Hoppa yfir valmynd
18. september 2019 Forsætisráðuneytið

822/2019. Úrskurður frá 10. september 2019

Úrskurður

Hinn 10. september kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 822/2019 í máli ÚNU 19080014.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 27. ágúst 2019, kærði A synjun embættis ríkissaksóknara á beiðni um aðgang að gögnum í tilteknu sakamáli. Kærandi óskaði eftir því þann 8. ágúst 2019 að héraðssaksóknari veitti honum aðgang að gögnum sakamáls er fjalli um lífssýni og gögnum sem vitni hafi vísað til í framburði sínum fyrir dómi sem tengjast rannsókn málsins. Héraðssaksóknari synjaði beiðninni þann 14. ágúst 2019 með vísan til fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 9/2017. Var sú ákvörðun kærð samdægurs til ríkissaksóknara. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst 2019, staðfesti ríkissaksóknari ákvörðun héraðssaksóknara. Í kæru kemur m.a. fram að kærandi óski eftir því að fá að heyra upptöku af framburði erlends vitnis fyrir dómi og aðgangi að þýðingu löggilts dómtúlks og skjalaþýðanda á framburði vitnisins. Þá óskar kærandi eftir upplýsingum um lífssýni sem tekið var í tengslum við rannsókn sakamálsins.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin enn fremur óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita embætti ríkissaksóknara kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Ekki er vafi á því að umbeðin gögn varða rannsókn tiltekins sakamáls en kæran beinist m.a. að upplýsingum sem varða rannsókn á lífssýni vegna sakamálsins. Eins og fram kemur í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga eru slík rannsóknargögn undanþegin aðgangi samkvæmt lögunum. Verður því að vísa frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru vegna synjunar á beiðni um aðgang að rannsóknargögnum. Hvað varðar kæru vegna synjunar beiðni um aðgang að hljóðupptöku með framburði vitnis í sakamáli og skjali með framburði vitnis, sem þýtt hafi verið á íslensku, liggur ekki fyrir að kærandi hafi óskað eftir slíkum gögnum og að beiðni þess efnis hafi verið synjað. Því liggur ekki fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012. Verður því að vísa kæru frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 27. ágúst 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta