Samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga 2026-2030
Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir tímabilið 2026-2030 var undirritað í dag af fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið samkomulagsins, sem byggist á lögum um opinber fjármál, er að ríki og sveitarfélög stuðli að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Það er mikilvæg forsenda efnahagslegs stöðugleika að umsvif sveitarfélaga, rétt eins og ríkisins, þróist jafnt og ekki umfram það svigrúm sem er til vaxtar opinberra útgjalda til lengri tíma litið. Þá eru aðilar samkomulagsins sammála um að vinna að endurskoðun fjármálareglna sveitarfélaga þannig að þau þjóni betur framangreindum markmiðum.
Til að ná hagstjórnarlegum markmiðum fjármálastefnu eru aðilar sammála um að draga jafnt og þétt úr hallarekstri ríkis og sveitarfélaga á tímabili áætlunarinnar og stöðva hækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þannig má tryggja sjálfbærni í rekstri og auka viðnámsþrótt opinberra fjármála þannig að ríki og sveitarfélög séu í stakk búin að bregðast við áföllum í framtíðinni.
Samkvæmt uppgjöri Hagstofu Íslands var um 39 ma.kr. halli á afkomu sveitarfélaga árið 2023 sem er um 15 ma.kr. betri afkoma frá fyrra ári. Forsendur áætlunarinnar gera ráð fyrir áframhaldandi bata á tímabilinu og að jöfnuður náist á síðustu árum tímabilsins.
Aðilar samkomulagsins hafa þann sameiginlega skilning að samkomulagið bindi ekki hendur einstakra sveitarfélaga. Á hinn bóginn, svo samkomulagið hafi þýðingu á sveitarstjórnarstiginu og hafi áhrif á þróun opinberra fjármála í hagstjórnarlegu tilliti, er litið svo á að staðfesting þess af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga feli í sér kynningu og tilmæli til sveitarfélaga að virða og haga fjármálum sínum næstu ár í samræmi við forsendur og markmið samkomulagsins.