Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrar ræddu tvísköttunarsamning Íslands og Ástralíu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - myndUtanríkisráðuneytið

Viðræður um tvísköttunarsamning við Ástrala og gerð fýsileikakannanar vegna fríverslunarsamnings á milli EFTA og Ástralíu voru efst á baugi á símafundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Dan Tehan, viðskiptaráðherra Ástralíu í morgun.

Að sögn Guðlaugs Þórs er stefnt að því að ljúka við gerð tvísköttunarsamnings ríkjanna fyrir lok þessa árs. Varðandi áhuga Ástralíumanna á fríverslunarviðræðum við EFTA segir Guðlaugur Þór: „Þótt ákveðnar áskoranir myndu fylgja viðræðum við Ástralíu, sérstaklega varðandi landbúnaðarvörur, tel ég að gerð fríverslunarsamnings EFTA og Ástralíu væri eitt skref enn í að opna möguleika fyrir íslensk fyrirtæki í þessum spennandi heimshluta.“

Málefni á borði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) voru jafnframt fyrirferðamikil á fundi ráðherranna. Rætt var um ríkisstyrki í sjávarútvegi, landbúnaðarmál, umbætur innan WTO og úrlausn deilumála á vettvangi stofnunarinnar, umhverfismál, rafræn viðskipti og málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Jafnframt barst talið að jafnrétti kynjanna í viðskiptum en Ísland hefur leitt starfið innan WTO þegar kemur að þeim málaflokki.

„Þrátt fyrir fjarlægðina eiga Ísland og Ástralía í góðu samstarfi á alþjóðavettvangi. Við byggjum samskipti okkar og vinskap á sömu lýðræðislegu gildum og ég tel mikilvægt að þjóðirnar vinni áfram þétt saman,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta