Hoppa yfir valmynd
28. maí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 198/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 198/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020004

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. febrúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Jórdaníu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi, lagt verði til grundvallar að hann sé frá Palestínu og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 2. janúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 19. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 16. janúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 4. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 17. febrúar 2020 ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda 26. febrúar og 13. maí 2020. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna þjóðernis síns. Þá verði hann fyrir mismunun vegna palestínsks uppruna síns af hálfu yfirvalda sem og samfélagsins í heild.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 19. september 2019. Þar hafi kærandi greint frá því að hann hafi fengið jórdanskan ríkisborgararétt við fæðingu í Amman í Jórdaníu. Kærandi sé af palestínskum uppruna og hafi fjölskylda hans snúið aftur til Palestínu þegar hann hafi verið tveggja ára að aldri, m.a. vegna slæms aðbúnaðar og illrar meðferðar á fólki af palestínskum uppruna í Jórdaníu. Kærandi hafi búið í Palestínu um langa hríð, þá síðast í [...] borg, þar til hann hafi neyðst til að flýja landið vegna þeirra aðstæðna sem Palestínumenn búi við í landinu. Kærandi hafi fengið útgefið palestínskt vegabréf þann 22. júlí 2019 og hafi hann þá misst ríkisborgararétt sinn í Jórdaníu.

Kærandi virðist telja óþarft að reifa almennar aðstæður í Palestínu. Þess í stað miðast greinargerð kæranda að því að varpa skýrari ljósi á ríkisfang hans og rökstyðja þá staðhæfingu hans að hann hafi engin ríkisborgaratengd réttindi í Jórdaníu. Í því sambandi fjallar kærandi um ríkisfangslög Jórdaníu frá árinu 1954, ríkisfang fólks af palestínskum uppruna í Jórdaníu og áhrif palestínskra vegabréfa á jórdanskan ríkisborgarétt. Kveður kærandi að frá árinu 1988 hafi jórdönsk yfirvöld afturkallað ríkisfang þúsunda einstaklinga af palestínskum uppruna með handahófskenndum hætti. Sú framkvæmd yfirvalda sé í andstöðu við ofangreind lög og eigi sér ekki skýra lagastoð. Heimildir beri með sér að yfirvöld hafi almennt ekki tilkynnt einstaklingum formlega um afturkallanir á ríkisfangi. Viðkomandi aðilar hafi því fengið fregnir af afturkölluninni við reglubundin samskipti sín við yfirvöld, t.a.m. þegar þeir hafi þurft að endurnýja vegabréf sín. Áhrif afturköllunar ríkisfangs geti verið afar viðamikil og feli í sér skerðingu á borgaralegum réttindum þeirra sem fyrir henni verða. Þá hafi reynst nær ómögulegt fyrir viðkomandi aðila að fá slíkum afturköllunum snúið við. Frá árinu 1995 hafi yfirvöld í Jórdaníu ekki heimilað Palestínumönnum að hafa palestínskt vegabréf eða vera með tvöfalt ríkisfang. Palestínumenn, sem snúi aftur til Palestínu og fái viðurkenningu á palestínsku þjóðerni sínu, fyrirgeri þannig rétti sínum til þess að fá útgefin gul vegabréf sem innihaldi ríkisnúmer og kveði á um jórdanskt ríkisfang viðkomandi. Eftir sem áður geti viðkomandi aðilar fengið útgefin græn vegabréf en þau innihaldi ekki ríkisnúmer og færi því ekki sönnur á ríkisfang viðkomandi. Þá veiti þau viðkomandi aðilum ekki varanlegan eða skilyrðislausan rétt til dvalar í landinu.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni einnig um stöðu einstaklinga af palestínskum uppruna í Jórdaníu. Í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um útrýmingu kynþáttamisréttis í Jórdaníu frá árinu 2017 komi fram að yfirvöld séu enn að afturkalla ríkisfang einstaklinga af palestínskum uppruna í landinu. Þá komi fram í skýrslunni að viðkomandi aðilum sé mismunað og mæti hindrunum þegar komi að húsnæði, atvinnu, menntun, heilsugæslu og félagsþjónustu. Þá veki kærandi athygli á fréttatilkynningum frá árinu 2019 sem kveði á um að jórdanskir ríkisborgarar þurfi að framvísa skjölum sem sýni fram á að þeir séu ekki með palestínskt ríkisfang við endurnýjun á gulum vegabréfum sínum.

Kærandi krefst þess aðallega, með vísan til þess sem rakið hefur verið að framan, að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi, lagt verði til grundvallar að hann sé frá Palestínu og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Af fyrirliggjandi landaupplýsingum um Palestínu sé ljóst að kæranda stafi ógn af tilviljunarkenndu ofbeldi vegna langvarandi ófriðarástands í heimaríki og eigi þ.a.l. á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Þá myndi endursending kæranda til Palestínu brjóta meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. MSE 7. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Sér í lagi gerir kærandi athugasemd við að stofnunin hafi, með vísan til upplýsinga úr upplýsingakerfi lögreglu um vegabréfsáritanir (e. Visa Information System, VIS), lagt til grundvallar að hann sé jórdanskur ríkisborgari. Kærandi veki athygli á því að upplýsingar í umræddu kerfi miðist við stöðuna eins og hún hafi verið þegar hann hafi lagt fram umsókn um vegabréfsáritun til Íslands. Frá þeim tíma hafi hann, sem fyrr segir, fengið útgefið palestínskt vegabréf og hafi framburður hans um að hann hafi þá misst jórdanskan ríkisborgararétt sinn verið skýr og í samræmi við alþjóðlegar skýrslur.

Að öllu framangreindu virtu telur kærandi að ekki sé unnt að leggja til grundvallar að hann sé jórdanskur ríkisborgari án þess að annað og meira komi til. Þess í stað beri íslenskum stjórnvöldum að leggja til grundvallar að hann sé ríkisfangslaus Palestínumaður.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað palestínsku vegabréfi og palestínsku persónuskilríki. Vegabréfið, sem sé á nafni [...] og með gildistíma frá 22. júlí 2019 til 21. júlí 2024, hafi verið sent til Flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum til rannsóknar. Í skýrslu lögreglu, dags. 25. september 2019, hafi m.a. komið fram að ekki væri að sjá neitt í vegabréfinu sem gæfi til kynna að búið væri að eiga við það á einn eða annan hátt.

Þá kemur fram að rannsókn Útlendingastofnunar, þ.e. uppfletting í VIS-kerfi, hafi leitt í ljós að kærandi sé handhafi jórdansks vegabréfs, á nafni [...], með gildistíma frá 9. nóvember 2017 til 8. nóvember 2022. Að framangreindu virtu hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi sannað hver hann er með fullnægjandi hætti. Kærunefnd óskaði eftir frekari gögnum varðandi umsókn kæranda um vegabréfsáritun sem skráð var í VIS-kerfinu og telur ljóst að kærandi sé jórdanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Jórdaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Jordan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Combined eighteenth to twentieth periodic reports of the Hashemite Kingdom of Jordan under the International Convention on the Elimination of All Forms of Racial Discrimination. (CERD/C/JOR/18-20, 18. júlí 2017);
  • Concluding observations on the combined eighteenth to twentieth periodic reports of Jordan ( CERD/C/JOR/CO/18-20, 27. desember 2017);
  • Freedom in the world 2019 – Jordan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Lifosrapport: Palestinier í Mellanöstern - uppehållsrätt och dokument (Migrationsverket, 15. október 2019);
  • World Report 2018 – Jordan (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • The World Factbook – Jordan (Central Intelligence Agency, 20. apríl 2020);
  • Jordan: Løsning fra statsborgerskap (LandInfo, 24. apríl 2017);
  • Jordan: Palestinerne i Jordan – statsborgerskap og reisedokumenter (LandInfo 23. september 2010);
  • Jordan to ´revoke citizenship of Palestinian president Mahmoud abbas, senior PA officals´, (https://www.alaraby.co.uk/english/News/2018/4/26/Jordan-to-revoke-citizenship-of-Palestinian-president-Mahmoud-Abbas, 26. apríl 2018);
  • Report: Jordan to revoke citizenship of PA president Abbas (https://www.jpost.com/Middle-East/Report-Jordan-to-start-revoking-Palestinian-leaderss-citizenship-552691, sótt 30. maí 2018);
  • Stateless Again. Palestinian-Origin Jordanians Deprived of their Nationality (Human Rights Watch, 1. febrúar 2010);
  • Summary record of the 2593rd meeting Held at the Palais Wilson, Geneva, on 23 and 24 November 2017, (CERD/C/SR.2592og CERD/C/SR.2593, 29. nóvember 2017);
  • The World Factbook – Jordan (Central Intelligence Agency, 20. apríl 2020) og
  • World Report 2020 – Jordan. Events of 2019 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020).

Jórdanía er konungsríki með þingbundinni konungsstjórn með rúmlega 10 milljónir íbúa. Þá fer konungurinn, Abdullah II bin Hussein, með framkvæmdar- og löggjafarvald samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Þann 14. desember 1955 gerðist Jórdanía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1975. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1992 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1991. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991 auk þess sem ríkið undirritaði valkvæðar viðbótarbókanir við barnasamninginn um þátttöku barna í vopnuðum átökum og um sölu barna, barnavændi og barnaklám árin 2006 og 2007. Þá fullgilti ríkið samning um réttindi fatlaðs fólks árið 2008.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í kjölfar stríðsins í Palestínu árið 1948 hafi fjöldi Palestínumanna flúið yfir á Vesturbakkann, Gaza-svæðið og til nágrannaríkjanna Sýrlands, Líbanon og Jórdaníu. Flestir þessara flóttamanna og afkomendur þeirra búi enn í ríkjunum þar sem þeir hafi fyrst sótt sér skjól. Palestínskir flóttamenn í Jórdaníu hafi fengið jórdanskan ríkisborgararétt utan sumra sem hafi komið frá Gaza svæðinu árið 1967. Palestínumenn búsettir á Vesturbakkanum hafi síðan misst jórdanskan ríkisborgararétt sinn þegar jórdanska ríkið hafi afsalað sér yfirráðum á svæðinu árið 1988. Þrátt fyrir það noti sumir Palestínumenn á svæðinu enn jórdönsk vegabréf. Jórdönsk yfirvöld hafi á árunum 2004 til 2008 svipt fjölda fólks af palestínskum uppruna búsettum í ríkinu ríkisborgararétti sínum. Ríkisfangssviptingarnar hafi verið handahófskenndar en allir sem hafi verið sviptir virðist hafi verið flóttamenn sem eigi ættir að rekja til Vesturbakkans. Þeir sem hafi verið sviptir ríkisborgarétti hafi haldið vegabréfum sínum þar til þau hafi runnið út en hafi ekki átt kost á endurnýjun. Hins vegar geti þeir einstaklingar fengið grænt brúarkort, sem gegni hlutverki ferðaskilríkis, og jórdanskt vegabréf án svonefnds ríkisnúmers (e. national number). Samkvæmt skýrslu LandInfo frá árinu 2010 hafi fáeinir Palestínumenn sem komi upprunalega frá Vesturbakkanum þurft að þola sviptingu ríkisborgararéttar á síðustu árum fyrir útgáfu skýrslunnar. Í skýrslu sömu stofnunar frá árinu 2017 kemur fram að jórdönsk mannréttindasamtök hafi gagnrýnt sviptingarnar og sett hafi verið á fót nefnd í Jórdaníu í því skyni að endurskoða mál þeirra sem hafi verið gert að sæta sviptingu ríkisborgararéttar að ósekju. Hafi einhverjir einstaklingar fengið aftur ríkisborgararétt sinn í kjölfarið en þó ekki allir. Framkvæmdin virðist hafa verið lögð af og ekki sé vitað um nýleg dæmi slíkra sviptinga fyrir utan sviptingu ríkisborgarréttar nokkurra háttsettra palestínskra embættismanna. Rétturinn til ríkisborgararéttar erfist í gegnum föður en ekki móður sem leiði til þess að börn jórdanskra kvenna sem giftar séu erlendum ríkisborgurum fái ekki sjálfkrafa jórdanskan ríkisborgararétt.

