Málstofa um aukna jarðvarmanýtingu á Indlandi
Nú er tækifærið fyrir aukið samstarf Íslands og Indlands í nýtingu endurnýjanlegrar orku í ljósi þess, að indversk stjórnvöld ætla að stórauka framleiðslu endurnýjanlegrar grænnar orku. Þetta var niðurstaðan á málstofu um jarðvarmanýtingu og framleiðslu grænnar orku með kolefnisbindingu og -nýtingu (CCUS), sem haldin var á vegum sendiráðsins í Delhí og Indversk-íslenska viðskiptaráðsins (IIBA) með þátttöku Orkumiðstöðvar ONGC-orkufyrirtækisins, stærsta orkufyrirtækis á Indlandi. Samstarfsaðilar verkefnishóps (Task Force) fyrir samstarf ríkjanna um verkefni í nýtingu jarðvarmaorku á Indlandi hófu undirbúningsstarf sitt í vikunni í Delhí.
Benedikt Höskuldsson, sérstakur fulltrúi utanríkisráðuneytisins fyrir loftslagsmál, sem tilnefndur hefur verið formaður verkefnahópsins af Íslands hálfu, tók þátt í fundadagskrá, sem sendiráðið í Nýju-Delhí skipulagði. Á meðal annars var haldinn fundur með Rajesh Kumar Srivastava, forstjóra og stjórnarformanns ONGC, sem lýsti miklum áhug á auknu samstarfi. ONGC-fyrirtækið (Oil and Natural Gas Corporation Ltd., ONGC), sem er í ríkiseigu, á samvinnu við ÍSOR og VERKÍS um jarðvarmaveitu í Ladakh-fylki í norð-vesturhluta Indlands. Að loknum inngangi formanns viðskiptaráðsins, Prasoon Dewan, og Guðna Bragasonar sendiherra, sem rakti aðdragandann að stofnun verkefnahópsins með ákvörðun forsætisráðherra ríkjanna sl. vor, flutti forstjóri Orkumiðstöðvar ONGC, dr. Ravi, erindi um starf fyrirtækisins að endurnýjanlegri orkunýtingu.