Hoppa yfir valmynd
9. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra - leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána

LMB lögmenn
b/t Ástu Kristjánsdóttur, hdl.
Bárugata 4
101 Reykjavík

Reykjavík 9. júní 2016
Tilv.: FJR16020018/16.2.1

Efni: Stjórnsýslukæra í máli [A] og [B].

Vísað er til stjórnsýslukæru Ástu Kristjánsdóttur, f.h. [A]og [B], dags. 3. febrúar sl., þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun ríkisskattstjóra frá 22. janúar sl., um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Málavextir og málsástæður

Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 22. janúar 2016
Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að einstaklingum hafi verið heimilað skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, að sækja um leiðréttingu á lánum sem lögin tóku til. Umsóknartímabil vegna leiðréttingar á verðtryggðum fasteignaveðlánum hafi verið 15. maí 2014 til 1. september 2014 og bar einstaklingum að beina umsókn sinni til ríkisskattstjóra á rafrænu formi í gegnum þjónustusíðuna leidretting.is. Fram kemur að leiðrétting lána hafi byggst á því að einstaklingar sem eftir henni óskuðu áttu að eiga frumkvæði að því að koma þeirri ósk á framfæri við ríkisskattstjóra með þeim hætti sem umrædd lög og útfærsla þeirra kvað á um og innan lögfestra tímamarka.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra er umsóknarferilinn rakinn. Þar greinir að innskráning á þjónustusíðuna leidretting.is hafi hvort tveggja verið möguleg með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænum skilríkjum. Í ferlinu hafi einstaklingar einnig veitt upplýsingar um tölvupóstfang sitt. Á forsíðu þjónustusíðunnar hafi einstaklingar getað sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána, ráðstöfun á séreignarsparnaði eða bæði úrræðin. Fram kemur að við umsókn um leiðréttingu hafi einstaklingar átt kost á að yfirfara þær upplýsingar sem lagðar yrðu til grundvallar við afgreiðslu umsókna þeirra. Þá greinir að til þess að umsókn yrði gild og skil á henni myndi eiga sér stað þurfti annars vegar að staðfesta að viðkomandi lánveitendum væri heimilað að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra og hins vegar að senda umsókn.

Fram kemur að öll gögn varðandi umsóknir um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána sem og annað á vefnum leidretting.is hafi verið sótt til umsóknarkerfis leiðréttingarinnar með vefþjónustum og að allar færslu inni á vefnum hafi verið skráðar af umsjónarkerfinu. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingar framkvæmdu á vefnum verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins af vefnum sjálfum ásamt því að hafa verið skráðar í umsóknarkefið sem lagði til upplýsingarnar. Því hefði verið til staðar tvöföld atvikaskráning til viðbótar við vistun á viðeigandi gögnum í gagnagrunni. Fram kemur að allar tilraunir einstaklinga til auðkenningar/innskráningar hafi verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins hvort sem þær báru árangur eða ekki. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingur framkvæmdi á vefnum eftir að hann hafði auðkennt sig verið skráðar með sama hætti.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að við skoðun embættisins í umsóknarkerfi leiðréttingarinnar og atvikaskráningarkerfi þess hafi kærendur skráð sig inn á þjónustusíðuna leidretting.is þann 25. júní 2014 en ekki lokið við umsóknarferlið eins og lýst er hér að ofan og ekki sent umsókn um leiðréttingu til ríkisskattstjóra. Því hafi kærendur ekki sótt um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2014, og að ríkisskattstjóra hafi skort lagaheimild til að taka við umsóknum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána að útrunnum umsóknarfresti.

Stjórnsýslukæra [A] og [B], dags. 3. febrúar 2016
Í kærunni er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra frá 22. janúar sl. verði hnekkt og að fallist verði á umsókn kærenda um leiðréttingu á höfuðstól fasteignaveðláns. Þar greinir að kærendur hafi sótt um leiðréttingu höfuðstóls vegna láns þann 25. júní 2014. Þá kemur fram að þau hafi þann sama dag sótt um nýtingu á séreignarlífeyrissparnaði og að sú umsókn hafi verið móttekin í tölvukerfi ríkisskattstjóra. Við eftirgrennslan kærenda á niðurstöðu um leiðréttingu í nóvember 2014 hafi þau hins vegar komist að því að þau höfðu ekki fengið leiðréttingu á fasteignaveðláni sínu. Fengist hafi þau svör frá ríkisskattstjóra að þar sem þau hafi ekki sótt um væri ekki um neina leiðréttingu á höfuðstól á ræða. Fram kemur að eftir nánari skoðun liggi fyrir að inni á þjónustusíðunni skattur.is, undir flipanum „samskipti“ sé ekki að finna kvittun fyrir umsókn um leiðréttingu á höfuðstól fasteignaveðláns kærenda heldur aðeins kvittun fyrir umsókn um nýtingu á séreignarlífeyrissparnaði.

Í kærunni er því haldið fram að eitthvað hafi farið úrskeiðis við umsóknarferli kærenda. Fram kemur að í samtali við ríkisskattstjóra hafi komið fram að kærendur hafi farið inn á síðuna þar sem sótt var um leiðréttingu höfuðstóls en að ekki væri að sjá að umsókn þeirra hefði verið staðfest. Þá greinir að framkvæmd kærenda sé staðfesting á því að þau hafi ætlað að sækja um úrræðið. Erfitt sé að fullyrða hver skýringin sé á því af hverju umsókn þeirra um leiðréttingu hafi ekki verið skráð en líklega hafi þau talið að staðfesting um ráðstöfun séreignarsparnaðar hafi jafnframt tekið til leiðréttingarinnar.

Fram kemur að kæran sé sett fram af þeirri ástæðu að kærendur töldu sig hafa sótt um leiðréttingu þar sem þau hefðu ekki fengið skilaboð um að ekki hefði tekist að vista umsóknina. Jafnframt að málið sé reist á þeirri forsendu að leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem lögfest er í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið sinnt. Að með því að hafa gert kröfu um rafrænt umsóknarferli verði að líta svo á að stjórnvöld hafi tekið á sig ríkar leiðbeiningarskyldur ekki síst í ljósi þess að almenningur sé misvel tæknivæddur. Það sé því mat kærenda að embætti ríkisskattstjóra hafi ekki tekist að uppfylla lögbundna leiðbeiningarskyldu sína þar sem láðst hafi að benda þeim á að ekki væri búið að ljúka ferlinum með umsókn.

Þá greinir að hvergi í lögum nr. 35/2014 sé kveðið á um að óheimilt sé að leiðrétta mistök eins og urðu í máli kærenda. Fram kemur að ríkisskattstjóra hafi ekki verið heimilt að synja um afgreiðslu á þeirri forsendu að kærendur sóttu ekki um innan lögbundins frests því það liggi fyrir að þau töldu sig hafa sótt um en enginn hafi leiðbent þeim þegar þau „ýttu á rangan takka“. Það sé því ljóst að það sé ekki réttlát niðurstaða að kærendur beri hallann „af þeim tæknilegu annmörkum sem voru á Leiðréttingunni“ og að krafan um rafræn skil leysi stjórnvöld ekki undan leiðbeiningarskyldu sinni.

Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 27. apríl 2016

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. apríl sl., var óskað eftir umsögn ríkisskattsjóra um framkomna stjórnsýslukæru. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 27. apríl sl.

Í umsögninni kemur fram að mikill fjöldi einstaklinga hafi heimsótt umsóknarsvæðið www.leidretting.is á umsóknartímabilinu frá 15. maí til 1. september 2014. Af þeim fjölda sem skráði sig inn hafi allmargir ekki skilað inn umsókn um höfuðstólsleiðréttingu eða umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar enda fjöldi einstaklinga sem hafi skráð sig inn á síðuna aðeins í þeim tilgangi að kynna sér umsóknarsvæðið. Því er áréttað að með innskráningu megi ganga út frá því að viðkomandi hafi einungis verið að kanna forsendur þess að senda inn umsókn um leiðréttingu eða ráðstöfun séreignarsparnaðar. Hefðu verið áform um að sækja um hefði þurft frekari aðgerðir af hálfu umsækjenda.

Í tengslum við meinta vanrækslu á leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er bent á að umrædd grein kveði á um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Fram kemur að kærendur hafi ekki sett sig í samband við starfsmenn ríkisskattstjóra með beiðni um aðstoð við umsókn um leiðréttingu eða til að ganga úr skugga um að umsókn hafi skilað sér. Þá greinir að ríkisskattstjóri líti ekki svo á að í 7. gr . stjórnsýslulaga felist skylda embættisins til að fylgjast sérstaklega með hverjum og einum af þeim mikla fjölda fólks sem heimsótti umsóknarsvæðið en skilaði ekki inn umsókn, í þeim tilgangi að fá upplýsingar um hvort ætlun viðkomandi hafi verið að senda inn umsókn um leiðréttingu. Ríkisskattstjóri hafi fullan skilning á ríkri leiðbeiningarskyldu sinni og þá sérstaklega með tilliti til þess að umsóknarferlið hafi verið með öllu rafrænt. Því hafi starfsmenn embættisins leitast við að aðstoða umsækjendur sem eftir því óskuðu og hafi í mörgum tilvikum gengið lengra en ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga kveður á um. Fram kemur að umsækjendur hafi haft jafnan rétt til aðgangs að upplýsingum og aðstoð frá starfsfólki embættisins í umsóknarferlinu.

Þá greinir að leiðrétting lána hafi skv. lögum nr. 35/2014 byggst á því að þeir sem óskuðu eftir leiðréttingu skyldu sjálfir hafa frumkvæði að því að koma þeirri ósk á framfæri við ríkisskattstjóra með þeim hætti og aðferðum sem fyrrnefnd lög og úrfærsla þeirra kváðu á um og innan lögfestra tímamarka. Bent er á að í 4. mgr. 4. gr. laganna sé ákvæði þess efnis að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann heimili viðkomandi lánveitanda að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra um þau fasteignaveðlán sem leiðréttingin náði til. Þá hafi staðfesting umsækjanda á heimild ríkisskattstjóra til að nýta og afla nauðsynlegra upplýsinga, og eftir atvikum miðla þeim til lánveitanda, verið meginforsenda þess að umsækjandi gæti lokið við umsókn og embættið tekið hana til afgreiðslu. Fram kemur að umrædd heimild kærenda hafi aldrei legið fyrir hjá ríkisskattstjóra og af þeirri ástæðu hafi ekki verið lagalegur grundvöllur til að taka lán kærenda til meðferðar. Við skoðun á skráningum í umsjónarkerfi leiðréttingarinnar og á atvikaskráningarkerfi ríkisskattstjóra komi í ljós að innskráning hafi verið framkvæmd á þjónustusíðu kærenda á leiðrétting.is þann 25. júní 2014 en ekki hafi verið lokið við umsóknarferlið á tilskilinn hátt með því að umsækjandi heimilaði umræddra gagnamiðlun og sendi umsóknina.

Umsögn kærenda frá 12. maí 2016.
Með tölvupósti, dags. 12. maí sl., var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um umsögn ríkisskattsjóra. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með tölvupósti hinn 19. maí sl.

Þar greinir að ekki sé ágreiningur í þessu máli um að þurft hafi frekari aðgerðir af hálfu umsækjenda til að umsókn þeirra hefði tekist. Fram kemur að ef kærendum hefði tekist að „fóta sig á umsóknarsvæðinu“ hefði stjórnsýslukæran ekki komið fram. Þá telja kærendur að afgreiðsla ríkisskattstjóra á máli þeirra hafi ekki hlotið vandaða málsmeðferð í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Fram kemur að tryggja hefði þurft að einstaklingar sem áttu rétt á leiðréttingu væru öruggir um að umsóknir þeirra hefðu komist til skila.

Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort ríkisskattstjóra hafi verið heimilt lögum samkvæmt að taka við umsókn kærenda um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána eftir að lögbundið umsóknartímabil var liðið. Jafnframt er deilt um hvort að skort hafi á leiðbeiningarskyldu embættisins til kærenda þar sem sýnt hafi verið fram á að þau hafi farið inn á vefsvæði leiðréttingarinnar en ekki skilað inn umsókn um leiðréttingu.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að við skoðun embættisins í umsóknarkerfi leiðréttingarinnar og atvikaskráningarkerfi þess hafi kærendur skráð sig inn á þjónustusíðuna leidretting.is þann 25. júní 2014 en ekki lokið við umsóknarferlið eins og lýst hefur verið að framan og því hafi umsókn um leiðréttingu til ríkisskattstjóra ekki borist embættinu. Kærendur hafi því ekki sótt um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2014, og að ríkisskattstjóra hafi skort lagaheimild til að taka við umsóknum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána að útrunnum umsóknarfresti.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 35/2014 var umsóknartímabil fyrir leiðréttingu verðtryggða fasteignaveðlána frá 15. maí 2014 til 1. september 2014. Í 2 mgr. er tilgreint hverjum er heimilt að sækja um leiðréttingu verðtryggra fasteignaveðlána og í 3. mgr. 4. gr. er tilgreint að umsókn skuli beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn. Þá skuli umsækjandi staðfesta að hann heimili viðkomandi lánveitanda að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra um viðkomandi fasteignaveðlán. Í 5. mgr. 4. gr. er tilgreint að ef umsækjandi veitir ekki þær upplýsingar eða leggur ekki fram þau gögn sem óskað er eftir í rafrænu umsóknarferli skuli hafna umsókn.

Með lögunum var ríkisskattstjóra falið að annast móttöku umsókna um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og afgreiðslu þeirra. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána var gert ráð fyrir að leiðrétting yrði háð frumkvæði einstaklinganna sjálfra. Líkt og fram hefur komið fóru kærendur inn á vef ríkisskattsjóra þann 25. júní 2014 og opnuðu umsókn um leiðréttingu. Hins vegar luku kærendur ekki við umsóknina sem leiddi til þess að ríkisskattstjóri móttók ekki umsókn um leiðréttingu. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra var kerfið þannig úr garði gert að villumelding kom á skjá umsækjenda eftir að ýtt var á hnappinn „Senda umsókn“, létu þeir hjá líða að merkja við reit þess efnis að miðlun nauðsynlegra upplýsinga væri heimiluð. Þegar lokið var að við að senda umsókn fengu umsækjendur senda tilkynningu þess efnis að umsókn um leiðréttingu hefði verið móttekin sem jafnframt var hægt að nálgast undir flipanum „Samskipti“ á vefsvæði umsækjenda á leidretting.is.

Líkt og áður greinir var frumkvæði að umsókn um leiðréttingu á ábyrgð og forræði einstaklinganna sjálfra. Hin lögbundnu skilyrði sem tilgreind eru m.a. í 4. gr. laga nr. 35/2014 eru ófrávíkjanleg og einstaklingar sem ekki sóttu sannanlega um leiðréttingu á vef ríkisskattstjóra innan þess umsóknartímabils sem lögin kveða á um teljast ekki eiga rétt á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá er ekki fallist á þau rök að skort hafi á leiðbeiningaskyldu ríkisskattstjóra, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umsóknarferlið varðandi ósk um leiðréttingu fasteignaveðlána var einfalt í sniðum og þurftu einstaklingar einungis að heimila miðlun nauðsynlegra upplýsinga og gagna til ríkisskattstjóra og senda umsóknina. Þá höfðu einstaklingar jafnan aðgang að starfsmönnum embættisins til aðstoðar, hvort sem var símleiðis eða með að senda rafrænar fyrirspurnir á sérstakt netfang hjá ríkisskattstjóra, væri eftir því leitað. Með vísan til framangreinds er það því mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra.


Úrskurðarorð

Ákvörðun ríkisskattstjóra er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra









Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta