Hoppa yfir valmynd
11. júní 2005 Forsætisráðuneytið

Erindi BSRB á rástefnu stjórnarskrárnefndar

Erindi fyrir málþing stjórnarskrárnefndar, 11. júní 2005/phh

Ágæta samkoma, Páll H. Hannesson heiti ég og er hér fyrir hönd BSRB.

Stjórn BSRB hefur lagt þá tillögu fyrir stjórnarskrárnefnd að aðgangur að drykkjarvatni teljist mannréttindi og að eignarhald á vatni skuli jafnan vera samfélagslegt og skuli það bundið í stjórnarskrá lýðveldisins.

Nú er hafinn áratugur vatnsins 2005-2015 samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Meginmarkmið þessa áratugar eru aukin áhersla á málefni er snerta vatn og að koma í framkvæmd áætlunum og verkefnum á því sviði. Í dag er áætlað að um ein komma einn (1,1) milljarður manna eða einn sjötti mannkyns, hafi takmarkaðan eða engan aðgang að hreinu drykkjarvatni og um tvo og hálfan milljarð skorti vatn til hreinlætis. Samkvæmt Þúsaldar þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórnir heimsins samþykktu árið 2000, er gert ráð fyrir að 1,6 milljarður manna muni bætast við þann fjölda árið 2015, jafnvel á svæðum sem eru rík af vatni eins og vesturlönd.

BSRB skírskotar beint til samþykktar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2002 og er Ísland aðili að henni.

Samkvæmt henni telst aðgangur að vatni til grundvallarmannréttinda. Sérhver maður skal þess vegna eiga rétt á og vera tryggður nægilegur og öruggur aðgangur að hreinu drykkjarvatni á viðráðanlegu verði, auk vatns til hreinlætis og heimilishalds. Fara skal með vatn sem félagsleg og menningarleg gæði, en ekki skal litið á vatn sem hverja aðra verslunarvöru. Þess skal gætt að framkvæmd sé sjálfbær og þannig tryggt að réttindin megi raungera fyrir kynslóðir nútíðar sem og framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar. Það er því ljóst að íslensk stjórnvöld hafa hér tekið sér skyldur á herðar.

Það er óhætt að fullyrða að hér á landi hafa opinberir aðilar í langflestum tilfellum staðið sig mjög vel í að veita almenningi aðgang að góðu drykkjarvatni á viðráðanlegu verði og lagaramminn hefur stutt þessa stöðu.

En umheimurinn tekur breytingum og Ísland þar með.

Tíundi áratugur síðustu aldar hefur verið kallaður áratugur einkavæðingar vatns. Alþjóðleg stórfyrirtæki hafa, oftar en ekki með tilstuðlan alþjóðastofnana og alþjóðaviðskiptasamninga, náð undir sig opinberum vatnsveitum. Alþjóðabankinn hefur miskunnarlaust skilyrt lánveitingar til þróunarríkja með því að opinber þjónusta verði einkavædd. GATS-samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, gengur út á að ríki opni þjónustugeira sína einn af öðrum fyrir alþjóðlegum viðskiptum og markaðsvæðingu með óafturkræfum hætti og hefur Evrópusambandið sent tæplega 80 ríkjum kröfur um að þau opni aðgang að vatni og vatnsveitum í þessu augnamiði. Ísland er aðili að þessum samningi.

Í skýrslu Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2002 segir um samband einkavæðingar og aðgangs að vatni:
„Heildarskoðun á nýlegum dæmum af einkavæðingu á vatni og skólpi sýnir að í langflestum tilfellum hafa gæði og umfang þjónustunnar til þeirra sem standa höllum fæti, ekki aukist. Þvert á móti, hækkun gjalda og lokanir til þeirra sem ekki hafa haft efni á að borga hærri gjöld, hafa orðið algengari. Þessi skoðun, staðfestir ennfremur þær áhyggjur að þó auðvelt sé að einkavæða þessa þjónustu, að þá er einstaklega erfitt að reka hana í framhaldinu ef markmiðin eru almennur aðgangur, viðsættanleg gæði og viðráðanlegt verð fyrir alla.“

Svo langt hefur verið gengið á stundum að hin alþjóðlegu vatnsfyrirtæki hafa látið loka opinberum vatnspóstum og fólki hefur verið meinað að safna regnvatni af þökum húsa sinna. Hér sjá allir að um mannréttindabrot er að ræða, fólk er svipt nauðþurftum. Aðgangur að vatni telst mannréttindi.

Íslensk yfirvöld töldu sér skylt að taka í gildi raforkutilskipun Evrópusambandsins. Þetta var gert þrátt fyrir varnaðarorð um hækkun raforkuverðs, aukna samþjöppun og minna afhendingaröryggi, eins og stöðumatsskýrsla Evrópusambandsins frá í fyrra staðfesti síðan að hefur orðið raunin, og þrátt fyrir að þessar eignir þjóðarinnar eru á leið í hlutafélagavæðingu og þaðan væntanlega út á alþjóðlegan markað. Í dag ber enginn einn aðili lengur ábyrgð á að nægileg raforka sé til í landinu, fyrirtækin þurfa eingöngu að huga að sínum viðskiptavinum. Sama getur gerst með vatnið og hefur reyndar komið til tals innan Evrópusambandins.

Það er ekki síst vegna þessarar þróunar sem að alþingi Hollendinga samþykkti í fyrra bann við að einkafyrirtæki kæmu nálægt dreifingu neysluvatns í landinu, það skal hið opinbera sjá um.

Nú í apríl samþykkti alþingi Belgíu tillögu til stjórnarskrárbreytingar, sem áður hafði verið samþykkt í meirihluta allra sveitarfélaga í landinu. Þar segir að litið skuli á vatn sem grunnmannréttindi og að það skuli staðfest í stjórnarskrá landins og viðeigandi alþjóðlegum samningum sem ríkið gerir. Þá var einkavæðing vatns fordæmd.

Og í október 2004 samþykkti uruguyanska þjóðin svohljóðandi tillögu til breytingar á stjórnarskrá landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu: “Vatn er náttúruleg auðlind nauðsynleg lífi. Aðgangur að drykkjarvatni og skólplagnakerfi telst til grundvallarmannréttinda.“  Þessi tillaga hlaut samþykki 65% þjóðarinnar og hafði slæm reynsla af rekstri alþjóðlegra stórfyrirtækja á einkavæddum vatnsveitum þar megin áhrif.

Í fyrra var lögum um vatnsveitur á Íslandi breytt á þann veg, að þær geta nú framselt einkarétt sinn á rekstrinum, ótímabundið til nýs fyrirtækis þar sem einkaaðilar geta farið með ráðandi hlut. Í fyrirliggjandi frumvarpi að vatnalögum er sú meginbreyting að afnotarétti landeiganda á vatni á að breyta í eignarrétt. Hér er verið að bjóða hættunni heim.

Það er ljósi þessarar þróunar sem að BSRB leggur fram tillögu sína. Byrgja skal brunnin áður en barnið dettur ofaní!
Ég get bætt við þeirri skoðun minni að fari þessi breyting inn í stjórnarská Íslands þá mun það vekja alþjóðlega athygli og vera verðugt framlag Íslands til þess að þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna megi nást. Góðar fyrirmyndir geta verið gulls ígildi.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta