Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 1037/2024 Úrskurður

Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1037/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24050204

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. maí 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Pakistan ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2024, um að synja umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með ákvörðuninni var kæranda jafnframt ákvörðuð brottvísun og tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærunefnd geri Útlendingastofnun að endurnýja dvalarleyfi kæranda vegna náms. Til vara krefst kærandi ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðunin verði felld úr gildi varðandi brottvísun og endurkomubann.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga, með gildistíma frá 5. ágúst 2021 til 26. júní 2022. Því næst fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á grundvelli náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, með gildistíma frá 5. september 2022 til 15. júlí 2023. Hinn 12. júní 2023 sótti kærandi um endurnýjun leyfisins en umsókn hans var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2023. Í ákvörðuninni kom fram að kærandi hefði ekki lagt fram fullnægjandi fylgigögn og var umsókn hans því synjað, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Hinn 14. nóvember kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kærandi afturkallaði kæruna sína og sendi kærunefnd honum bréf, dags. 6. mars 2024, þess efnis að málið væri fellt niður hjá kærunefnd. Í kjölfarið hafi ákvörðun Útlendingastofnunar verið endurupptekin og tók stofnunin umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar að nýju. Stofnunin tók nýja ákvörðun í máli kæranda 16. maí 2024 en með ákvörðuninni var umsókn kæranda um endurnýjun synjað að nýju. Fram kom í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hefði ekki lokið viðunandi námsárangri á skólaárinu 2022 til 2023 og var umsókn hans um endurnýjun því synjað, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefði skráð sig í nýtt nám, en að það væri ekki lagt til grundvallar með vísan til þess að ekki lægi fyrir tímabundið atvinnuleyfi vegna náms á vinnustað, sbr. 4. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Þar að auki var kæranda gert að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðunin var móttekin af kæranda 20. maí 2024 og kærð til kærunefndar útlendingamála 31. maí 2024. Kærandi lagði fram greinargerð vegna málsins 14. júní 2024. Líkt og fram kemur í ákvörðunarorðum hinnar kærðu ákvörðunar frestar stjórnsýslukæra réttaráhrifum hennar, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð, dags. 14. júní 2024, mótmælir kærandi því að hann uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga og telur nám sitt falla undir lagaskilyrði 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga, þ.e. iðnnám og viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi. Um það vísast til fylgigagna málsins, þ.e. gögn frá [...]skóla [...] og vísar kærandi til þess að hafa sýnt fram á viðunandi námsárangur í umræddu námi. Þar að auki byggir kærandi málatilbúnað sinn á 6. mgr. 65. gr. sem heimilar að vikið sé frá kröfu um viðunandi námsárangur, og bendir á að tilvikin sem ákvæðið tilgreinir séu aðeins nefnd í dæmaskyni. Þá kveðst kærandi hafa sýnt fram á trygga framfærslu. Í ljósi framangreinds óskar kærandi eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærunefnd geri Útlendingastofnun að endurnýja dvalarleyfi hans.

Til vara krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar með hliðsjón af annmörkum á málsmeðferð stofnunarinnar. Í því skyni vísar kærandi til þess að hvergi í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi lagt fram gögn er lutu að tryggri framfærslu. Telur kærandi framangreint brjóta gegn rannsóknarreglu og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Kærandi vísar til þess að í fyrri ákvörðun Útlendingstofnunar, sem síðar var afturkölluð, hafi stofnunin hvorki gert athugasemd við atvinnuleyfi né framfærslu hans. Kærandi kveðst hafa sýnt fulla viðleitni til að uppfylla lagaleg skilyrði og annan áskilnað og í því skyni hafi hann brugðist skjótt við leiðbeiningum Útlendingastofnunar um framlagningu gagna og upplýsinga. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að meðalhófi við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, auk þess sem skipun talsmanns hafi, að mati kæranda, verið í andstöðu við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Um það vísar kærandi til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga vegna ósanngjarnrar ráðstöfunar gegn sér. Slík ráðstöfun sé íþyngjandi og beri að beita af varfærni. Kærandi kveðst hafa ríka hagsmuni af því að ljúka námi sínu hér á landi og telur endurkomubann til tveggja ára girða að fullu fyrir möguleika hans. Um það vísar kærandi enn fremur til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um dvalarleyfi

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Fullt nám er samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sækir einstök námskeið telst ekki stunda fullt nám. Ákvæði 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga áskilur að 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt, ásamt því að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla eða hafi fengið heimild til undanþágu frá skilyrði um fullt nám, svo sem vegna skipulags náms á grundvelli beiðni frá hlutaðeigandi skóla.

Í 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn en það skal gert ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. sömu greinar og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi vegna náms 5. september 2022 með gildistíma til 15. júlí 2023. Var leyfið útgefið vegna skráningar kæranda í námið [...] við Háskóla Íslands. Umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis, dags. 12. júní 2023, er fyrsta endurnýjun, sbr. 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi engum námseiningum frá Háskóla Íslands á námsárinu 2022-2023. Kærandi hefur hins vegar lagt fram gögn frá [...] um að hann hafi hafið nám við skólann 13. september 2022 á starfsnámsbraut fyrir [...]. Hann hafi fengið metnar inn einingar og sinnt starfsnámi á veitingastað og væri skráður í fullt nám við skólann haustið 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga skal tilgangur með dvöl hér á landi vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Líkt og áður greinir var kærandi með útgefið dvalarleyfi frá 5. september 2022 til 15. júlí 2023 en leyfið var gefið út vegna skráningar kæranda í íslensku sem annað nám við Háskóla Íslands. Meðal lagaskilyrða fyrir endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn er að sinna námsframvindu, eins og rakið hefur verið, en slík krafa er sanngjörn með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins um rekstur menntastofnana og framboð á námsleiðum. Sú háttsemi að sinna ekki námsframvindu og skrá sig í nýtt nám grefur, eðli málsins samkvæmt, undan skýrum viðmiðum löggjafans um námsframvindu. Af 65. gr. laga um útlendinga, með hliðsjón af framangreindu, leiðir að útgefið dvalarleyfi er bundið við tiltekið nám sem umsókn byggist á. Að framangreindu virtu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um viðunandi námsárangur við fyrstu endurnýjun vegna náms. Kemur skráning hans í nýtt nám ekki til skoðunar í máli þessu. 

Kemur þá til skoðunar hvort aðstæður kæranda falli undir viðmið um óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi, í skilningi niðurlags 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að óviðráðanlegar ytri aðstæður hafi valdið því að hann náði ekki fullnægjandi námsárangri og er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess. Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði fyrir endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á viðunandi námsframvindu, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Er ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms því staðfest.

Brottvísun og endurkomubann

Í 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 136/2022, segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Kærandi lagði fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms en nú hefur umsókn hans verið synjað, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Með niðurstöðunni virkjaðist skylda stjórnvalda til þess að taka afstöðu til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun var kæranda brottvísað og gert að sæta tveggja ára endurkomubanni. Þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun sína 16. maí 2024 dvaldi kærandi enn á landinu. Var skilyrðum 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga fullnægt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og birt kæranda. Kæra frestaði framkvæmd ákvörðunar í samræmi við 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2024, var kæranda bent á vísa skuli útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu auk þess eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.

Í bréfi kæranda, sem Útlendingastofnun móttók 19. apríl 2024, lagði kærandi höfuðáherslu á nám sitt, vinnu, og tengsl sem hann hafði myndað í gegnum það. Í greinargerð kæranda á kærustigi gerði hann þrautavarakröfu um að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann yrði felld úr gildi, með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, en einnig með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Vísar kærandi til náms síns hvað það varðar en auk þess að ekki skuli farið strangara í sakirnar en nauðsyn ber til. Að mati kæranda verði ekki annað séð en að lögmætum markmiðum stjórnvalda verði náð með vægara móti.

Kærunefnd hefur yfirfarið ákvörðun Útlendingastofnunar og málsástæður kæranda varðandi brottvísun og endurkomubann. Nefndin hefur lagt mat á dvöl kæranda hér á landi og komist að þeirri niðurstöðu að hann uppfylli ekki lagaskilyrði fyrir endurnýjun dvalarleyfis vegna náms, en án þess hefur hann ekki tök á ástundun frekara náms hér á landi. Ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda er í samræmi við lög og er tilgangur hennar að framfylgja lögmætum markmiðum laga um útlendinga. Enn fremur liggur fyrir að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Útlendingastofnunar var frestað með málskoti til kærunefndar, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga. Því nýtur kærandi 15 daga frests til sjálfviljugrar heimfarar frá móttöku úrskurðar kærunefndar en innan þess frests verður endurkomubann hans fellt niður, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Yfirgefi kærandi ekki landið innan framangreinds frests mun endurkomubann að óbreyttu hefjast þann dag sem hann er færður úr landi, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til úrskurðarframkvæmdar kærunefndar í sambærilegum málum telur kærunefnd hæfilegt að endurkomubann verði til tveggja ára. Því er ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfest.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis staðfest. Kæranda er brottvísað frá landinu og skal sæta endurkomubanni til tveggja ára. 

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Valgerður María Sigurðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta