Mál nr. 9/2007
Álit kærunefndar jafnréttismála
í mál nr. 9/2007:
A
gegn
Kornaxi ehf.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 29. janúar 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I.
Inngangur
Með kæru, dags. 9. ágúst 2007, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort breyting á stöðu kæranda innan Kornax ehf. og það að henni var ekki gefinn kostur á að gera starfslokasamning er hún óskaði eftir að láta af störfum hjá félaginu fæli í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Kornaxi ehf. með bréfi, dags. 14. ágúst 2007, og var óskað eftir því að umsögn félagsins um kæruna bærist fyrir 28. ágúst 2007. Með tölvubréfi, dags. 28. ágúst 2007, óskaði umboðsmaður Kornax ehf. eftir tveggja vikna viðbótarfresti til þess að skila inn umsögninni vegna sumarleyfa og anna. Var sá viðbótarfrestur veittur.
Umsögn Kornax ehf. barst með bréfi, dags. 11. september 2007, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. september 2007, þar sem fram kom að óskaði kærandi eftir því að koma á framfæri athugasemdum þyrftu þær að berast fyrir 9. október 2007. Með tölvubréfi, dags. 9. október 2007, óskaði umboðsmaður kæranda eftir 10 daga viðbótarfresti til þess að skila inn athugasemdum og var sá viðbótarfrestur veittur.
Athugasemdir kæranda við umsögn Kornax ehf. bárust með bréfi, dags. 19. október 2007, og voru þær sendar Kornaxi ehf. til kynningar með bréfi, dags. 22. október 2007. Athugasemdir Kornax ehf. bárust með bréfi, dags. 6. nóvember 2007, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. nóvember 2007. Athugasemdir kæranda við síðastnefndar athugasemdir Kornax ehf. bárust með bréfi, dags. 21. nóvember 2007, og voru þær sendar Kornaxi ehf. til kynningar með bréfi, dags. 28. nóvember 2007.
Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II.
Málavaxtalýsing
Kærandi, sem er menntaður matvælafræðingur, var ráðin framkvæmdastjóri Kornax ehf. í nóvember 2003. Við ráðningu kæranda var Kornax ehf. í eigu Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., danska fyrirtækisins Valsemöllen og Fóðurblöndunnar hf. Í lok árs 2005 keypti Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. alla hluti í Kornaxi ehf. og var frá þeim tíma eitt eigandi að félaginu. Á árinu 2006 urðu breytingar á starfsumhverfi og starfsaðstöðu kæranda sem hún var ósátt við. Í árslok 2006 óskaði kærandi eftir að láta af störfum hjá félaginu og að gerður yrði við hana starfslokasamningur, en tillögu kæranda að starfslokasamningi var hafnað. Kærandi lét svo af störfum hjá félaginu en um starfslokin var deilt.
Kærandi telur að breytingar þær sem urðu á stöðu hennar í kjölfar eignarhaldsbreytinga hjá Kornaxi ehf. eigi rætur sínar að rekja til kynferðis hennar. Kynferði kæranda hafi í reynd ráðið því að tekin voru yfir verkefni hennar sem framkvæmdastjóri hjá Kornaxi ehf. og henni með því skipað í undirmannsstöðu. Lítur kærandi svo á að málum hefði verið háttað á annan veg ef karlmaður hefði gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Kærandi telur jafnframt að kynferði hennar hafi ráðið því að henni var ekki gefinn kostur á að gera starfslokasamning við Kornax ehf. í tengslum við ósk hennar um að láta af störfum hjá félaginu. Telur kærandi að karlmanni hefði verið boðið að gera slíkan samning og vísar í því sambandi til viðtekinnar venju á Íslandi við starfslok framkvæmdastjóra í félögum sem hafa sambærileg umsvif og Kornax ehf.
Kornax ehf. mótmælir því að félagið hafi í nokkru hallað á rétt kæranda og hvað þá á grundvelli kynferðis hennar. Öllum fullyrðingum kæranda um að hún hafi mátt þola breytingar á stöðu sinni sem ekki fái samrýmst stöðu framkvæmdastjóra sé hafnað. Hvað varði kröfu kæranda um greiðslur eftir starfslok virðist hún byggð á þeim misskilningi að sú venja hafi mótast að framkvæmdastjórar láti af störfum en fái greidd laun í þann tíma sem svari til umsamins uppsagnarfrests. Kornax ehf. telji einsýnt að endurtekinn fréttaflutningur af starfslokagreiðslum einstakra stjórnenda, sem vinnuveitendur hafi ekki kosið að hafa áfram við störf eftir uppsögn, hafi villt kæranda sýn og ranglega gefið henni til kynna að slíkar greiðslur komi jafnan til við starfslok karlkyns stjórnenda. Það sé algerlega tilhæfulaust og fráleitt að sú afstaða Kornax ehf. að vilja ekki greiða kæranda laun langt umfram skyldu hafi nokkra tengingu við kynferði kæranda.
III.
Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi, sem sé menntaður matvælafræðingur, hafi verið ráðin framkvæmdastjóri Kornax ehf. þann 15. nóvember 2003. Félagið hafi tekið til starfa árið 1987 og flytji inn korn til mölunar frá Evrópu og Ameríku. Félagið hafi um árabil séð stærstum hluta bakaraiðnaðarins fyrir hráefni en selji einnig hveiti og rúgmjöl á neytendamarkað. Hlutafé þess sé 30.000.000 króna. Við ráðningu kæranda hafi Kornax ehf. verið í eigu nokkurra aðila og haft með höndum algerlega sjálfstæða starfsemi að Korngörðum 11 í Reykjavík. Undir kæranda hafi heyrt tólf starfsmenn og hún borið ábyrgð gagnvart stjórn með venjulegum hætti. Í ársbyrjun 2006 hafi Geri ehf. eignast 62,5% alls hlutafjár í Kornaxi ehf. en fyrir hafi systurfélag þess, Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. (Lífland hf.), átt 37,5% hlutafjárins. Allt hlutafé í Kornaxi ehf. hafi þar með verið komið á eina hendi og á hluthafafundi þann 13. janúar 2006 hafi verið kjörin ný stjórn. Í kjölfarið þess hafi Þ, framkvæmdastjóri Gera ehf. og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., komið fram fyrir hönd stjórnarinnar gagnvart kæranda sem yfirmaður hennar.
Kærandi hafi gert ráð fyrir því að breyting yrði á hennar högum í kjölfar yfirtökunnar. Skömmu eftir áramótin hafi hún átt samtal við Þ um framtíð sína hjá félaginu. Á fundinum hafi Þ lýst því yfir að ekki stæði annað til af hálfu stjórnar en að kærandi myndi áfram gegna starfi framkvæmdastjóra Kornax ehf. Sérstaklega hafi Þ vísað til þess að hvorki hann né annað starfsfólk Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hefði þekkingu á rekstri Kornax ehf. og ekki væri unnt að bæta meira vinnu á það.
Rétt fyrir páskana 2006 hafi Kornax ehf. flutt skrifstofur sínar frá Korngörðum 11 í húsnæði Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. að Korngörðum 5. Kærandi hafi þar fengið til afnota bráðabirgðaaðstöðu í stórum fundarsal þar sem fyrir hafi verið tveir starfsmenn með aðstöðu en Þ hafi fullvissað kæranda um að þar ætti að gera tvær skrifstofur. Sú framkvæmd hafi þó dregist á langinn og hafi Þ borið fyrir sig að þeir smiðir sem hann hefði ráðið til verksins væru önnum kafnir. Kærandi hafi þá boðist til þess að ráða aðra smiði strax til verksins en Þ hafi neitað því. Kærandi hafi ítrekað kvartað yfir þessari aðstöðu við Þ og hafi auk þess verið í stöðugu sambandi við þá iðnaðarmenn sem Þ hafi ráðið til verksins. Iðnaðarmennirnir hafi lofað öllu fögru en svikið það jafnharðan. Í lok maímánaðar hafi kærandi að nýju átt fund með Þ vegna sinna mála þar sem Þ hafi fullvissað hana um að erfiðleikar samfara flutningunum yrðu brátt að baki. Sumarið hafi svo liðið en lágmarks vinnuaðstöðu hafi ekki verið komið upp fyrr en í lok þess.
Með haustinu hafi kærandi orðið þess áskynja að loforð Þ um að starf hennar sem framkvæmdastjóra yrði óbreytt hafi aðeins verið orðin tóm. Hún hafi í reynd verið svipt framkvæmdastjórastöðunni með því að henni hafi verið gert að leita samþykkis Þ fyrir venjulegum daglegum ákvörðunum. Hún hafi þurft að lúta afskiptum Þ og annarra starfsmanna Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., einkum fjármálastjórans og sölu- og markaðsstjórans, um hvaðeina viðkomandi daglegum rekstri félagsins. Þ hafi gert kröfu til þess að við endurnýjun bifreiðar sem hún hafði haft til afnota yrði keypt bifreið af mun ódýrari gerð. Vegna þessa hafi kærandi gengið á fund Þ í lok nóvember 2006 í því augnamiði að semja við hann um hugsanleg starfslok. Þau hafi svo aftur fundað um málið þann 2. desember án þess að komast að niðurstöðu enda hafi Þ talið sig þurfa að ræða málið við aðra eigendur félagsins. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið nein svör frá Þ á jólaföstunni og hafi ekki átt fund með honum fyrr en 29. desember. Þ hafi á þeim fundi ekki haft neitt nýtt fram að færa enda hafi hann sagst hafa auglýst eftir nýjum starfsmanni og að umsóknarfrestur rynni út 2. janúar 2007. Fyrsta vika janúarmánaðar hafi liðið án þess að Þ kæmi að máli við kæranda og hafi hún því sinnt störfum sínum áfram. Föstudagsmorguninn 5. janúar 2007 hafi kærandi fyrirhugað að skrifa undir mikilvægan viðskiptasamning en þá hafi borið svo við að fjármálastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi krafist þess að fylgja henni og við undirskrift samningsins hafi hann hrifsað hann til sín og undirritað hann sjálfur. Eftir hádegið hafi kærandi rætt enn og aftur árangurslaust við Þ um sín mál.
Kærandi hafi í kjölfarið tekið sér frí frá störfum og falið lögmanni að freista þess að ná samkomulagi við stjórnarformann Kornax ehf. um ásættanleg starfslok. Gerð hafi verið drög að starfslokasamningi þar sem lagt hafi verið til að kærandi myndi láta af störfum hjá Kornaxi ehf. 15. janúar 2007, hún fengi laun í þrjá mánuði og myndi aðstoða við að koma nýjum starfsmanni inn í hin ýmsu verkefni. Engin viðbrögð hafi hins vegar orðið við þeirri tillögu. Loks hafi henni verið tilkynnt óformlega af fjármálastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. að Kornax ehf. liti svo á að hún hefði látið af störfum og að henni yrði einungis greitt samkvæmt tímagjaldi fyrir að setja nýja menn inn í störf sín.
Kornaxi ehf. hafi verið sent bréf þann 20. febrúar 2007 þar sem fram kom að kærandi teldi sig enn vera framkvæmdastjóra félagsins enda væri hún ennþá skráð sem slíkur hjá hlutafélagaskrá og bæri ábyrgð samkvæmt því, auk þess sem að ráðningarsamningi við hana hefði ekki verið slitið fyrir uppsögn skv. 11. gr. hans. Þá hafi Kornaxi ehf. enn fremur verið tilkynnt að kærandi rifti ráðningarsamningnum og léti þar með af störfum fyrir félagið. Loks hafi komið fram að kærandi teldi sig samkvæmt almennum reglum vinnuréttar eiga rétt á launagreiðslum á uppsagnarfresti eða til loka ágústmánaðar 2007, auk orlofsgreiðslna og greiðslna fyrir umsamin hlunnindi.
Lögmaður Kornax ehf. hafi, fyrir hönd félagsins, hafnað öllum kröfum kæranda og væntanlega verði tekist á um það fyrir dómstólum hvort kærandi eigi rétt á launum í uppsagnarfresti án þess að hafa látið vinnuframlag af hendi á sama tíma og hvort uppsagnarfrestur teljist hafa hafist frá og með 1. mars 2007 eða á fyrra tímamarki. Með kærunni vilji hún hins vegar afla álits kærunefndar jafnréttismála á því hvort nefndin telji að kærandi hafi þurft að sæta beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis í vinnuskilyrðum hjá Kornaxi ehf., sbr. 24. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í því sambandi sé einkum vísað til þeirra stöðubreytinga sem hafi orðið um sumarið 2006 í kjölfar flutnings Kornax ehf. frá sjálfstæðri starfsstöð til höfuðstöðva móðurfélagsins og síðan þeirrar afstöðu Kornax ehf. að ljá ekki máls á því að gera sérstakan starfslokasamning við kæranda eftir að í ljós hafi komið að kærandi vildi láta af störfum fyrir félagið.
Kærandi telur kynferði hennar hafi ráðið því að Þ, stjórnarmaður Kornax ehf. og framkvæmdastjóri móðurfélaga þess, hafi í reynd skipað málum hennar þannig að hann og fjármálastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi tekið yfir störf hennar sem framkvæmdastjóri Kornax ehf. um haustið eða í byrjun vetrar 2006 og þar með skipað henni í undirmannsstöðu. Kærandi telur að forráðamenn Kornax ehf. hafi þegar ákveðið þá skipan við yfirtöku Gera ehf. og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. á félaginu án þess að skýra kæranda frá því. Kærandi telur að ef karlmaður hefði gegnt starfi framkvæmdastjóra Kornax ehf. við yfirtökuna hefði framganga forráðamanna félaganna verið með öðrum hætti. Telur kærandi að þeir hefðu sérstaklega fundað með framkvæmdastjóranum og upplýst hann um að ætlun þeirra væri að Þ skyldi gegna framkvæmdastjórastarfinu samhliða framkvæmdastjórastörfum fyrir Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. Karlmanni hefði síðan verið boðið að taka við undirmannsstöðu hjá félögunum eða láta ella af störfum og í því tilviki hefði honum verið boðið að hverfa frá framkvæmdastjórastarfinu með fullri reisn og við hann hefði verið gerður sérstakur starfslokasamningur.
Í því sambandi vísar kærandi til víðtekinnar venju á Íslandi við starfslok framkvæmdastjóra í félögum sem hafa sambærileg umsvif og Kornax ehf. Efnislega telur kærandi þá venju vera að þegar framkvæmdastjóri, sem gegnt hafi framkvæmdastjórastöðu um nokkurn tíma, láti af störfum að eigin ósk sé honum ekki gert að vinna að fullu umsaminn uppsagnarfrest heldur sé um það samið að hann haldi launum á uppsagnarfresti, eða a.m.k. hluta hans, gegn því að aðstoða nýjan framkvæmdastjóra eftir þörfum á því tímabili.
Í andmælabréfi Kornax ehf. komi fram að í framhaldi af kaupum Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. á Kornaxi ehf. hafi verið teknar upp viðræður um hvernig styrkja mætti rekstur þess félags og ná aukinni hagkvæmni í sameiginlegum rekstri þessara tveggja félaga. Kærandi kannist ekki við að hafa tekið þátt í slíkum viðræðum. Þess hafi þó verið farið á leit við hana að hún samþykkti lækkun í tign innan fyrirtækjasamsteypunnar og að hún fengi sambærilega bifreið og fjármálastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hefði til afnota.
Að mati kæranda hafi það sérstaka þýðingu við úrlausn málsins að benda á að aðeins hafi einn stjórnarfundur verið haldinn í Kornaxi ehf. á árinu 2006 þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að halda þá mánaðarlega. Eðlileg samskipti framkvæmdastjóra við stjórn hafi því fljótlega verið úr sögunni og kæranda þess í stað gert að bera mál upp við Þ einan.
Það sé athyglisvert að í andmælabréfi Kornax ehf. sé vísað til sameiginlegs rekstrar Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. og Kornax ehf., en þó sé vísað til þess að starfsemi félaganna skarist aðeins að takmörkuðu leyti. Kærandi hafi litið svo á, eftir að hafa hafnað hugmyndum Þ um stöðulækkun, að hún væri áfram sjálfstæður framkvæmdastjóri Kornax ehf. Greinilegt sé hins vegar að forráðamenn Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi eftir kaup á Kornaxi ehf. litið á rekstur félaganna sem sameiginlegan undir stjórn Þ. Sú afstaða hafi því ein og sér falið í sér vanefnd á ráðningarsamningi við kæranda og heimilað henni riftun vinnusamningsins eftir almennum reglum vinnuréttar. Í kærumáli þessu leiti kærandi hins vegar eftir staðfestingu á því að í framgöngu forráðamanna Kornax ehf. gagnvart sér hafi einnig falist mismunun eftir kynferði. Að áliti kæranda hafi Kornax ehf. ekki sýnt fram á með andmælabréfi sínu að svo hafi ekki verið.
Kærandi leggi áherslu á að starfslok hennar hafi óumflýjanlega verið afleiðing af þeirri háttsemi forráðamanna Kornax ehf. að svipta hana í raun framkvæmdastjórastarfinu. Kærandi hafi ítrekað reynt að fá Þ og síðan stjórnarformanninn K til að ganga frá starfslokum með hætti sem báðir aðilar hafi getað sætt sig við. Eftir að kærandi hafi talið alveg fullreynt að fá Þ að samningaborðinu hafi hún falið lögmanni sínum að stilla kröfum mjög í hóf í drögum að starfslokasamningi sem hann hafi gert. Viðbrögð forráðamanna Kornax ehf. staðfesti hins vegar að hugur þeirra hafi staðið til þess að þreyta kæranda til uppgjafar eftir að hún sætti sig ekki við að verða gerð að undirmanni framkvæmdastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. Að mati kæranda hefur Kornax ehf. með andmælabréfi sínu ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi valdið þessari breytni.
Rétt sé að vekja athygli kærunefndarinnar á því að í athugasemdum frá Kornaxi ehf. komi fram viðurkenning á nokkrum atriðum sem kærandi telur benda til að kynferði hennar hafi valdið því að hún hafi í reynd verið skipað í undirmannsstöðu um haustið eða byrjun vetrar 2006 og að henni hafi ekki verið gefinn kostur á að gera sérstakan starfslokasamning er hún kaus að láta af störfum vegna þessa. Í fyrsta lagi sé viðurkennt að framkvæmdastjóri móðurfélagsins hafi tekið að sér að vera „í forsvari af hálfu eigenda“ gagnvart kæranda og þar með skipað sér í stöðu yfirmanns hennar þrátt fyrir að hún væri ráðinn framkvæmdastjóri Kornax ehf. Í öðru lagi sé viðurkennt að framkvæmdastjóri móðurfélagsins hafi einhliða ákveðið breytingar á skrifstofuhaldi Kornax ehf. og grundvallarstörfum kæranda, án þess að hún hafi verið höfð með í ráðum og því lýst að markmið þeirra breytinga hafi verið að losa kæranda undan „daglegum rútínustörfum“, en ákvarðanir um skipan slíkra starfa teljist vera venjuleg framkvæmdastjórastörf, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Í þriðja lagi sé viðurkennt að framkvæmdastjóri móðurfélagsins hafi ekki samþykkt að kærandi fengi áfram sambærilega bifreið til afnota og hún hafði áður haft.
Varðandi þá fullyrðingu í andmælabréfi Kornax ehf. að kærandi hafi skýrt „ósk um starfslok fyrir stjórnendum Kornax ehf. með því að persónulegar aðstæður hafi kallað á meiri viðveru á heimili“ sé vísað til athugasemda kæranda sem fylgdu með bréfi til kærunefndar, dags. 19. október 2007. Þar sé skýrt hvers vegna kærandi og framkvæmdastjóri móðurfélagsins hafi ákveðið að hafa þann hátt á við upplýsingagjöf til starfsfólks. Þrátt fyrir að aðrar ástæður en þörf á meiri „viðveru á heimili“, hafi þannig legið að baki þeirri ósk kæranda að láta af störfum sé rétt í því sambandi að vekja sérstaka athygli á ákvæði 16. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
Kærandi telur að Kornax ehf. hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðunum félagsins, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Þvert á móti telur kærandi að kynferði hennar hafi ráðið því að framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi í reynd verið látnir taka yfir framkvæmdastjórastarf hennar hjá Kornaxi ehf. og að henni hafi ekki verið gefinn kostur á að láta af störfum með fullri reisn og henni greidd laun út uppsagnarfrest án þess að þurfa að sinna daglegri vinnuskyldu á þeim tíma þegar framkvæmdastjórastarf hennar hafi í raun verið lagt niður.
IV.
Sjónarmið Kornax ehf.
Í umsögn Kornax ehf. um kæruna segir að félagið mótmæli því mjög einarðlega að það hafi í nokkru hallað á rétt kæranda, hvað þá að það hafi látið hana gjalda kynferðis síns eins og ítrekað sé haldið fram í kæru, bréfum og greinargerðum sem frá kæranda stafi. Efnisatriði kærunnar gefi hins vegar fullt tilefni til andsvara og hljóti þau að miðast við kæruefnið sem í reynd sé tvíþætt. Kærandi krefjist annars vegar viðurkenningar á því að endurskipulagning á skrifstofuhaldi Kornax ehf. sem gripið hafi verið til í framhaldi af kaupum Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. á fyrirtækinu hafi falið í sér röskun á stöðu framkvæmdastjóra, slíka að karlmanni hefði ekki verið boðið upp á slíkt. Hins vegar krefjist kærandi viðurkenningar á því að synjun kærða á að greiða kæranda laun án vinnuframlags í þrjá mánuði eftir starfslok, sem ákvörðuð hafi verið að hennar eigin ósk, hafi byggst á kynferði hennar en ekki eðlilegum skilningi á réttindum aðila við starfslok við slíkar aðstæður.
Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. hafi frá upphafi verið meðal eigenda Kornax ehf.sem eigi og reki hveitimyllu við Sundahöfn í Reykjavík. Sameigendur félagsins hafi annars vegar verið danski hveitiframleiðandinn Valsemöllen og hins vegar aðalsamkeppnisaðili Mjólkurfélagsins, Fóðurblandan hf. Samkeppnisyfirvöld hafi látið í ljós að þeim þætti óheppilegt frá sjónarmiði um samkeppni hversu víðtækt samstarf væri með þessum tveimur langstærstu seljendum kjarnfóðurs hér á landi.
Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. og Fóðurblandan hf. hafi talið efni til að taka þessar ábendingar alvarlega og svo hafi farið að Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. keypti alla hluti í Kornaxi ehf. fyrir milligöngu Gera ehf. og hafi þau viðskipti orðið virk þann 31. desember 2005. Var Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. frá þeim tíma eitt eigandi að Kornaxi ehf. Tók þá Þ framkvæmdastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. sæti í stjórn en stjórnarformaður hafði verið og var áfram K, formaður stjórnar Mjólkurfélags Reykjavíkur hf.
Hveitimylla Kornax ehf. hafi verið staðsett á lóðinni nr. 11 við Korngarða en starfsemi Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. sé aðallega á lóðunum nr. 5, 7 og 8. Starfsemi beggja fyrirtækjanna sé þannig á sama reit við Sundahöfn í Reykjavík en skrifstofurnar hvorar í sínu húsinu.
Í framhaldi af kaupum Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi verið teknar upp viðræður við framkvæmdastjóra félagsins um það hvernig styrkja mætti rekstur þess og ná aukinni hagkvæmni í sameiginlegum rekstri þessara tveggja félaga. Starfsemi félaganna skarist aðeins að takmörkuðu leyti þar sem markaðsstarf Kornax ehf. snúi að allt öðrum viðskiptamönnum en Mjólkurfélagsins. Annars vegar sé um að ræða þjónustu við bakarí og sölu í verslanir á neytendavöru en hins vegar sölu á kjarnfóðri og öðrum vörum til skepnuhalds.
Við framangreinda breytingu á eigendahópi Kornax ehf. hafi stjórnendur Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. áréttað sérstaklega að kærandi nyti fyllsta trausts í starfi og lýst áhuga á að styrkja forsendur þess að hún gæti þróað félagið lengra á þeirri braut sem hún hafði lýst, það er að selja bakaríum og stóreldhúsum fleiri vörur sem tengist nýtingu á hveitinu. Jafnframt hafi verið rætt hvort ekki yrði mögulegt að samnýta krafta í ýmsum þáttum stoðþjónustu, svo sem við bókhald, launaútreikninga og þess háttar. Jafnframt hafi blasað við að samstæðan hlyti að stýra fjármálum þannig að sem best kjör fengjust hjá lánastofnunum. Allt hafi þetta verið breytingar sem kærandi hafi stutt enda hafi þær miðað að því að gefa henni aukið svigrúm til að sinna uppbyggingu félagsins og mikilvægustu viðskiptatengslum. Hafi verið talið að um þetta væri full samstaða við framkvæmdastjórann enda hennar hlutverk að semja um þá þjónustuþætti sem henni þóttu henta við móðurfélagið. Því sé mótmælt öllum fullyrðingum um að í þessu hafi falist breyting á stöðu framkvæmdastjórans sem hann hafi ekki mátt sætta sig við.
Kærandi virðist enn fremur byggja á því að í því hafi falist sérstök ávirðing að Þ, stjórnarmaður í Kornaxi ehf., skyldi aðallega koma fram fyrir hönd stjórnarinnar í daglegum samskiptum við kæranda. Er því mótmælt að framangreind verkaskipan meðal stjórnarmanna Kornax ehf. hafi falið í sér breytingu á stöðu framkvæmdastjórans eða verið til þess fallin að lækka hana í tign eins og látið sé í veðri vaka í kærunni og gögnum sem henni fylgja.
Þá sé því enn fremur mótmælt að tafir á endurbótum á skrifstofu vegna vel þekktrar vöntunar á iðnaðarmönnum hafi falið í sér sérstakt og kynbundið áreiti við kæranda. Hið rétta sé að ákvörðun hafi verið tekin um að endurnýja skrifstofur, meðal annars til að skapa betri vinnuaðstæður fyrir starfsfólk sem vinni að stoðþjónustu fyrir bæði fyrirtækin. Jafnframt var ætlunin að skapa haganlegra og skemmtilegra skrifstofurými fyrir kæranda þar sem hún fengi notið nálægðar við fleira fólk og hefði greiðan aðgang að stoðþjónustu félaganna. Þessar tafir hafi komið niður á öllum starfsmönnum án tillits til kynferðis og fráleitt að halda því fram að í þessu ferli hafi falist sérstök meinbægni gagnvart kæranda.
Að endingu geri kærandi mikið úr því að þegar hún hafi lýst áhuga á að endurnýja bifreið sem hún hafði haft til afnota þá hafi fulltrúi stjórnar Kornax ehf. lýst því yfir að rétt væri að skoða ódýrari tegund en hún hafði haft til afnota. Engin mörk væru sett í þessu efni en til þess horft að jeppabifreið sú sem hún hafði haft til afnota hafði hækkað verulega og að mati stjórnarmannsins umfram það sem almennt væri. Engin ákvæði hefðu verið í ráðningarsamningi framkvæmdastjórans um það hvers konar bifreið hún ætti að fá til afnota; eingöngu að hún þurfi staðfestingu stjórnarformanns fyrir ákvörðun þar um. Því sé því afdráttarlaust mótmælt að brotinn hafi verið réttur á henni með tilmælum um að hún leitaði að ódýrari bifreið en þeim sem hún var á og fráleitt að telja að í því hafi falist kynbundin mismunun.
Kornax ehf. hafnar þannig öllum fullyrðingum kæranda um að hún hafi mátt þola breytingar á stöðu sinni slíkar að ekki fái samrýmst stöðu framkvæmdastjóra. Almennt sé viðurkennt að það séu rekstrarlegar ákvarðanir að hvaða marki fyrirtæki kjósa að útvista rekstrarverkefnum á borð við það sem Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. tók að sér fyrir Kornax ehf. Þótt slíkar ákvarðanir geti eðlilega leitt til fækkunar starfsmanna á launaskrá þá breyti þær ekki stöðu framkvæmdastjóra, hún ráðist ekki af fjölda undirmanna heldur umsvifum, ábyrgð og árangri.
Krafa kæranda um greiðslur eftir starfslok virðist byggð á þeim misskilningi að hefð hafi mótast fyrir því að framkvæmdastjórar fái hætt störfum en fái allt að einu greidd laun í tíma sem svari til umsamins uppsagnarfrests. Virðist kærandi byggja kröfu sína á því að slík hefð sé svo rík að jafna megi henni til bindandi réttarreglu og telji jafnframt að ástæða þess að hún hafi ekki fengið samning um slíkar greiðslur hafi ráðist af kynferði hennar.
Kornax ehf. mótmælir þessum málflutningi sem rakalausum. Réttarsamband félagsins og kæranda byggi á ráðningarsamningi þeirra í milli, þar sem skýrt sé tekið fram að framkvæmdastjórinn eigi rétt til launa út uppsagnarfrest ef hann hætti störfum og vinnuframlag hans sé afþakkað. Þetta ákvæði sé í samræmi við viðurkenndar grunnreglur vinnuréttarins. Vera megi að kærandi hafi misskilið fréttaflutning af starfslokagreiðslum stjórnenda og ályktað ranglega sem svo að karlkyns framkvæmdastjórar séu almennt leystir út með starfslokasamningi sem færi þeim ríflegar launagreiðslur eftir starfslok. Sú ályktun sé a.m.k. ósönnuð og að mati kæranda efnislega röng. Hitt sé ugglaust rétt að fyrir komi að fyrirtæki afþakki vinnuframlag framkvæmdastjóra út uppsagnarfrest þegar hann segi upp með samningsbundnum fyrirvara, en í því tilviki eigi hann rétt til greiðslna út umsamið tímabil enda eigi vinnuveitandinn val um það hvort hann nýti starfskrafta hans þann tíma eður ei.
Aðstæður kæranda séu alls ekki með þessum hætti. Hún hafi þvert á móti leitað mjög eindregið eftir því sjálf í lok nóvember 2006 að fá að hætta störfum hið allra fyrsta og án þess að vinna út uppsagnarfrest sinn. Að höfðu samráði við aðra stjórnarmenn í Kornaxi ehf. hafi Þ fallist á ósk hennar um að fá að láta af störfum án þess að vera bundin af umsömdum uppsagnarfresti. Hafi þetta verið niðurstaða af fundi hans og kæranda þann 1. desember 2006. Þar hafi orðið um það samkomulag að kærandi léti af störfum sem framkvæmdastjóri Kornax ehf. um áramótin sem í hönd fóru en myndi aðstoða við frágang og yfirfærslu verkefna á vikunum þar eftir. Þessi niðurstaða hafi verið algerlega skýr og hafi kærandi boðað til starfsmannafundar hjá Kornaxi ehf. þann 4. desember 2006 þar sem hún hafi greint frá því að fallist hafi verið á að hún léti af störfum um áramót og að ástæðan væri sú að hún teldi sig þurfa að sinna börnum sínum meira en verið hafði. Um þessa frásögn beri öllum starfsmönnum Kornax ehf. sem voru á fundinum vel saman.
Þótt þannig hafi verið algerlega skýrt að kærandi hafi sjálf sagt upp störfum og sótt fast að fá að hætta sem fyrst þá virðist hún hafi talið að þrátt fyrir þetta ætti hún kröfu til greiðslna eftir starfslok, án þess að vinnuframlag kæmi fyrir. Þessum hugmyndum hafi forsvarsmenn Kornax ehf. hafnað en áréttað að henni yrði að sjálfsögðu greitt fyrir vinnu sem hún kynni að inna af hendi fyrir félagið eftir að hún léti af störfum framkvæmdastjóra. Til þess hafi meðal annars verið horft að hún hefði gefið fyrirheit um að aðstoða við yfirfærslu verkefna. Minna hafi hins vegar orðið úr því en skyldi þar sem kærandi hafi ekki reynst reiðubúin til að koma til funda eða vinna að þessu þar sem hún hafði þá leitað til lögmanns um að aðstoða hana við að fá fram samning um starfslokagreiðslu.
Í þessu sambandi sé óhjákvæmilegt að víkja að umkvörtun kæranda við því að fjármálastjóri móðurfélags Kornax ehf. skyldi koma með henni til að undirrita viðskiptasamning við stærsta einstaka viðskiptamann félagsins þann 5. janúar 2007. Það hafi þó verið í hæsta máta viðeigandi þegar af þeirri ástæðu að hún hafði látið af starfi framkvæmdastjórans fáeinum dögum fyrr og hafi þannig ekki verið bær til að skuldbinda fyrirtækið. Breyti þar engu þótt dregist hafi úr hömlu að tilkynna hlutafélagaskrá um þessa breytingu. Hitt skipti þó auðvitað ekki síður máli að tryggja verði órofa tengsl við mikilvægustu viðskiptamenn hvers fyrirtækis þegar einstakir starfsmenn láti af störfum. Fyrir þessar sakir hafi verið bæði eðlilegt og nauðsynlegt að fjármálastjórinn kæmi að undirritun samnings við þennan tiltekna viðskiptamann. Umkvartanir kæranda um að henni hafi verið sýnd vanvirðing að þessu tilefni séu því með öllu tilhæfulausar.
Kornaxi ehf. þyki mjög miður að samskipti við kæranda hafi þróast til þess vegar sem kærumál þetta sé til vitnis um. Kærandi hafi látið af störfum framkvæmdastjóra Kornax ehf. þann 31. desember 2006 eins og hennar eigin starfsmenn geti best borið vitni um og þannig staðfest skilning Þ sem hafi annast samskipti við hana vegna óska um starfslok af hálfu stjórnar félagsins. Það sé áréttað í fyrsta lagi að kærandi hafi aldrei hreyft óánægju með stöðu sína eða breytingar á fyrirkomulagi bókhalds- og greiðsluþjónustu sem ákveðin hafi verið til hagræðingar eftir að Lífland hf. eignaðist alla hluti í Kornaxi ehf. í lok árs 2005. Í öðru lagi að breytingar á skrifstofuhaldi hafi haft það meginmarkmið að losa framkvæmdastjórann undan daglegum rútínustörfum svo hann fengi einbeitt sér að þróun og uppbyggingu fyrirtækisins. Í þriðja lagi að fullkomlega eðlilegt sé að framkvæmdastjóri móðurfélags, sem jafnframt sé stjórnarmaður í dótturfélagi, sé í forsvari af hálfu eigenda gagnvart framkvæmdastjóra dótturfélags. Í fjórða lagi að umræða um endurnýjun á bifreið framkvæmdastjóra hafi aldrei komist á lokastig þar sem leigusamningur um bifreiðina hafi gilt fram í ársbyrjun 2007. Framkvæmdastjóranum hafi verið gerð grein fyrir því að hugmynd um að endurnýja með dýrri bifreið þætti ekki góð, enda hafi enginn samningur legið fyrir sem hafi falið í sér fyrirheit um afnot af svo verðmætri bifreið á kostnað félagsins. Í fimmta lagi að kærandi hafi skýrt ósk sína um starfslok fyrir stjórnendum Kornax ehf. með því að persónulegar aðstæður hafi kallað á meiri viðveru á heimili. Þetta hafi framkvæmdarstjórinn einnig sagt við samstarfsmenn sína og séu þeir allir til vitnis um það. Í sjötta lagi að það sé röng ályktun hjá kæranda að við kaup minnihluta eigenda að meirihluta í félagi sé það álitinn sjálfsagður fórnarkostnaður að skipta út stjórnendum. Í sjöunda lagi að það sé röng fullyrðing að við starfslok stjórnenda að þeirra eigin ósk þá séu þeir almennt leystir út með launagreiðslum fram yfir starfslok, þ.e. út það sem vera myndi samningsbundinn uppsagnarfrestur og í áttunda lagi að það sé röng fullyrðing að eitthvað í samskiptum eigenda Kornax ehf. og stjórnenda hafi falið í sér kynbundna afstöðu, hvað þá fordóma eða lítillækkun.
Kornax ehf. kannast þannig ekki við að hafa brotið neinar reglur íslensks réttar, hvorki skráða né óskráða, í samskiptum sínum við kæranda.
V.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkanir, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.
Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við þær breytingar sem gerðar voru á stöðu kæranda við breytingar á eignarhaldi og eftirfarandi skipulagsbreytingar hjá Kornaxi ehf., en kærandi gegndi þar áður framkvæmdastjórastöðu. Vísar kærandi annars vegar til þess að kynferði hennar hafi í reynd ráðið því að karlmenn sem störfuðu fyrir félag, sem varð móðurfélag Kornax ehf. við umræddar breytingar, hefðu tekið yfir verkefni hennar sem framkvæmdastjóri hjá félaginu og þar með skipað henni í undirmannsstöðu, en málum hefði verið háttað öðruvísi ef um karlmann hefði verið að ræða. Þá vísar kærandi til þess að kynferði hennar hefði ráðið því að henni hefði ekki verið gefinn kostur á sérstökum starfslokasamningi í tengslum við ósk hennar um að láta af störfum hjá félaginu, en kærandi telur að málum hefði verið skipað með öðrum hætti ef um karlmann hefði verið að ræða. Vísar kærandi meðal annars til þess víðtekinnar venju þar að lútandi varðandi starfslok framkvæmdastjóra í sambærilegum félögum.
Fyrir liggur að kærandi starfaði hjá Kornaxi ehf. sem framkvæmdastjóri er eignabreytingar urðu á hlutum í félaginu í árslok 2005 sem leiddi til þess að eignarhaldsfélag móðurfélagsins fór eftir það með yfirráð félagsins. Í kjölfarið voru skrifstofur Kornax ehf. fluttar í húsnæði móðurfélags en samhliða urðu breytingar á starfsaðstöðu kæranda, að því er virðist, og einnig að einhverju leyti á starfsumhverfi. Leiddi þetta til þess, að sögn kæranda, að hún hóf viðræður við fyrirsvarsmann eigenda um starfslok sín. Lét kærandi síðar af störfum en um atvik sem leiddu til starfslokana var deilt milli málsaðila.
Í andsvörum sínum til nefndarinnar hefur Kornax ehf. meðal annars vísað til þess að í kjölfar breytinga á eignarhaldi á félaginu hafi verið ákveðið að auka samstarf þess félags og móðurfélags með það fyrir augum að samnýta stoðþjónustu og draga úr kostnaði. Þannig hafi til dæmis verið með bókhalds- og fjármálaþjónustu. Kærandi hafi starfað áfram sem framkvæmdastjóri Kornax ehf. og af þessu hafi ekki leitt meiri breytingar á starfsskyldum kæranda en sem kærandi hafi mátt sætta sig við. Kærandi hafi síðar af persónulegum ástæðum leitað eftir breytingu á starfsskyldum sínum eða jafnvel eftir starfslokum, en kærandi hafi síðan um áramót 2006/2007 látið af störfum hjá félaginu.
Af framansögðu er ljóst að verulegar breytingar urðu á starfsemi fyrirtækis þess sem kærandi starfaði hjá í byrjun árs 2006. Leiddi þetta til þess meðal annars að skrifstofur félagsins voru fluttar í starfsstöð móðurfélags og starfsemi félagsins var sameinuð starfsemi þess félags að hluta til. Ekki verður annað ráðið en að í þessar breytingar hafi verið ráðist í hagræðingarskyni. Almennt verður að játa eigendum fyrirtækja og atvinnurekendum við þessar aðstæður allnokkuð svigrúm við endurskipulagningu starfseminnar og við ákvörðun framtíðarskipan hennar.
Ljóst er að breytingar á eignarhaldi á fyrirtækjum, sameining þeirra eða aðrar sambærilegar breytingar, leiða gjarnan til breytinga á stöðu starfsmanna, ekki hvað síst yfirmanna og þeirra sem gegnt hafa stjórnunarstöðum. Verður ekki annað ráðið en að breytingar á starfsumhverfi kæranda og starfsskyldum eftir atvikum hafi verið að rekja til umræddra ástæðna og hafi ekki tengst kynferði hennar sérstaklega. Er þá m.a. haft í huga að sá karlmaður sem kærandi telur að við breytingarnar hafi orðið yfirmaður sinn var í fyrirsvari fyrir móðurfélag Kornax ehf. og gegndi að því er virðist lykilstöðu gagnvart eigendum félaganna.
Fallast má á það með kæranda að nokkuð tíðkist við breytingar, slíkar sem að framan er lýst, að gerðir séu svokallaðir starfslokasamningar, en hér er þá átt við að samið sé við starfsmenn um starfslok gegn greiðslum eða á kjörum sem ekki verða beint leidd af gildandi ráðningarsamningum. Á hinn bóginn verður ekki fallist á að um slíka venju sé að ræða að líta megi svo á að starfsmenn eigi almennt kröfu til slíkra samninga við starfslok og enn síður að venja nái til tiltekinna réttinda í þessu sambandi. Telja verður að slíkt ráðist af atvikum í hverju tilviki og aðstæðum að öðru leyti. Með vísan til atvika máls þessa og aðdraganda þess að til starfsloka kom er það álit kærunefndar jafnréttismála að ekki liggi fyrir að kynferði kæranda hafi ráðið því sérstaklega að ekki kom til þess að gerður var sérstakur starfslokasamningur.
Að öllu framangættu þykir ekki sýnt að brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við breytingar á stöðu kæranda hjá Kornaxi ehf. eftir breytingar á eignarhaldi á félaginu á árinu 2006 eða í tengslum við starfslok kæranda hjá félaginu.
Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.
Andri Árnason
Ragna Árnadóttir
Ása Ólafsdóttir