með tölvupósti þann 27. október 2014 þar sem fram kemur að kærandi hafi starfað hjá honum frá 1. febrúar 2012 til 23. júlí 2014. Kærandi greindi jafnframt frá því að hann væri enn í virkri atvinnuleit. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2014, var kæranda synjað um endurupptöku máls skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í kæru segir að í útskýringum Vinnumálastofnunar sé því haldið fram að kærandi hafi unnið fyrir B á sama tíma og sótt hafi verið um bætur. Tilgreint hafi verið tímabilið frá 26. ágúst til 31. ágúst og því til rökstuðnings sé bent á færslu á heimasíðunni E sem dagsett sé á umræddu tímabili. Þessi rök standist ekki. Sá sem setji inn færslu á E geti gert slíkt löngu eftir að þjónusta hafi verið innt af hendi og því séu engin tengsl milli færsludagsetningar og þeirrar dagsetningar sem ferð hafi verið farin. Kærandi hafi alla tíð starfað sem tölvunarfræðingur og hans aðkoma að B felist í því að setja inn myndir og halda Facebook-síðu fyrirtækisins „lifandi“.

Í útskýringum Vinnumálastofnunar sé því haldið fram að á Facebook-síðu B sé að finna myndir sem sýni kæranda í ferðum fyrir umrætt félag. Þessi rök standist ekki heldur. Kærandi komi aldrei fram á þessum myndum þar sem hann hafi ekki tekið myndirnar. Þær séu teknar af bílstjórum sem fóru þessar ferðirnar og séu til þess fallnar að auglýsa umrætt félag. Kærandi setji þessar myndir inn á síðuna og því hafi nafn hans birst við færslurnar. Til séu reikningar frá framangreindum bílstjórum til fyrirtækisins þar sem dagsetningar ferða þeirra komi fram.

B sé […] og enginn hagnaður sé farinn að myndast hjá fyrirtækinu. Öll aðkoma kæranda að fyrirtækinu sé án endurgjalds og allur afgangur fari í uppbyggingu, markaðssetningu og annað slíkt. Þá komi fram í vottorði hjá fyrrum vinnuveitanda að kærandi hafi verið í fullu starfi hjá þeim. Það hafi ríkt samkomulag milli kæranda og fyrrum vinnuveitanda að ef hann þyrfti að hlaupa undir bagga með fyrirtækinu þá yrði það að einskorðast við frítíma hans. Hans framlag til fyrirtækisins hafi því einungis verið unnið í frítíma hans. Kærandi hafi ekki starfað fyrir umrætt félag frá þeim tíma sem hann hafi misst vinnu sína hjá fyrri vinnuveitanda og sé virkur í atvinnuleit. Hann hafi farið í starfsviðtöl og fleira sem tölvunarfræðingur. Stefna hans sé að vinna áfram á því sviði enda liggi menntun hans þar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. júlí 2014, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

Í verknaðarlýsingu 60. gr. laganna sé gerð grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda megi ráða að hann hafi verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Af samskiptasögu kæranda megi ekki ráða að hann hafi tilkynnt um starf sitt til stofnunarinnar þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 12. ágúst 2014.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda hafi borið að tilkynna stofnuninni um vinnu sína. Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um starf sitt til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt, tilkynna um tekjur, sbr. 10. gr., eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laga nr. 54/2006, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Þá er vísað til rökstuðnings stofnunarinnar í bréfi, dags. 3. október 2014, þar sem fram komi að kærandi hafi verið skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stofnandi B. Þó svo að kærandi hafi ekki fengið greidd laun fyrir starf sitt þá geti það ekki leitt til þess að honum beri ekki að sæta viðurlögum en af orðalagi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að greiðsla launa sé ekki gert að skilyrði fyrir beitingu viðurlaga samkvæmt ákvæðinu.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið að sinna verkefni sem hafi falið í sér þátttöku á vinnumarkaði þar sem hann hafi getað vænst þess að eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum fyrir, enda beri þeim sem starfi fyrir sitt eigið einkahlutafélag að reikna sér endurgjald skv. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og reglum skattyfirvalda um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2014. Ljóst sé að ef atvinnuleitanda væri frjálst að ráða sig til starfa sem sjálfboðaliði samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta væri óþarft að mæla fyrir um sérstaka undanþáguheimild líkt og í 10. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, þar sem stofnuninni sé veitt heimild til að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðastarfi enda sé um að ræða vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. desember 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá kemur fram í 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sá sem er tryggður skuli tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og í 35. gr. a laganna er fjallað um það að tilkynna skuli án tafar um tilfallandi vinnu.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu B í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi stjórnarmaður, framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stofnandi fyrirtækisins B. Af kæru má ráða að fyrirtækið hafi verið starfrækt á þeim tíma sem kærandi þáði atvinnuleysisbætur og að kærandi hafi séð um Facebook-síðu fyrirtækisins. Kærandi virðist hins vegar telja að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við í hans tilviki þar sem hann hafi ekki aðra aðkomu að fyrirtækinu en að sjá um Facebook-síðu þess án endurgjalds.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að ráða megi af orðalagi 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 10. og 35. gr. a laganna, að óheimilt sé að vinna nokkurt starf á innlendum vinnumarkaði án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það. Þannig er hvorki gerð krafa um ákveðið lágmarksstarfshlutfall né að viðkomandi fái greidd laun fyrir sína vinnu. Það er því mat nefndarinnar að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi upplýst Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku sína, sbr. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að rétt hafi verið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Þá skuli kærandi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun frá 19. september 2014, sbr. einnig ákvörðun frá 20. október 2014, staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. september 2014 í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta