Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2000 Heilbrigðisráðuneytið

1. - 7. apríl


Fréttapistill vikunnar
1. - 7. apríl


Staða foreldra langveikra barna verður bætt, samkvæmt frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mælti fyrir á Alþingi í vikunni. Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði sú breyting á 36. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun ríkisins verði heimilað að greiða óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris vegna sjúkrahúsinnlagnar barns fjarri heimili sem er yngra en 18 ára. Ef um er að ræða erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns að 18 ára aldri. Með þessari breytingu er komið til móts við foreldra veikra og langveikra barna um greiðslu dvalarkostnaðar hér innan lands fjarri heimili þegar barn þarf að leggjast inn á sjúkrahús. Í ræðu ráðherra á Alþingi kom fram að hér sé um að ræða mikla réttarbót fyrir foreldra veikra barna þar sem ekki er gert ráð fyrir því í núgildandi lögum um almannatryggingar að dvalarkostnaður foreldra sé greiddur hér innan lands heldur aðeins ef um er að ræða dvalarkostnað foreldra veikra barna ef sjúkrahúsvist er erlendis. Frumvarpið er samið sem hluti af stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna og í samvinnu við Umhyggju, félag til stuðnings langveikum börnum.


Frumvarp til laga um sjúklingatryggingu lagt fyrir á Alþingi í vikunni og einnig frumvarp til laga um lífsýnasöfn. Í frumvarpi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um sjúklingatryggingu eru ákvæði um sjúklingatryggingu í almannatryggingum felld niður, bótaréttur rýmkaður og bótafjárhæðir hækkaðar. Nýmæli er að samkvæmt frumvarpinu munu lögin ná til trygginga sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, starfsmanna í sjúkraflutningum og sjúklinga sem af brýnni nauðsyn leita læknishjálpar erlendis. Rétt til bóta eiga sjúklingar sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða meðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanni sem hlotið hefur löggildingu.

Frumvarp til laga um lífsýnasöfn hefur það markmið að ,,heimila söfnun, vörslu, meðferð og nýtingu lífsýna úr mönnum með þeim hætti að persónuvernd sé trygg, gætt sé hagsmuna lífsýnisgjafa og nýting lífsýnanna þjóni vísindalegum og læknisfræðilegum tilgangi og stuðli að almannaheill", eins og segir í 1. grein frumvarpsins.


Blóðbankinn styrktur til að fjölga blóðgjöfum. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, greindi frá því í heimsókn sinni í Blóðbankann í dag, 7. apríl, að hún hefði ákveðið að styrkja þá viðleitni Blóðbankans að fjölga blóðgjöfum með 400 þúsund króna framlagi ráðuneytisins. Ráðherra heimsótti Blóðbankann í tilefni alþjóða heilbrigðisdagsins, en Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálsstofnunarinnar (WHO) hafði hvatt heilbrigðisyfirvöld í aðildarríkjunum til að gefa gaum að mikilvægi blóðgjafa og blóðabanka undir kjörorðinu öruggt blóð. Ráðherra greindi einnig frá því í heimsókn sinni í Blóðbankann að skipuð yrði nefnd, sem í verða fulltrúar heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins, Blóðbankans, Landspítala og landlæknisembættisins. Nefndinni verður falið að gera tillögur til heilbrigðismálaráðherra um hvernig stuðla megi að því að fjölga blóðgjöfum, hvernig samhæfa megi blóðbankaþjónustu á landsvísu og kanna kosti þess að setja þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar undir samræmda stjórn á grundvelli viðurkenndra gæða-og öryggisstaðla. Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir og forstöðumaður Blóðbankans, sagði í dag að hann þakkaði stuðninginn við að fjölga blóðgjöfum og fagnaði nefndarskipaninni. Sveinn sýndi heilbrigðisráðherra Blóðbankann og greindi ásamt öðru starfsfólki frá starfseminni. Blóðbankinn setti upp í dag og gerði aðgengilega fyrir almenning heimsíðu bankans. Slóðin er: http://www.blodbankinn.is Lesendur eru hvattir til að skoða heimasíðu Blóðbankans.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
7. apríl, 2000







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta