Erindi Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar
11. júní 2005
Ágætu meðlimir stjórnarskrárnefndar og ráðstefnugestir aðrir.
Krafa Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju er krafa um mannréttindi og trúarlegt jafnrétti. Í samtökunum eru sömu megin borðsins trúað fólk og trúlaust, sem telur það brot á mannréttindum, trúfrelsi og trúarjafnrétti að eitt tiltekið trúfélag njóti stjórnarskrárbundins forgangs og forréttinda umfram önnur trúfélög og lífsviðhorf.
Við sameinumst um það grundvallaratriði, að sextugustu og aðra grein stjórnarskrárinnar beri að afnema. Við, í samtökunum, erum síðan með mismunandi sýn hvað ýmis útfærsluatriði varðar, eins og skrásetningu fólks í trúfélög, hvort ríkið eigi að innheimta trúfélagsgjöld og fleira mætti nefna. En ekkert slíkt þarf að flækjast fyrir grundvallaratriðunum. Ég vil nefna í þessu sambandi að krafa okkar um aðskilnað felur ekki í sér kröfu, um afnám fjárveitinga hins opinbera til trúfélaga eða trúariðkunar, svo fremi sem það sé algerlega á jafnréttisgrunni.
Virðulegu meðlimir stjórnarskrárnefndar. Hvernig hugnaðist ykkur hugdetta um að gera Sjálfstæðisflokkinn að Ríkisflokki Íslands, í ljósi þess að hann hefur jú lengi verið fylgismesti flokkurinn í þingkosningum? Eða hvernig þætti ykkur uppástungan um að gera KR að Ríkisíþróttafélagi Íslands, af því að KR hefur lengi verið fylgismesta íþróttafélag landsins? Það er ekkert skrítið eða óréttmætt við þessar samlíkingar.
Við búum nú í fjölmenningarsamfélagi. Trúfélag Ríkiskirkjunnar hefur stöðugt verið að missa yfirburðastöðu sína. Var með 93% landsmanna innanborðs fyrir aldarfjórðungi, en ár eftir ár hefur hlutfallið lækkað og var við síðustu talningu tæplega 85,5%. Hvenær telja nefndarmenn að þetta hlutfall sé komið það langt niður að grípa eigi til ráðstafana? Samtökin telja þennan tíma vera til kominn.
Samtökin telja óforsvaranlegt að næstum því sjötti hver landsmaður er nú settur í annan og óæðri flokk í trúmálum en hinir útvöldu. Nær sjötta hverjum landsmanni er að óbreyttu efnislega sagt, að hann sé afvegaleiddur trúvillingur. Þetta er sagt við 43 þúsund landsmenn; þetta er sagt við 11 þúsund meðlimi Fríkirkjusafnaða, við 6 þúsund Kaþólikka, við nær þúsund Ástatrúarmenn, við yfir 500 Búddista, við yfir 7 þúsund manns utan trúfélaga og áfram mætti upp telja. Öll umræða um hversu trúar- og lífsskoðanahópar eru fjölmennir er að öðru leyti óviðeigandi í þessu samhengi. Annað hvort eru menn fylgjandi mannréttindum og jafnrétti til handa öllum, eða ekki.
Flestallar þjóðir í kringum okkur hafa tileinkað sér aðskilnað ríkis og trúar. Árvissar kannanir Gallup hafa sýnt að tveir af hverjum þremur landsmönnum eru hlynntir slíkum aðskilnaði. En meðal forystuliðs ríkjandi stjórnmálaflokka virðast menn, að ástæðulausu, deila áhyggjum með forystu Ríkistrúfélagsins. Í flokkunum er kynslóðabilið þó áberandi, með því að unga fólkið er mjög hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju. Eins og skýrt kom fram nýverið, á sameiginlegu þingi unga fólksins, sem ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna héldu í vor.
Menn ættu að auðsýna skynsemi og stíga þetta mikilvæga skref nú. Það væri óneitanlega meiri reisn yfir því, að við gerum þetta sjálf, en að það gerist t.d. vegna Hæstaréttardóms og að nýr “Jón á hjólinu” fer með trúarlegt mannréttindamál til Strassborgar.
Lítið í kringum ykkur, ágætu nefndarmenn. Í ríkisstjórninni er kaþólskur ráðherra. Í þingliðinu er ásatrúarmaður. Eru trúvillingarnir að smokra sér upp á dekk? Ef þingmenn væru að sönnu þverskurður þjóðarinnar ættu 9 þingmenn af sextíu og þremur að vera utan Ríkiskirkjunnar. Það þætti aldeilis ekki marklaus þingflokkur og væntanlega ekki talinn óæðri hinum.
Góðir nefndarmenn. Það er með auðveldum hætti hægt að tryggja virkt trúfrelsi, án þess að svipta grundvellinum undan trúariðkun nokkurs manns. Sjálfur biskupinn yfir Ríkistrúfélaginu á Íslandi hefur sagt, að Þjóðkirkjan eigi að undirbúa sig undir fullan lögskilnað frá ríkinu. Við erum sammála biskupnum og hvetjum stjórnarskrárnefnd til að leggja fram tillögu um afnám sextugustu og annarrar greinar stjórnarskrárinnar. Ég þakka áheyrnina.
Friðrik Þór Guðmundsson