Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Bifhjólafólk heimsækir samgönguráðherra

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fékk nokkra fulltrúa Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, til skrafs og ráðagerða í ráðuneytinu í dag. Tilgangurinn var að heyra hjá þeim til hvaða ráða megi grípa til að sporna við hraðakstri á götum og vegum.

Bifhjólamenn hjá ráðherra
Bifhjólamenn hjá ráðherra. Frá vinstri: Dagný Jónsdóttir, Friðgeir Sveinsson og Karen Gísladóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Sturla Böðvarsson ráðherra.

Meðal þess sem fulltrúar bifhjólamanna nefndu var að auka mætti áróður sem beindist sérstaklega að bifhjólamönnum og að bifhjól væru tekin með í almennan umferðaráróður. Töldu þeir að Umferðarstofa mætti beina sjónum sínum meira að þessum hópi, bæði til að vekja þá til umhugsunar og til að vekja athygli almennra ökumanna á bifhjólum í umferðinni. Einnig töldu þeir að svo virtist sem bifhjólamenn ættu sjálfir að sjá um áróður og fræðslu í sínum hópi sem þeir töldu sig gera en nokkuð vantaði á að yfirvöld og aðrir sem leggðu fé í umferðaröryggismál tækju bifhjólamenn með.

Einn vandinn er sá að sögn bifhjólamanna að Sniglarnir ná ekki lengur til meginþorra bifhjólamanna. Sífellt fleiri stunduðu bifhjólaakstur, fólk á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum, og ekki kærðu allir sig um að vera í ákveðnum félagsskap. Til að ná betur til allra bifhjólamanna eru uppi hugmyndir um að stofna eins konar regnhlífarsamtök og eru þær hugmyndir nú til skoðunar hjá bifhjólamönnum.

Þá var fjallað um lokað æfingasvæði fyrir bifhjól töldu fulltrúar bifhjólamanna brýnt að koma upp slíku svæði. Myndi það bæði nýtast til æfinga og kennslu en einnig yrði að vera þar braut til hraðaksturs sem myndi leiða til þess að bifhjólamenn þyrftu ekki að fá útrás á götunum.

Í lokin voru menn sammála um þá niðurstöðu fundarins að leitað yrði allra leiða til að bæta umferðarmenningu á þessu sviði og samgönguráðherra kvaðst láta kanna hvort auka mætti samstarf bifhjólamanna og Umferðarstofu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta