Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 88/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 88/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að réttur hans til biðstyrks á grundvelli reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem séu þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013, hafi verið felldur niður sökum þess að hann teldist ekki í virkri atvinnuleit. Jafnframt var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddan biðstyrk fyrir tímabilið frá 1. janúar til 2. maí 2013 að fjárhæð 677.787 kr. með 15% álagi sem yrði innheimtur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 30. júlí 2013, að Vinnumálastofnun hefði tekið þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hefði verið að keyra leigubíl samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tilgreindum tímabilum á árinu 2012. Einnig var hann upplýstur um að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 493.834 kr. með 15% álagi, vegna tilgreindra tímabila á árinu 2012. Með bréfi frá Innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi, dags. 9. október 2014, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði falið embættinu að innheimta framangreindar greiðslur og honum gert að greiða eða semja um greiðslu kröfunnar innan 15 daga. Kærandi kærði ákvarðanir Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðasaðgerða með erindi mótteknu þann 13. nóvember 2014. Vinnumálastofnun telur að kæra hafi borist eftir að kærufrestur var liðinn.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi haft leigubílaakstur um helgar sem aukavinnu frá árinu 1997 til þess að geta borgað reikninga. Síðan hafi hann byrjað í fullu starfi sem leigubílstjóri og steypt sér í skuldir við kaup á bíl og fleira. Hann geti ekki greitt kröfu Vinnumálastofnunar til viðbótar.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða segir að í ákvörðunum stofnunarinnar frá 30. júlí og 23. júlí 2013 hafi kæranda verið tilkynnt um rétt sinn til að kæra viðkomandi ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar innan þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur vegna beggja ákvarðana Vinnumálastofnunar í garð kæranda hafi því runnið út í lok október 2013. Þar sem kærandi hafi ekki kært skuldamyndun sína fyrr en í nóvember 2014, hafi kæra borist utan þriggja mánaða frests skv. 1. mgr. 12. gr. laganna. Kærandi hafi ekki lagt fram neinar ástæður sem réttlæti að kæra hafi borist utan kærufrests.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 13. nóvember 2014. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur og biðstyrk koma fram í bréfum stofnunarinnar, dags. 23. júlí 2013 og 30. júlí 2013, tæplega 16 mánuðum áður en kæran barst úrskurðarnefndinni. Með vísan til framanritaðs barst kæran að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

  

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta