Öryggismál í Leifsstöð
Að gefnu tilefni og vegna umfjöllunar um öryggismál í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og einkarekstur við öryggisleit þar vill samgönguráðuneytið benda á nokkur atriði. Um leið er rétt að benda á að sú tilhögun sem vísað er til í grein Steinþórs Ólafssonar í Morgunblaðinu 28. júlí heyrir fortíðinni til. Ekki er lengur endurtekin leit á íslenskum flugfarþegum sem fara frá Íslandi til ESB ríkja.
Í kjölfar atburðanna í New York 11. september 2001 var allt öryggiseftirlit með flugi og flugfarþegum aukið verulega. Bæði Bandaríki Norður-Ameríku (BNA) og Evrópusambandið tóku upp mjög hertar reglur á þessu sviði. Þessar reglur hafa verið innleiddar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og birtar hér á landi í reglugerðum um flugvernd.
Skipulag þessara mála hér á landi er með þeim hætti að samgönguráðuneytið og Flugmálstjórn Íslands hafa eftirlit með flugvernd hér á landi en utanríkisráðuneytið og Flugmálstjórn á Keflavíkurflugvelli ásamt sýslumanni þar bera ábyrgð á framkvæmd flugverndarinnar á Keflavíkurflugvelli og að hún samræmist þeim reglum sem um hana gilda.
Eins og áður sagði hafa reglur ESB verið innleiddar hér á landi og endurspegla því reglur Evrópusambandins á þessu sviði. En eins og oft áður er ekki fullt samræmi milli reglna ESB og reglna í Bandaríkjunum og því geta verið mismunandi staðlar lagðir til grundvallar vegna þess tækjabúnaðar sem notaður er við framkvæmd eftirlitsins. Þetta hefur skapað ákveðinn vanda sem m.a. hefur leitt til þess að öryggisleit á flugfarþegum sem koma frá BNA hefur ekki talist fullnægjandi í ESB ríkjum. Það hefur leitt til þess að ekki hefur mátt blanda farþegum frá BNA saman við aðra farþega nema að endurtekinni leit.
Lengi vel var talið að samkomulag næðist milli þessara blokka um gagnkvæma viðurkenningu á leit hvors annars en svo varð ekki. Við þessu varð að bregðast hér á landi enda er leiðarkerfi Icelandair byggt upp í kringum Keflavíkurflugvöll sem miðpunkt og skiptistöð vegna flugsins til BNA. Nokkurt tíma tók að útvega viðeigandi tækjabúnað til að hefja leit (aftur) á farþegum frá BNA auk þess verð að manna og skipuleggja þá leit með skjótum hætti.
Eftir að hin nýju tæki voru sett upp hafa farið fram úttektir af hálfu erlendra eftirlitsaðila og Flugmálastjórnar Íslands á framkvæmdinni á Keflavíkurflugvelli og fyrir liggur að hún samræmist þeim alþjóðareglum (ESB) sem um flugvernd gilda. Búið er því að girða fyrir blöndun farþega frá BNA og annarra í flugstöðinni með leit á hinum fyrrnefndu við komu til Keflavíkurflugvallar í samræmi við kröfur ESB þar um.
Flugmálastjórnum aðildarríkja ESB og EFTA hefur verið tilkynnt þar um og endurskimun farþega frá Keflavíkurflugvelli hefur verið hætt á komuflugvöllum í Evrópu.
Þá má benda á að sú endurtekna leit sem fram fór á farþegum frá Keflavík fór einnig fram á farþegum SAS og annarra flugfélaga sem komu beint frá BNA ef hætta var á að þeir blönduðust öðrum farþegum í flugstöðum bandalagsins.
Af hálfu samgönguráðuneytisins hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á það að öryggi flugs sé með því besta sem þekkist og svo verður áfram.