Hoppa yfir valmynd
18. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 580/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 580/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060007

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. maí 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Brasilíu ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. maí 2023, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 30. ágúst 2019 með gildistíma til 28. ágúst 2020. Dvalarleyfi kæranda var endurnýjað 30. september 2020 með gildistíma til 29. september 2021. Kærandi lagði fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis 25. október 2021 eða tæpum mánuði eftir að gildistími dvalarleyfis hennar rann út. Sökum þess fékk kærandi ekki útgefna endurnýjun á fyrra dvalarleyfi heldur var farið með umsókn hennar samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 57. gr. sömu laga. Fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 21. desember 2021 með gildistíma til 20. desember 2022. Hinn 30. desember 2022 lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Dvalarleyfi kæranda var endurnýjað sama dag með gildistíma til 30. desember 2024.

Hinn 23. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. maí 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hún væri ekki búin að vera með dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar hennar. Voru skilyrði b-liðar 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga því ekki talin uppfyllt. Ákvörðun Útlendingastofnunar barst kæranda með ábyrgðarbréfi 30. maí 2023. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 31. maí 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í rökstuðningi með kæru kæranda kemur fram að hún hafi verið búsett hér á landi síðan árið 2018. Kærandi sé í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og að hún hafi starfað í fjögur ár í […]. Kærandi eigi jafnframt […] strák sem gangi í skóla hér á landi og hafi aðlagast íslensku samfélagi. Kærandi vilji læra um og virða íslenska siði. Þá hafi kærandi aldrei sætt afskiptum lögreglu eða dómstóla hér á landi. Með vísan til framangreinds skilji kærandi ekki hvers vegna umsókn hennar hafi verið synjað.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Samkvæmt b-lið 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt í vissum tilvikum að veita útlendingi sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með hinum íslenska ríkisborgara hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt.

Eins og fram hefur komið dvaldi kærandi hér á landi samfellt á grundvelli dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, frá 30. ágúst 2019 til 29. september 2021 eða í rúm tvö ár. Kærandi lagði ekki fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfisins innan gildistíma fyrra dvalarleyfis og var umsókn hennar því afgreidd sem ný umsókn samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 57. gr. sömu laga. Varð þannig rof á samfelldri dvöl kæranda hér á landi. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2021, var kæranda gefið færi á að hafa uppi andmæli og veita skýringar á því hvers vegna rof hefði myndast á dvöl hennar. Í svari kæranda kom fram að hún hafi ekki vitað að umsókn um endurnýjun hefði þurft að berast á nákvæmum tíma. Kærandi hafi talið að hún hefði ákveðið svigrúm til að endurnýja það. Þá hefðu verið mörg tilfelli af veikindum af völdum Covid-19 á vinnustað kæranda en það væri þó líka henni að kenna að það hefði dregist að senda inn umsókn um endurnýjun dvalarleyfis. Það var mat Útlendingastofnunar að svör kæranda réttlættu ekki að litið yrði framhjá því rofi sem myndast hefði á dvöl hennar og því yrði farið með umsókn hennar sem nýja umsókn samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Sú ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki kærð til kærunefndar. Kærandi fékk því næst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 21. desember 2021 og hefur það verið endurnýjað með gildistíma til 30. desember 2024. Þegar úrskurður þessi er kveðinn upp 18. október 2023 hefur kærandi verið í samfelldri dvöl á grundvelli dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga í tæplega tvö ár.

Að framangreindu virtu er ljóst að kærandi uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hafa dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur né undantekningarákvæði b-liðar 3. mgr. 58. gr. laganna um að hafa haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar. Mun kærandi að öllu óbreyttu uppfylla skilyrði b-liðar 3. mgr. 58. gr. laganna um lengd dvalar hér á landi 21. desember 2024 að því gefnu að ekki myndist rof á samfelldri dvöl kæranda. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Þorsteinn Gunnarsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta