Fíkniefnavarnir á Íslandi kynntar hjá Fíkniefnanefnd SÞ í Vín (CND).
Inga Dóra Sigfúsdóttir, stofnandi og forstjóri vísindarannsókna hjá Rannsóknum og greiningu, kynnti fíkniefnavarnir á Íslandi á hliðarviðburði á 63. fundi fíkniefnanefndar SÞ (Commission on Narcotic Drugs, CND) í Vínarborg 2. mars 2020. Sagði hún frá „Planet Youth“-verkefnum fyrirtækisins á Íslandi og víða um heim. Ræddu fundarmenn fíkniefnavarnir í ljósi lögleiðingar kannabisefna. Guðni Bragason, fastafulltrúi gagnvart skrifstofu SÞ í Vínarborg, sagði á fundinum að flestar fjölskyldur kæmust á einhvern hátt í snertingu við fíkniefnavandann og þörf væri á nýjum lausnum, sem byggðu á samfélagsnálgun, eins og þeim sem fælust í „Planet Youth“.