Ávarp við undirritun samnings um heimili fyrir heimilislausa
Ágætu gestir.
Þið sem hlupuð í þessu hryssingslega veðri frá bílastæðinu hingað inn í hlýjuna getið ímyndað ykkar hvernig það er að búa við slíkar aðstæður langtímum saman og vita ekki að morgni hvort eða hvar húsaskjól fæst næstu nótt.
Samkvæmt skýrslu samráðshóps um heimilislausa, sem félagsmálaráðherra skipaði, eru heimilislausir í Reykjavík á bilinu 45 til 55. Flestir eru karlmenn milli þrítugs og fimmtugs; þeir eru einhleypir, margir einstæðingar, flestir öryrkjar og þeir búa á götunni, í gistiskýlum eða eru inni á meðferðarstofnunum.
Samstarfssamningur félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar, sem við undirritum í dag, er byggður á niðurstöðum samráðshópsins. Hann kveður á um stofnun og rekstur heimilis fyrir fólk sem á ekki í önnur hús að venda. Á heimilinu verður rúm fyrir 10 heimilismenn samtímis. Heimilisfólki verður boðið uppá almenna og sérhæfða heilbrigðis- og hjúkrunarþjónustu, heildstæða félagslega ráðgjöf og stuðning til þess að ná tökum á lífi sínu, meðal annars að sækja áfengis- og fíkniefnameðferð.
Félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg munu á samningstímanum frá 1. janúar næstkomandi til ársloka 2009 verja 150 til 160 milljónum króna til stofnunar og rekstrar heimilisins. Um er að ræða tilraunaverkefni. Af hálfu félagsmálaráðuneytisins er verkefnið hluti af átaki til eflingar þjónustu við geðfatlað fólk eins og stefnumótun og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins til ársins 2010 gera ráð fyrir.
Hópurinn sem um ræðir er að mörgu leyti óskilgreindur vegna þess að hann er utangarðs. Vísbendingar eru um að heimilislausir eigi upp til hópa við alvarlegan heilsubrest að etja eða ofneyslu áfengis og fíkniefna. Geðrænir erfiðleikar fylgja oft í kjölfar langvarandi neyslu og má leiða líkum að því að verulegur fjöldi þeirra sé geðfatlaður, þótt þeir hafi ekki endilega komist á skrá sem slíkir.
Góðir gestir.
Ég ætla ekki að halda hér langa tölu en vil þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi þess að búa heimilislausum samastað. Við leggjum mikla áherslu á samvinnu og samráð allra þeirra sem málið varðar. Óskað verður eftir aðild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, heilsugæslunnar og lögreglunnar í Reykjavík að stýrihópi heimilisins ásamt fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til gagnanna sem hefur verið dreift hér á fundinum.
Ég ætla mér ekki þá dul að hafa leyst húsnæðisvanda heimilislausra í eitt skipti fyrir öll með þessu samkomulagi. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að þetta úrræði er mjög mikilvægt skref í rétta átt og nýtist stórum hluta þeirra sem á hverjum tíma eiga hvergi höfði sínu að halla í Reykjavík.
Ég vil að lokum þakka Reykjavíkurborg fyrir sérstaklega gott og ánægjulegt samstarf við undirbúning þessa verkefnis. Ég tel það samstarf mjög gott dæmi um það hvernig ríki og sveitarfélög geta unnið vel saman að velferðarverkefnum sem þessum. Það eigum við að gera og að því vil ég vinna með Reykjavíkurborg og raunar sveitarfélögum um land allt.