,,Á ferðinni fyrir þig?
Flutningafyrirtæki innan vébanda Samtaka verslunar og þjónustu hafa hrundið af stað átaki til að minna vegfarendur á gildi vörudreifingar fyrir landsmenn. Um 100 vöruflutningabílar í þjónustu ýmissa aðila verða merktir sérstaklega og hleypti Kristján L. Möller samgönguráðherra átakinu formlega af stað í dag.
Áletrunin ,,Á ferðinni fyrir þig” með ýmsum myndum og fleiri upplýsingum er á flutningabílum fyrirtækja innan SVÞ en þau eru Eimskip, Samskip, Pósturinn, Olíudreifing, Skeljungur, Icelandair Cargo, Landvari og Landssamband vörubifreiðaeigenda. Með átakinu vilja flutningafyrirtækin minna á þá staðreynd að vöruflutningabílar eru á ferðinni fyrir fólkið í landinu og atvinnulífið og að öflugir landflutningar séu forsenda þess að atvinnulíf og byggð geti þrifist um landið allt. Signý Sigurðardóttir, forstöðumaður flutningasviðs SVÞ, segir að með átakinu sé leitast við að litið sé jákvæðum augum á flutningabíla á ferð um landið.
Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði að vöruflutningar um landið væri nauðsyn og að vöruflutningqabílstjórar og aðrir vegfarendur yrðu að sýna gagnkvæma tillitssemi á ferðum sínum. Hann sagði það reynslu sína að yfirleitt væru bílstjórar flutningabíla liðlegir og leiðbeindu vegfarendum iðulega um framúrakstur. Ráðherra sagði einnig að nú þegar umferð færi vaxandi væri brýnt að allir sýndu varkárni og færu að reglum.
Bílar frá ýmsum flutningafyrirtækjum verða merktir myndum og áletrunum til að minna á gildi vöruflutninga. | |||