Samkvæmt heimildum annast skrifstofa almannaöryggis (e. Public Security Directorate) almenna löggæslu í ríkinu. Þá deili skrifstofa almannaöryggis, leyniþjónustan (e. General Intelligence Directorate), öryggisstofnun ríkisins (e. Civil Defence Directorate), héraðslögreglan (e. The Gendarmerie) og herinn ábyrgð á innra öryggi ríkisins. Skrifstofa almannaöryggis, leyniþjónustan og héraðslögreglan heyri undir innanríkisráðuneytið en öryggisstofnun ríkisins undir konunginn. Samkvæmt innlendum og alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum rannsaki stjórnvöld sjaldan ásakanir um misferli eða spillingu innan lögreglunnar og í þeim tilvikum sem slíkar ásakanir séu rannsakaðar sé sakfellt í fáum málum og lítið sem ekkert gagnsæi varðandi rannsókn og refsingar í slíkum málum. Refsileysi sé útbreitt vandamál í ríkinu en íbúar landsins geti sent inn kvartanir vegna misferlis lögreglu eða spillingar til skrifstofu sem heyri undir skrifstofu almannaöryggis og annist mannréttinda- og gagnsæismál (e. Human Rights and Transparency Office) eða til saksóknara. Þá sé hægt að tilkynna misferli af hálfu héraðslögreglu beint til skrifstofu mannréttinda og gagnsæis. Yfirmaður í leyniþjónustunni taki á móti kvörtunum gegn embættinu og beini þeim áfram til starfsfólks embættisins til rannsóknar. Íbúar landsins geti einnig sent inn kvartanir varðandi brot af hálfu starfsfólks skrifstofu almannaöryggis, héraðslögreglu og leyniþjónustunnar til mannréttindaráðs ríkisins (e. National Center for Human Rights), frjálsra mannréttindasamtaka og ríkissaksóknara. Sérstök deild innan skrifstofu almannaöryggis sjái um að rannsaka ásakanir um spillingu innan lögreglu. Stofnunin rétti yfir starfsfólki sínu fyrir eigin dómstólum, dómurum og saksóknurum. Stjórnvöld hafi ráðið ríkissaksóknara til starfa hjá þessum dómstólum til að bregðast við athugasemdum mannréttindasamtaka. Starfsfólki skrifstofu almannaöryggis beri skylda til að fara á árlegt námskeið varðandi mannréttindi og einnig sé lögboðið að nýir embættismenn undirgangist slíka þjálfun. Árið 2017 hafi nokkur tilvik verið tilkynnt um ofbeitingu valds af hálfu löggæslunnar, refsileysi og tilvik þar sem ekki hafi náðst að verja mótmælendur gegn ofbeldi.

Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár ríkisins skuli dómarar vera sjálfstæðir og skuli ekki lúta öðru valdi en lögunum í störfum sínum. Þá kemur einnig fram að dómstólar skuli vera aðgengilegir öllum, óháð ríkisfangi eða uppruna, auk þess sem ýmis mannréttindi séu tryggð í stjórnarskrá. Samkvæmt skýrslu jórdanska ríkisins til Sameinuðu þjóðanna varðandi afnám allrar mismununar á grundvelli kynþáttar er slík mismunun refsiverð samkvæmt lögum ríkisins. Jórdanía sé aðili að fjölda alþjóðlegra mannréttindasamninga og sé vernd mannréttinda í forgangi í jórdanskri löggjöf og réttarkerfinu. Þá geti íbúar landsins farið með einkaréttarlegar deilur fyrir dómstóla með því að skila inn greinargerð til dómstóla og greiða 3% af umbeðinni upphæð. Sé dæmt stefnanda í hag verði stefndi að greiða þá upphæð. Ríkið hefur þó verið gagnrýnt af nefndum Sameinuðu þjóðanna fyrir að hafa ekki innleitt mannréttindasamninga á fullnægjandi hátt í landslög og tryggja þannig ekki fullnægjandi vernd gegn mismunun.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að fjórir hópar Palestínumanna búi í Jórdaníu og hafi margir þeirra fyrir mismunun. Palestínumenn sem hafi flust til Jórdaníu og Vesturbakkans þegar hann hafi verið undir stjórn Jórdaníu eftir stríðið árið 1948 hafi fengið fullgildan ríkisborgararétt auk þeirra sem hafi flutt til landsins eftir stríðið árið 1967 og hafi ekki haft dvalarrétt á Vesturbakkanum. Þeir sem hafi haft dvalarrétt á Vesturbakkanum eftir 1967 hafi ekki verið gjaldgengir fyrir fullum ríkisborgararétti en hafi getað fengið tímabundin ferðaskilríki án ríkisnúmers svo lengi sem þeir hefðu ekki einnig palestínsk ferðaskilríki. Framangreindir einstaklingar hafi aðgang að hluta þjónustu stjórnvalda en þurfi að greiða sömu gjöld og þeir sem hafi ekki ríkisborgararétt á sjúkrahúsum, menntastofnunum og hjá öðrum opinberum stofnunum. Einstaklingar af palestínskum uppruna eigi fáa málsvara á þingi, hjá stjórnvöldum og hernum auk þess sem fáir þeirra hljóti inngöngu í ríkisháskóla. Þá hafi þeir takmarkaðan aðgang að námsstyrkjum. Einstaklingar af palestínskum uppruna eigi þó marga málsvara í einkageiranum. Af gögnum má ráða að stjórnvöld í heimaríki kæranda hafi gert umbætur á mannréttindavernd í ríkinu, þ. á m. vernd þeirra sem séu af öðrum uppruna en jórdönskum. Ríkið hafi m.a. sett sér, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, mannréttindaáætlun fyrir tímabilið 2016 til 2025 og hafi um þriðjungi þeirrar áætlunar nú þegar verið framfylgt. Hafi þessar umbætur m.a. falist í að hegningarlög, lög um saka- og einkamál hafi verið uppfærð með það að marki að tryggja mannréttindi allra óháð uppruna. Þá hafi verið tekið til aðgerða til þess að sporna við kynþáttarhatri innan stofnana sem hafi m.a. falist í námskeiðum á vegum dómsmálaráðuneytisins og jórdanskra dómstóla fyrir lögregluþjóna og starfsmenn dómstólanna. Viðfangsefni námskeiðanna hafi m.a. verið fræðsla um hegningarlög, mannréttindi, valdeflingu kvenna og hlutverk dómara í því að tryggja einstaklingum sanngjarna og réttláta málsmeðferð. Þá hafi ríkið tekið til ráðstafana til að auka hlut einstaklinga af palestínskum uppruna í stjórnmálum með góðum árangri í þéttbýlum en erfiðlega hafi gengið að auka hlut þeirra í stjórnum á dreifbýlli svæðum. Þrátt fyrir að enn sé aðgangur einstaklinga af palestínskum uppruna takmarkaður að ákveðnum stofnunum verði ekki ráðið að þeir verði fyrir áreiti eða ofsóknum af hálfu lögreglu eða annarra stjórnvalda í ríkinu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi krefst þess í greinargerð að lagt verði til grundvallar að hann sé frá Palestínu og að honum verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, vegna aðstæðna þar í landi. Kærandi hafi fengið útgefið palestínskt vegabréf þann 22. júlí 2019 og hafi hann þá misst jórdanskan ríkisborgararétt sinn.

Útlendingastofnun sá ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi væri af palestínskum uppruna og að hann ætti ættingja á Vesturbakkanum. Á hinn bóginn var það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda af búsetu á Vesturbakkanum væri ótrúverðug. Var það einkum í ljósi tengsla kæranda við Jórdaníu og þess misræmis sem stofnunin taldi hafa komið fram í frásögn kæranda um staðhætti á Vesturbakkanum og dvöl hans þar. Þá var það mat stofnunarinnar að það væri ekkert því til fyrirstöðu að Palestínumenn, sem búsettir séu í Jórdaníu og fái útgefin palestínsk vegabréf og persónuskilríki, séu einnig ríkisborgarar Jórdaníu. Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til gagna málsins, skorts á gögnum til stuðnings frásagnar kæranda um afturköllun jórdansks ríkisborgararétts hans, og misræmis í frásögn hans þar um, lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi væri jórdanskur ríkisborgari.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd hefur hann framvísað vélrituðu bréfi um árangurslausar tilraunir sínar til að fá það staðfest hjá jórdönskum yfirvöldum að ríkisborgararéttur hans hafi verið afturkallaður. Þá framvísaði hann óundirrituðu og ódagsettu bréfi á arabísku, og enska þýðingu þess, sem hann kveður að ótilgreindur jórdanskur lögmaður hafi vélritað fyrir hann. Í bréfinu komi m.a. fram af hverju Palestínumönnum sé, lögum samkvæmt, óheimilt að vera með tvöfalt ríkisfang í Jórdaníu. Að mati kærunefndar eru ofangreind gögn ekki til þess fallin að leggja grunn að frásögn kæranda.

Þá framvísaði kærandi skjölum sem hann kveður að séu, annars vegar, staðfesting palestínskra yfirvalda á ríkisfangi hans í Palestínu, dags. 10. febrúar 2020, og hins vegar, yfirlýsing jórdansks lögmanns á arabísku, dags. 11. febrúar 2020, og ensk þýðing hennar, um að kærandi sé ekki handhafi jórdansks vegabréfs eða skráður í þjóðskrá Jórdaníu. Óskaði kærunefnd eftir því að Flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á gögnunum, en skýrsla lögreglu barst nefndinni 27. apríl sl. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur m.a. fram að ofangreint skjal um palestínskt ríkisfang kæranda sé ekki öryggisskjal og beri enga öryggisþætti. Uppbygging skjalsins sé í grunninn ótraust en stimplar trúverðugir. Þá komi fram að erfitt sé að taka mark á ofangreindri yfirlýsingu jórdansks lögmanns. Skjölin séu ekki vottuð af opinberum aðila. Þá séu þau ótraust og einföld að allri gerð. Til að mynda sé enskur texti afar ótraustvekjandi og heimfærsla til lagaákvæða ófullnægjandi. Þá sé ósamræmi í rithætti og við undirskrift.

Kæranda var gefinn kostur á að koma með athugasemdir varðandi niðurstöðu lögreglunnar á Suðurnesjum. Í athugasemdum kæranda, dags. 29. apríl og 5. maí 2020, kveður hann að öll skjöl sem hann hafi lagt fram séu áreiðanleg og sönn. Varðandi staðfestingu á palestínsku þjóðerni bendi kærandi á að niðurstaða Flugstöðvardeildar um að stimplar á því skjali séu trúverðugir styðji mál hans. Hann geti ekki tjáð sig um af hverju uppsetning bréfsins sé ekki vönduð en hann viti að það hafi verið útbúið og stimplað af þar til bærum aðilum hjá innanríkisráðuneyti Palestínu. Varðandi bréfið frá jórdanska lögmanninum þá telji kærandi, í ljósi þess að ekki sé um opinbert gagn að ræða, eðlilegt að það sé ekki vottað af yfirvöldum. Kærunefnd telur ofangreindar skýringar kæranda ekki vera til þess fallnar að niðurstaða lögreglunnar á Suðurnesjum verði dregin í efa.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um vegabréfsáritun til Íslands 2018 hjá norska sendiráðinu í Amman í Jórdaníu. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum og gögnum vegna umsóknar kæranda um vegabréfsáritun. Í svari sendiráðsins, dags. 6. maí 2020, kom fram að kærandi væri jórdanskur ríkisborgari. Hann hefði framvísað jórdönsku vegabréfi sínu þegar hann hafi sótt um vegabréfsáritun 9. október 2018 en þeirri umsókn hafi verið synjað 14. október s.á. Kærandi hafi kært þá ákvörðun 29. október s.á. og lagt fram frekari gögn. Ákvörðuninni hafi verið snúið við þann 23. desember s.á. og hafi kæranda þá verið veitt vegabréfsáritun til Íslands.

Af þeim gögnum sem nefndinni barst frá sendiráðinu vegna ofangreinds má sjá að kærandi kveðst vera jórdanskur ríkisborgari. Þá kveðst hann hafa verið búsettur í Amman ásamt fjölskyldu sinni. Því til stuðnings lagði kærandi fram vottorð um að hann eigi íbúð í borginni. Þá hafi hann m.a. lagt fram jórdanskt ökuskírteini sitt, vottorð um eignarhald á bifreið í Jórdaníu, meðmælabréf vinnuveitenda í Amman ([...]), upplýsingar af jórdönskum bankareikningi sínum og flugmiða, dags. 30. desember 2018, frá Amman til Keflavíkur, með millilendingu í París. Þá má sjá að kærandi kveðst hafa safnað fyrir ferðinni til Íslands í rúmlega ár. Jafnframt hafi hann fengið frí hjá vinnuveitenda sínum en það hafi reynst honum erfitt þar sem hann fari fyrir stærsta söluteymi þeirra.

Stangast upplýsingar í gögnunum á við framburð kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd, en þar kvaðst kærandi hafa búið í Palestínu frá árinu 1993. Í viðtölum hjá stofnuninni greindi kærandi einnig frá því að fjölskylda hans hafi þá flutt aftur til landsins eftir sex ára búsetu í Jórdaníu. Kærandi hafi, einn systkina sinna, fæðst í Jórdaníu og hafi hann því öðlast jórdanskan ríkisborgararétt. Þá kvað kærandi að hann hafi ekki getað safnað fyrir ferðinni til Íslands þar sem að flótti hans frá Palestínu hafi borið brátt að. Kærandi hafi farið til Jórdaníu þar sem hann hafi fengið útgefið jórdanskt vegabréf og hafið leit að ferðaskrifstofu sem gæti útvegað honum vegabréfsáritun til Íslands.

Þann 6. maí 2020 var kæranda gefinn kostur á að koma með athugasemdir um efni ofangreindra gagna. Þá skoraði kærunefnd á kæranda að leggja fram gögn til stuðnings frásögn sinni um að hann hafi verið sviptur jórdönskum ríkisborgararétti sínum. Í athugasemdum kæranda, dags. 13. maí 2020, kom fram að hann gæti ekki framvísað slíkum gögnum. Hann hafi gert tilraunir til þess að afla slíkra gagna í um eitt og hálft ár en án árangurs. Þá kom fram í svari kæranda að móðir hans hafi ferðast til Jórdaníu fyrir fæðingu allra barna sinna til að fá aðgang að betra heilbrigðiskerfi. Kærandi hafi búið í Palestínu allt sitt líf og ekki heimsótt önnur lönd þar til hann hafi neyðst að flýja vegna líflátshótana landtökufólks. Hafi hann þá leitað til ferðaskrifstofu í Jericho borg á Vesturbakkanum sem hafi undirbúið og lagt fram umsókn um vegabréfsáritun fyrir kæranda hjá norska sendiráðinu í Amman. Til þess að umsóknin yrði samþykkt hafi ferðaskrifstofan útbúið fölsuð gögn um dvöl kæranda í Jórdaníu, þ. á m. vottorð frá [...] um að kærandi hafi starfað þar, en kærandi hafi í raun starfað í kjötbúð fjölskyldu sinnar í Palestínu.

Kærunefnd fellst ekki á framangreinda skýringu kæranda. Þrátt fyrir að lagt yrði til grundvallar að ótilgreind ferðaskrifstofa í Palestínu hafi fyllt út umsókn hans um vegabréfsáritun þá ber kærandi samt sem áður ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar voru á umsókninni séu réttar, en með undirritun sinni á umsókninni lýsti kærandi því yfir að upplýsingar sem hann hafi gefið stjórnvöldum væru réttar. Það liggur því fyrir að kærandi hafi, við umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi, gefið íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um sig sem stangast á við upplýsingar sem hann hefur áður gefið stjórnvöldum. Megi líta svo á að um sé að ræða nýja frásögn frá kæranda sem hann hefur auk þess ekki getað stutt með haldbærum gögnum. Það er mat kærunefndar að fyrri villandi upplýsingagjöf kæranda til stjórnvalda dragi verulega úr trúverðugleika frásagnar hans og að gera verði ríkari kröfur til sönnunar á þeirri frásögn sem hann ber nú fyrir sig.

Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda hefur tekið verulegum breytingum eftir því sem liðið hefur á meðferð máls hans fyrir stjórnvöldum. Framburður kæranda stangast á við gögn vegna umsóknar hans um vegabréfsáritun til landsins, en t.a.m. er jórdanskt vegabréf kæranda gefið út ári áður en hann kveðst hafa sótt um það. Þá stangast framburður kæranda á við gögn af samfélagsmiðlasíðum fjölskyldumeðlima hans og skýringar hans til nefndarinnar, þ. á m. um búsetu í Jórdaníu, umsóknarstað umræddrar vegabréfsáritunar og fæðingarland systkina sinna. Kærunefnd telur þetta, heildstætt metið, benda afdráttarlaust til þess að kærandi hafi reynt að villa um fyrir stjórnvöldum í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrlausn umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi.

Þá hefur kærandi engin gögn fært fram sem styðja við frásögn hans af afturköllun jórdansks ríkisborgararéttar hans. Gögn benda ekki til þess að kærandi eigi á hættu að verða fyrir sviptingu ríkisborgararéttar en samkvæmt þeim heimildum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa slíkar sviptingar síðasta áratuginn ekki beinst gegn almennum borgurum ríkisins, líkt og kæranda, heldur einna helst háttsettum palestínskum embættismönnum sem hlotið hafa jórdanskan ríkisborgararétt. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að kærandi tilheyri þeim hópi. Með vísan til framangreinds, þ.m.t. villandi upplýsingagjafar til stjórnvalda og skorts á trúverðugum gögnum, er það mat kærunefndar að frásögn kæranda um að jórdanskur ríkisborgararéttur hans hafi verið afturkallaður sé ótrúverðug með öllu og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Kærunefnd byggir því á því að kærandi sé jórdanskur ríkisborgari af palestínskum uppuna og eigi ættir að rekja til Vesturbakkans.

Samkvæmt þeim gögnum sem og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar eiga einstaklingar af palestínskum uppruna hættu á mismunun í Jórdaníu. Þessir einstaklingar hafi takmarkað aðgengi að ákveðinni þjónustu í ríkinu en standi hún þó til boða gegn endurgjaldi. Það er mat kærunefndur að ekki hafi verið sýnt fram að uppruni kæranda leiði til þess að hann eigi takmarkaðri aðgang að lögregluvernd. Þá má ráða af gögnum að vilji sé hjá stjórnvöldum í heimaríki kæranda til að sporna gegn mismunun í garð minnihlutahópa og auka mannréttindavernd í ríkinu. Kærandi hefur ekki byggt á að hann hafi orðið fyrir áreiti af hálfu jórdanskra yfirvalda og gögn málsins benda ekki til þess að hann eigi slíkt á hættu, þó svo að hann kunni að eiga á hættu mismunum vegna palestínsks uppruna síns. Kærunefnd telur þó ljóst, með hliðsjón af skýrslum og öðrum gögnum málsins, að sú mismunum sem kærandi kann að verða fyrir á grundvelli uppruna síns nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. tekur til.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.

Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi er ungur karlmaður við góða heilsu. Þegar framangreindar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 2. janúar 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendi á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðarákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvalið hefur hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                 Ívar Örn Ívarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta