Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 112/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 112/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120013

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik og málsmeðferð

Þann 8. október 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2020, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu og Venesúela (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. október 2020. Þann 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 392/2020, dags. 13. nóvember 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 7. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.

Kærandi krefst aðallega endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 332/2020 og að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar felld verði úr gildi. Til vara krefst kærandi endurupptöku á úrskurði kærunefndar nr. 392/2020 er varðar frestun réttaráhrifa. Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Endurupptökubeiðni kæranda byggir á því að afstaða kærunefndar í máli hennar, sem hafi verið í samræmi við meginreglu flóttamannaréttar að vernd tiltekinna landa gangi framar alþjóðlegri vernd, hafi leitt til bagalegrar niðurstöðu fyrir hana. Fram kemur í endurupptökubeiðni að krafa kæranda styðjist einkum við að það samrýmist ekki meðalhófi að neita henni um frestun réttaráhrifa. Kærandi sé berskjölduð ung kona og með vísan til aðstæðna hennar megi færa rök fyrir því að aðstæður hennar eigi undir 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá sé fátítt að umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Venesúela hljóti ekki vernd hér á landi. Því sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Kærandi telur að í máli hennar takist á skilvirknissjónarmið kærunefndar og stjórnarskrárvarinn réttur kæranda samkvæmt 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst að mati kæranda og raunhæf ástæða sé til að ætla að úrskurðurinn verði felldur úr gildi af dómstólum. Hafi umsækjandi ekki raunhæfa leið til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla þá muni áhersla kærunefndar á skilvirknissjónarmið fara gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og fyrirsjáanlegt sé að kærandi verði fyrir óafturkræfum skaða verði henni gert að snúa aftur til Kólumbíu. Því til stuðnings vísar kærandi til persónulegra eiginleika hennar og þess að hún muni ekki eiga neitt bakland, hvorki í Kólumbíu né Venesúela. Úrskurður kærunefndar leiði því til bagalegrar niðurstöðu í máli hennar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til sanngirnissjónarmiða um að aðstæður geti verið ófyrirsjáanlegar og að það fæli ekki í sér gagnrýni á lögin þótt vikið væri frá þeim í einstaka tilvikum. Í ljósi þess að niðurstaðan í máli kæranda hafi nær einungis ráðist af tvöföldu ríkisfangi hennar þá sé eðlilegt vegna einstaklingsbundinna aðstæðna hennar að hún fái ráðrúm til að bera mál sitt undir dómstóla.

Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að hún hafi náð 18 ára aldri og teljist því ekki lengur vera barn samkvæmt íslenskum lögum. Kærandi hafi hins vegar þurft að þola næringarskort á uppvaxtarárum sínum og sé því barnaleg að öllu leyti. Því til stuðnings vísar kærandi til framlagðra heilsufarsgagna. Þessir eiginleikar kæranda hafi verulega þýðingu við mat á því hvort veita eigi kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þar sem erfitt væri fyrir hana að fóta sig í Kólumbíu.

