Hoppa yfir valmynd
8. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 79/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 79/2017

Mánudaginn 8.maí 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2016, um synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með tveimur umsóknum, báðum dags. 2. febrúar 2017, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 27. febrúar 2017 til 17. mars 2017, annars vegar vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2017 og hins vegar vegna barns sem fætt var X 2015.

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2017, var umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns með áætlaðan fæðingardag X 2017 synjað þar sem kærandi væri þegar skráður í fæðingarorlof með barni fæddu X 2015 fyrir sama tímabil, þ.e. 27. febrúar 2017 til 17. mars 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, dags. 22. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins sem barst með bréfi, dags. 6. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. mars 2017, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og að umsókn hans verði samþykkt.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi eignast barn þann X 2015 og nýtt sér 25 daga af fæðingarorlofsrétti sínum vegna barnsins í kjölfarið. Hann ætti því 65 daga eftir af orlofsrétti vegna þess barns sem rynni út X 2017.

Þar sem annað barn væri á leiðinni með áætlaðan fæðingardag X 2017 hafi kærandi sent inn tvær tilkynningar um fæðingarorlof fyrir tímabilið 27. febrúar 2017 til 17. mars 2017. Eina fyrir barnið sem var fætt X 2015 og aðra fyrir barnið með væntanlegan fæðingardag X 2017.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram að ekki væri hægt að afgreiða fæðingarorlof fyrir barn með væntanlegan fæðingardag X 2017 þar sem kærandi hafi þegar verið skráður í fæðingarorlof með barni fæddu X 2015. Enginn rökstuðningur hafi fylgt ákvörðuninni. Jafnframt hafi ekki verið vísað til þess á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin byggði á.

Að mati kæranda sé hvergi í lögum nr. 95/2000 um foreldra- og fæðingarorlof kveðið á um að ekki megi taka fæðingarorlof með tveimur börnum á sama tíma. Höfnun Fæðingarorlofssjóð gengur að mati kæranda gegn markmiði ffl. en í 2. gr. laganna komi fram að „Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir [við báða foreldra]“.

Í ljósi hámarksgreiðslna fæðingarorlofs með hverju barni, í tilfelli kæranda 370.000 krónur á mánuði með barni fæddu X 2015 og 500.000 krónur á mánuði með barni með áætlaðan fæðingardag X 2017, hafi kærandi ekki séð sér fært að taka einungis eitt fæðingarorlof í einu vegna tekjuskerðingar. Með því að taka orlof með tveimur börnum á sama tíma minnkar tekjuskerðing umtalsvert og verði þolanleg. Á sama tíma nást markmið laganna og tryggja samvistir barnanna við báða foreldra.

Ljóst sé að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda. Samkvæmt stjórnsýslurétti þurfi allar ákvarðanir sem séu íþyngjandi fyrir borgarana að eiga sér skýra lagastoð. Hvergi í lögum nr. 95/2000 sé lagt bann við því að foreldrar nýti rétt sinn til að taka fæðingarorlof með tveimur börnum á sama tíma.

Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um meðalhófsregluna en þar segi að stjórnvald skuli einungis taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmæltu markmiði, sem stefnt sé að, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Ljóst sé að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs eigi sér ekki lagastoð og verði jafnframt ekki séð að meðalhófs hafi verið gætt þegar ákvörðunin hafi verið tekin.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með tveimur tilkynningum um fæðingarorlof, dags. 2. febrúar 2017, sótt um að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 22. febrúar til 17. mars 2017, annars vegar með barni sem fæddist X 2015 og hins vegar með barni sem fæddist X 2017.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri unnt að afgreiða hann í fæðingarorlof tímabilið 22. febrúar til 17. mars 2017 með barni sem fæddist X 2017 þar sem hann væri á sama tímabili í fæðingarorlofi með barni fæddu X 2015.

Í 8. gr. ffl. sé fjallað um rétt foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs. Þá sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs í 10. gr., tilkynningu um fæðingarorlof í 9. gr. og umsókn til Vinnumálastofnunar um greiðslur í fæðingarorlofi í 15. gr. ffl.

Í 1. mgr. 7. gr. ffl. sé að finna orðskýringu á „fæðingarorlofi“ en þar segi að fæðingarorlof samkvæmt lögunum sé „leyfi frá launuðum störfum“ sem stofnast til, meðal annars við fæðingu. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að ffl. sé tekið fram að skilgreining á hugtakinu „fæðingarorlof“ sé efnislega samhljóða skilgreiningu laga um fæðingarorlof nr. 57/1987, með síðari breytingum. Þar komi meðal annars fram að hefðbundin skilgreining á lagahugtakinu „orlof“ sé „leyfi frá launuðum störfum“, sbr. 1. gr. laga um orlof nr. 87/1971, nú lög um orlof nr. 30/1987.

Í samræmi við orðanna hljóðan hafi ekki verið séð að kærandi gæti tekið „leyfi frá launuðum störfum“ tímabilið 22. febrúar til 17. mars 2017, með barni fæddu X 2017 þar sem hann hafi þegar verið í „leyfi frá launuðum störfum“ með barni fæddu X 2015.

Þá segi í 1. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl. að réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt 8. gr. Þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði um rétt fæðingarorlofs með barni fæddu X 2017 tímabilið 22. febrúar til 17. mars 2017 hafi hann ekki átt rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili, sbr. 1. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. febrúar 2017, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi sótti um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði með tveimur börnum sínum fyrir tímabilið 27. febrúar 2017 til 17. mars sama ár. Þessu hafnaði Fæðingarorlofssjóður og vísaði til þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til fæðingarorlofs með barni sem fæddist X 2017 þar sem hann væri þegar skráður í fæðingarorlof á sama tímabili með barni fæddu X 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. ffl. er markmið laganna að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Fæðingar- og foreldraorlof er skilgreint sem leyfi frá launuðum störfum sem meðal annars stofnast til við fæðingu, sbr. 1. mgr. 7. gr. ffl. Í 1. mgr. 8. gr. ffl. segir að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Auk þess eigi foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 10. mgr. 13. gr. ffl. er síðan mælt fyrir um að réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt 8. gr. ffl.

Samkvæmt framangreindu öðlast foreldri sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs með barni sínu í allt að þrjá mánuði. Sá réttur er lögmæltur og grundvallast á sjónarmiðum um að rétt sé að veita foreldri og barni tækifæri til samvista. Í ffl. er því einungis gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt sjálfstæðan rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði með einu barni á tilteknu tímabili. Í V. kafla ffl. er svo kveðið á um undanþágutilvik þar sem meðal annars er fjallað um aðstæður foreldra sem eignast fjölbura eða þegar þeir ættleiða eða taka í fóstur fleiri en eitt barn á sama tíma. Samkvæmt ákvæðinu sé gert ráð fyrir að foreldrar sem séu í þessum aðstæðum eigi rétt á lengingu fæðingarorlofs sem nemi þremur mánuðum fyrir hvert barn umfram eitt.

Kærandi telur að það standist ekki meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun hafi ekki átt sér lagastoð. Líkt og fram hefur komið er einungis gert ráð fyrir að hægt sé að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með einu barni á tilteknu orlofstímabili. Í ljósi þess að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs byggði ekki á mati stjórnvaldsins heldur á fortakslausum ákvæðum ffl. verður ekki fallist á þessa málsástæðu kæranda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2017, um synjun á kröfu A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2017 á tímabilinu 27. febrúar 2017 til 17. mars 2017, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta