Ævar Þór Benediktsson fyrsti sendiherra UNICEF á Íslandi
Ævar Þór Benediktsson hefur verið skipaður sendiherra UNICEF á Íslandi, fyrstur Íslendinga. Hlutverk sendiherra er að styðja við baráttu UNICEF fyrir réttindum barna um allan heim. „Þetta er mikill heiður og ég mun gera mitt allra besta til að standa undir nafni sem sendiherra UNICEF á Íslandi," sagði Ævar, sem tók formlega við hlutverkinu við athöfn á skrifstofu UNICEF í gær, á alþjóðadegi menntunar. Ævar skrifaði þar undir samning til tveggja ára og siðareglur samtakanna.
„Það er mikil ánægja að staðfesta Ævar Þór Benediktsson sem fyrsta sendiherra UNICEF á Íslandi. Hann er einstaklega vel að nafnbótinni kominn enda hefur hann helgað feril sinn börnum, með öllum sínum fjölbreyttu hæfileikum. Við höfum notið farsæls samstarfs við hann um langa hríð og því byggjum við þetta nýja skref á góðum grunni. Ævar Þór er góð fyrirmynd sem nær jafnt til barna og fullorðinna og við hlökkum til þess að vinna markvisst með honum að réttindum barna. Það verður spennandi að sjá hvað við munum gera saman,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Ævar í hópi heimsþekktra sendiherra
Sendiherrar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eru í hópi vel þekktra og virtra einstaklinga úr heimi listsköpunar, vísinda, bókmennta, fjölmiðla og íþrótta svo fá dæmi séu nefnd. Sendiherrar UNICEF eru fyrst og síðast valdir vegna þeirrar virðingar sem þau njóta og þeirrar mannúðar sem þau sýna í lífi og starfi. Bætist Ævar þar í hóp sendiherra landsnefnda UNICEF um allan heim, þar á meðal söngkonuna P!nk, uppistandarann Eddie Izzard, leikarann Evan McGregor, leikkonurnar Trine Dyrhold, Selena Gomez og Lucy Liu, og knattspyrnumanninn Sergio Ramos. Sendiherrar velja sér áherslusvið til tveggja ára, og valdi Ævar að leggja áherslu á réttindi barna til menntunar og menningar. Það var því vel við hæfi að Ævar hljóti nafnbótina á alþjóðadegi menntunar.
„Menntun og menning skipta miklu máli og eru tvær af grunnstoðum þess sem móta okkur sem manneskjur. Samspil þessara tveggja þátta er eitthvað sem hefur litað störf mín í gegnum árin og þess vegna hlakka ég til að finna nýjar og spennandi leiðir til að nálgast þær og kynna fyrir komandi kynslóðum,“ segir Ævar.
Menntun fyrir öll börn forgangsatriði
Réttindi barna til menntunar hefur verið eitt af forgangsmálum UNICEF síðan samtökin voru stofnuð. Öll börn eiga rétt á góðri grunnmenntun og UNICEF trúir því að menntun sé ekki forréttindi heldur skýr réttindi allra barna. Á síðustu áratugum hefur mikill árangur náðst í að tryggja aðgengi barna að menntun en vegna áhrifa kórónaveirunnar á skólastarf um allan heim er þessi árangur í mikilli hættu ef ekkert er að gert.
Þegar skólar þurftu að loka í vor vegna útbreiðslu COVID-19 hafði það áhrif á menntun hátt í 90% allra skólabarna í heiminum, á einn eða annan hátt. Kórónaveiran hefur aukið enn frekar ójöfnuð í tækifærum barna til þess að stunda nám. Að minnsta kosti þriðjungur skólabarna í heiminum hafa ekki þau tól og tæki sem þarf til að geta stundað fjarnám (í gegnum sjónvarp, útvarp, síma eða tölvu). Það dylst engum hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn og ungmenni og því lengur sem skólar eru lokaðir og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni upp úr námi.
UNICEF hefur brugðist við heimsfaraldrinum á ýmsan hátt, meðal annars komið á fjarkennslu í gegnum útvarp í Rúanda, sett upp viðunandi hreinlætisaðstöðu og dreift spritti og grímum í skólum í Jemen til að tryggja sóttvarnir, útdeilt námsgögnum í flóttamannabúðum í Jórdaníu og unnið með foreldrum skólabarna í Úkraínu til að þau geti stutt menntun barna sinna á þessum tímum, svo nokkuð sé nefnt. Verkefnið er risavaxið, enda vinnur UNICEF í 190 löndum. UNICEF hefur einnig sent ákall til ríkisstjórna heimsins um að brúa stafræna bilið og efla leiðir til fjarkennslu og biðlað til ríkisstjórna að forgangsraða opnun skóla þegar hægt er. Að lokum leggur UNICEF áherslu á að kennarar um allan heim verði settir í forgang þegar byrjað er að bólusetja gegn kórónaveirunni.