III.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggist á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 8. október 2020 var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að kærandi hafi þurft að þola næringarskort sem hafi komið niður á þroska hennar og því sé hún barnaleg miðað við aldur sinn. Horfa verði til þess við mat á því hvort kærandi geti átt rétt til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ásamt endurupptökubeiðni lagði kærandi fram heilsufarsgögn. Í gögnunum kemur fram að kærandi glími við mikinn kvíða, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir og hafi gert tilburði til þess að skaða sig með skærum. Kærandi hafi leitað á bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans í nokkur skipti. Í ljósi framangreindra heilsufarsgagna óskaði kærunefnd eftir því þann 9. desember 2020 að framkvæmt yrði sálfræðimat á kæranda. Þann 3. mars 2021 bárust kærunefnd niðurstöður sálfræðimatsins, dags. 22. febrúar 2021. Þar kemur m.a. fram að áfallasaga kæranda sé flókin en að hún búi yfir mörgum styrkleikum. Klínískt mat og sjálfsmatskvarðar bendi til kvíða-, þunglyndis- og áfallastreitueinkenna en ekki til alvarlegs sálræns vanda. Það sé fyrst og fremst óvissa varðandi framtíð kæranda og fjölskyldu hennar sem valdi henni vanlíðan, depurð og streitu. Það sé mat sálfræðings að ef kærandi búi við öryggi og fyrirsjáanleika geti hún skapað sér gott líf. Þá hafi kærandi þörf fyrir sálrænan stuðning að mati sálfræðings.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi glími við kvíða, áhyggjur, svefnleysi og hjartsláttartruflanir og hafi leitað á bráðamóttöku Borgarspítala þar sem hún hafi fengið róandi lyf. Þá hafi kærandi leitað aðstoðar vegna andlegra veikinda í heimaríki sínu. Það er mat kærunefndar að framangreind heilsufarsgögn og sálfræðimat hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um andlega heilsu kæranda og sé aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hennar hjá nefndinni. Ráða má af matinu að andleg heilsa kæranda sé tengd stöðu hennar hér á landi með tilheyrandi óvissu og ófyrirsjáanleika. Kærunefnd lítur því svo á að ekkert sé því til fyrirstöðu að kærandi muni geta búið við öruggar og fyrirsjáanlegar aðstæður í Kólumbíu. Kærunefnd telur að þrátt fyrir framangreind heilsufarsgögn, sem bendi til þess að andlegri heilsu kæranda hafi hrakað frá því úrskurðað var í máli kæranda, sé ekki um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Í úrskurði kærunefndar, dags. 8. október 2020, fjallaði kærunefnd um heilbrigðiskerfið í Kólumbíu og lagði nefndin til grundvallar að kæranda stæði til boða geðheilbrigðisþjónusta þar í landi. Slík heilbrigðisþjónusta væri að mestu tryggð með sjúkratryggingakerfi landsins og meirihluti fólks sem glími við andleg veikindi þurfi ekki að greiða fyrir slíka þjónustu. Verður ekki talið að framangreindar upplýsingar hefðu því haft áhrif á efnislega niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda. Því er það mat kærunefndar að framangreindar upplýsingar bendi ekki til þess að úrskurður kærunefndar, nr. 332/2020, dags. 8. október 2020, hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í endurupptökubeiðni kæranda er til vara farið fram á að kærunefnd endurupptaki úrskurð sinn frá 13. nóvember 2020, nr. 392/2020 og fresti réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar frá 8. október 2020. Í úrskurði nefndarinnar nr. 382/2020 komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til heimaríkis hennar væri ekki í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og að kærandi ætti ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða snúi hún aftur til heimaríkis. Þá hafi ekki orðið verulegar breytingar frá því kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda, kærandi væri ekki í sérstakri hættu á alvarlegum veikindum vegna Covid-19 faraldursins og þá hafi ekki komið neitt fram í beiðni kæranda um endurupptöku sem væri þess eðlis að ástæða væri til að ætla að niðurstaða kærunefndar í máli kæranda hafi verið haldin annmarka sem gæti leitt til ógildingar úrskurðarins. Var beiðni kæranda því hafnað.

Líkt og fram hefur komið er það mat kærunefndar að þær upplýsingar er lagðar voru fram samhliða endurupptökubeiðni hefðu ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda. Verður því ekki séð að forsendur úrskurðar kærunefndar nr. 392/2020 hafi breyst verulega eða að hann hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik.

Kærandi hefur greint frá því að kærasti hennar til fjögurra ára sé búsettur hér á landi. Í gögnum er fylgdu endurupptökubeiðni kemur fram að þau búi saman. Með tilliti til þess bendir kærunefnd á að kærandi getur lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, eða e.a. á grundvelli 70. gr. sömu laga. Kærunefnd tekur þó fram að með þessu tekur nefndin enga afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til slíks leyfis.

Samantekt

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í málum kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hennar upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í málum kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málanna.

 


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta