Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 104/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 104/2017

Miðvikudaginn 31. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 23. febrúar 2017, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. nóvember 2016 um annars vegar endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta áranna 2014 og 2015 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 2014 og 2015. Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. nóvember 2016, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hennar á árunum 2014 og 2015 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi var jafnframt krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 16. mars 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. apríl 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. apríl 2017. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 18. maí 2017, og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. maí 2017. Viðbótargreinargerð barst frá stofnuninni með bréfi, dags. 30. júní 2017, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2017. Athugasemdir kæranda við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar bárust með bréfi, dags. 17. júlí 2017, og voru þær kynntar stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag.

Tryggingastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2017, að mál hennar hefði verið tekið fyrir hjá samráðsnefnd um ofgreiðslur og kröfur. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að ráðlegging um að dreifa lífeyrissjóðstekjum sem kærandi fékk á árinu 2015 hafi verið mistök sem hafi haft í för með sér að réttindi kæranda á árinu 2014 hafi lækkað um X kr. eða X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Vegna þessara mistaka hafi því verið ákveðið að fella niður ofgreiðslukröfuna sem því næmi.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins vegna tekjutengdra bóta á árunum 2014 og 2015 verði látinn niður falla og tekið verði mið af niðurstöðu útreiknings starfsmanns Tryggingastofnunar ríkisins.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins frá árinu 2007, fyrst á endurhæfingarlífeyri og síðan á örorkulífeyri. Hún hafi verið á svokölluðum „strípuðum“ greiðslum, þ.e. hún hafi ekki haft neinar aðrar tekjur en frá stofnuninni. Hún hafi aldrei sótt um í lífeyrissjóðum því að hún hafi ekki búist við að eiga réttindi þar vegna stopullar atvinnuþátttöku hennar af heilsufarsástæðum áður en endanlegt örorkumat lá fyrir.

Við endurmat á örorku kæranda árið 2014 hafi stofnunin gert þær kröfur að hún myndi kanna réttindi sín í lífeyrissjóðum og sækja um hjá þeim áður en umsókn hennar um endurmat yrði afgreidd. Í ljós hafi komið að kærandi átti lítilleg réttindi í fimm til sex lífeyrissjóðum.

Árið 2015 hafi hún svo fengið tiltölulega háar greiðslur frá fyrrgreindum lífeyrissjóðum. Skýring þess hafi verið sú að sjóðirnir greiddu allt að fjögur ár aftur í tímann með eingreiðslu. Þetta hafi verið áunnin réttindi hennar fyrir árin 2012 til 2015 og hún hafi ekki gert sér grein fyrir að hún ætti þess réttindi. Tryggingastofnun ríkisins reikni þessar eingreiðslur sem tekjur fyrir það ár sem þær séu inntar af hendi, þ.e. árið 2015. Við það hafi mánaðarlegar greiðslur hennar frá stofnuninni hrapað umtalsvert eða úr X kr. í X kr.

Á grundvelli gagna frá lífeyrissjóðunum um greiðslur til kæranda og sundurliðun þeirra hafi starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins farið í gegnum vinnslu og mat á því hvað væri hagstæðast fyrir kæranda að gera til að tryggja rétt sinn. Með bréfi, dags. 26. janúar 2016, hafi starfsmaðurinn ráðlagt kæranda að bíða með að fara fram á leiðréttingu á meðferð stofnunarinnar á eingreiðslunum þar til álagning ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2015 lægi fyrir. Eftir að álagningarseðill ríkisskattstjóra hafi borist kæranda um mitt ár 2016, þá hafi kærandi kært álagninguna og óskað eftir dreifingu tekjuskattsins á árin 2012 til 2015. Í framhaldi af því hafi kærandi óskað eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin endurreiknaði tvö ár aftur í tímann, þ.e. árin 2014 og 2015.

Niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. nóvember 2016, um endurreikning og uppgjör hafi verið gjörólík fyrri útreikningi starfsmanns stofnunarinnar. Kærandi hafi andmælt niðurstöðunni og óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir útreikningnum. Þar hafi kærandi komist að því að starfsmaðurinn hafi hætt störfum hjá stofnuninni og nýr tekið við málinu. Hann hafi ekki getað útskýrt fyrir kæranda þann gífurlega mun sem væri á útreikningi starfsmannsins og útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins. Starfsmaður Tryggingastofnunar hafi reiknað út að um inneign að fjárhæð að minnsta kosti X kr. væri að ræða en stofnunin hafi reiknað út að um væri að ræða skuld að fjárhæð rúmlega X kr. Kærandi hafi farið fram á að sendar yrðu allar upplýsingar og útskýringar um það á hvaða forsendum hinar ólíku niðurstöður væru byggðar. Þær upplýsingar hafi aftur á móti aldrei borist. Því sé ekki annað í stöðunni en að kæra niðurstöðu stofnunarinnar.

Kærandi getur þess að áunnin lífeyrisréttindi hennar séu rúmlega X kr. á mánuði eftir útreikninginn. Það breyti engu fyrir kæranda því að Tryggingastofnun ríkisins skerði greiðslur til hennar um nánast sömu fjárhæð. Því séu heildartekjur hennar þær sömu fyrir og eftir lífeyrisútreikninginn eða rúmlega X kr. á mánuði. Áunnin lífeyrisréttindi hennar nýtist henni því ekki sem hærri tekjur heldur fari þau beint til stofnunarinnar þar sem stofnunin lækki greiðslur til hennar á móti um sömu fjárhæð.

Á þeim grundvelli fari kærandi fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála felli niður endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. nóvember 2016, og að útreikningur samkvæmt bréfi fyrrgreinds starfsmanns, dags. 26. janúar 2016, verði látinn standa óhaggaður.

Í athugasemdum kæranda frá 18. maí 2017 kemur fram að ekki sé dregið í efa að stofnunin hafi lagagreinar til að vísa í varðandi útreikning tekjutengdra bóta og hafi fylgt þeim í einu og öllu. Aftur á móti útskýri það ekki þann óheyrilega mun á útreikningi á dreifingu lífeyrisgreiðslna árin 2014 og 2015 sem komi fram í bréfi fyrrgreinds starfsmanns annars vegar og niðurstöðu stofnunarinnar hins vegar.

Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við það hvernig útreikningur starfsmannsins hafi verið gerður tortryggilegur líkt og um hafi verið að ræða starfsmann sem hafi ekki vit á eða kunnáttu til að fjalla um þessi mál. Um sé að ræða gamalreyndan starfsmann sem hafi margra ára reynslu í þessum málum. Það sé því ekki sannfærandi röksemdarfærsla að efast um trúverðugleika og réttmæti niðurstöðu starfsmannsins án þess að fara í saumana á því hvernig sú niðurstaða sé fengin.

Í greinargerð stofnunarinnar sé vitnað í þrjú bréf sem hafi verið send kæranda á árunum 2015 og 2016. Í fyrsta lagi sé um að ræða bréf, dags. 11. maí 2015, vegna greiðsluáætlunar, í öðru lagi bréf, dags. 21. júní [2016], vegna uppgjörs ársins 2016 og í þriðja lagi bréf, dags. 29. nóvember [2016], vegna ákvörðunar stofnunarinnar í máli þessu. Skemmst sé frá því að segja að tvö fyrrnefndu bréfin hafi aldrei borist til kæranda.

Í bréfi, dags. 11. maí 2015, sé tilgreind skuld kæranda vegna ofgreiðslu tekjutryggingar og heimilisuppbótar vegna tímabilsins janúar til maí 2015 að fjárhæð X kr. Í bréfi, dags. 21. júní 2016, sé gefinn upp endurreikningur alls ársins 2015 þar sem fylgi með „samanburður greiðslna og réttinda“ með sundurliðun á greiðslutegundum. Misræmis gæti þar sem í sundurliðun tekna séu X kr. tilgreindar sem „Áður greitt vegna 2015“ en í bréfinu séu X kr. tilgreindar sem „Heildargreiðslur á árinu 2015“. Ekki sé gerð viðhlítandi grein fyrir þessu misræmi í bréfinu. Aftur á móti sé fjárhæðin vegna réttinda ársins 2015 sú sama í bréfi og sundurliðun, þ.e. X kr. Kærandi telji þó enn undarlegra að sjá reiknaða skuld að fjárhæð X kr. frá fyrri hluta árs 2015 endurtekna í endurútreikningi þegar allt árið 2015 sé tekið saman. Hin meinta skuld hljóti að vera innifalin í þeim útreikningi og þar með ætti skuldin að falla niður.

Í bréfi, dags. 29. nóvember 2016, komi fram enn undarlegri útreikningar fyrir árið 2015. Þar hækki fjárhæðin á endurreiknuðum réttindum frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árið 2015 samkvæmt skattframtali ársins 2016 úr X kr. í X kr. Það sé mismunur að fjárhæð X kr. kæranda í vil. Aftur á móti sé tilgreind fjárhæð heildargreiðslna ársins 2015 ekki rétt því að greiðslur til kæranda frá stofnuninni hafi samkvæmt bæði staðgreiðsluyfirliti og greiðsluseðlum ársins 2015 og í útsendum launamiðum ársins 2015 frá stofnuninni aðeins verið X kr. Á þeim grundvelli ætti kærandi að eiga inneign hjá stofnuninni að fjárhæð X kr. áður en tekið sé tillit til staðgreiðslu skatta fyrir árið 2015. Aftur á móti sé endurreikningur og uppgjör ársins 2014 í fullu samræmi við framlögð gögn.

Framangreindar upplýsingar séu byggðar á nýjum gögnum sem aflað hafi verið frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær gefi tilefni til nýs endurreiknings og uppgjörs áranna 2014 og 2015 á þann hátt að fullt tillit sé tekið til hagsmuna kæranda og að réttlát niðurstaða fáist í málinu.

Kærandi ítreki að hún hefði ekki farið fram á dreifingu á lífeyrisgreiðslum sínum fyrir fyrrgreind ár nema í trausti þess að fá hagstæðari útreikning.

Í athugasemdum kæranda frá 17. júlí 2017 segir að útreikningur fyrir árið 2014, þar sem reiknuð sé út skuld hennar við Tryggingastofnun vegna ofgreiðslu þess árs, sé auðskilinn og aðgengilegur út frá þeim upplýsingum sem aflað hafi verið hjá stofnuninni. Aftur á móti sé útreikningur ársins 2015, sem ætti að gefa til kynna inneign hennar, mjög svo undarlegur. Útreikningurinn sé klúðurslegur og óaðgengilegur og líti helst út fyrir að stofnunin sé að innheimta skuld kæranda frá árinu 2014 í tvígang með þessum illskiljanlega útreikningi.

Kærandi ítreki að við endurútreikning og uppgjör Tryggingastofnunar vegna áranna 2014 og 2015 þá verði hún látin njóta vafans, ef einhver sé, og að niðurstöðurnar verði ekki íþyngjandi fyrir hana með vísan í meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta áranna 2014 og 2015.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað teljist til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og honum beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlega upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Þegar kærandi hafi sótt um endurmat á örorku frá 1. október 2014 hafi 52. gr. laga um almannatryggingar verið breytt á þann veg að umsækjanda beri að sækja um áunnin réttindi í lífeyrissjóði og Tryggingastofnun sé heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til upplýsingar þar um liggi fyrir.

Eftir að kærandi hafi byrjað að fá greiðslur úr lífeyrissjóðum hafi verið sent bréf, dags. 11. maí 2015, þar sem fram hafi komið að við reglubundið eftirlit hefði komið í ljós ósamræmi á milli tekna í tekjuáætlun og tekna samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Tekjuáætlunin hafi verið uppfærð og endurreiknuð samkvæmt því. Fram hafi komið í bréfinu að vegna þess muni greiðslur taka breytingum.

Í bréfinu hafi einnig komið fram að greiðslur vegna janúar til og með maí hafi verið ofgreiddar að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ofgreiðslan yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri ársins 2015 sem fari fram haustið 2016.

Í bréfi starfsmanns Tryggingastofnunar, dags. 26. janúar 2016, til kæranda hafi komið fram að með því að fara fram á að ríkisskattstjóri taki upp árin 2012 til 2015 gagnvart greiðslum frá Tryggingastofnun myndu síðustu tvö ár verða endurreiknuð hjá Tryggingastofnun. Þá myndi myndast skuld vegna ársins 2014 en inneign vegna ársins 2015. Mismunurinn verði að minnsta kosti að fjárhæð X kr.

Uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi leitt til X kr. inneignar sem hafi orðið að X kr. inneign þegar tekið hafði verið tillit til staðgreiðslu skatta. Þessi inneign hafi gengið að hluta til upp í X kr. ofgreiðslu sem kæranda hafi verið tilkynnt um með bréfi, dags. 11. maí 2015, og hafi niðurstaða uppgjörsins verið sú að kærandi hafi fengið greiddar út X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Eftir að ríkisskattstjóri hafi samþykkt breytingu á tekjum kæranda hafi uppgjör áranna 2014 og 2015 farið fram að nýju. Niðurstaða endurreiknaðs uppgjörs ársins 2014 hafi verið ofgreiðsla að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta og innborgana sem hafi átt sér stað á grundvelli upphaflegs uppgjörs ársins 2014. Niðurstaða endurreiknaðs uppgjörs ársins 2015 hafi verið inneign að fjárhæð X kr. sem að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi numið X kr. Inneigninni hafi svo verið ráðstafað inn á ofgreiðslu vegna uppgjörs 2014. Með því að inneign vegna uppgjörs ársins 2015 hafi verið greidd inn á ofgreiðslu vegna ársins 2014 hafi ofgreiðslan fyrir árið 2014 lækkað úr X kr. niður í X kr.

Ekki liggi ljóst fyrir á hverju starfsmaður Tryggingastofnunar hafi byggt þá niðurstöðu sína að eftir breytingu hjá ríkisskattstjóra og endurreikning á uppgjörum áranna 2014 og 2015 yrði mismunur að minnsta kosti X kr. Trúlega hafi það byggst á því hversu stór hluti af tekjum ársins 2015 myndi flytjast yfir á árin 2012 til 2014 á móti því að tekjur ársins 2015 myndu lækka og þannig yrði endanleg niðurstaða inneign. Ekki sé þó hægt að fullyrða um það með vissu.

Vakin sé athygli á því að þar sem útreikningur á lífeyrisgreiðslum sé flókinn og byggi á mörgum þáttum geti áætlun starfsmanns stofnunarinnar um væntanleg áhrif fyrirhugaðra tekjubreytinga á útreikningum ekki falið í sér bindandi niðurstöðu. Slík áætlun geti því ekki orðið til þess að það stofnist greiðsluréttur sem gangi framar endanlegri niðurstöðu í uppgjöri.

Tryggingastofnun telji því að niðurstöður uppgjöra áranna 2014 og 2015 hafi verið í fullu samræmi við tekjur kæranda á þessum árum.

Í viðbótargreinargerð stofnunarinnar við athugasemdir kæranda segir varðandi það að kæranda hafi ekki borist bréf, dags. 11. maí 2015, að bent skuli á að við leiðréttingu tekjuáætlunar kæranda hafi mánaðarlegar greiðslur hennar lækkað úr X kr. í X kr. Ekki liggi fyrir upplýsingar um að kærandi hafi gert athugasemdir við þessa breytingu á greiðslum til sín eins og eðlilegt hefði verið ef hún hefði ekki fengið bréfið sent.

Hvað varði misræmi á milli bréfanna „Endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2015“ og „Samanburður greiðslna og réttinda“ þá felist munurinn í því að í fyrra bréfinu séu greiðslur sem hafi verið endurkrafðar með bréfi, dags. 11. maí 2015, innifaldar í fjárhæðinni (X kr.) án frádráttar vegna staðgreiðslu skatta, þ.e. X kr. sem urðu X kr. þegar staðgreiðsla skatta hafði verið dregin frá. Í seinna bréfinu miði fjárhæðin (X kr.) eingöngu við aðrar greiðslur ársins en þær sem bréf, dags. 11. maí 2015, hafði tilkynnt um að væru ofgreiddar. Upplýsingar um ofgreiðsluna að frádreginni staðgreiðslu skatta komi síðan fram neðar í bréfinu.

Sú fullyrðing kæranda að hún hefði átt rétt á inneign að fjárhæð X kr. áður en tekið væri tillit til staðgreiðslu skatta í endurreikningi ársins 2015 sé ekki í samræmi við niðurstöðu endurreikningsins. Niðurstaða fyrri endurreiknings vegna ársins 2015 hafi leitt til inneignar að fjárhæð X kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta sem hafi verið greidd kæranda. Niðurstaða seinni endurreiknings hafi leitt til inneignar að fjárhæð X kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta sem hafi verið greidd inn á ofgreiðslu vegna ársins 2014.

Líkt og niðurstöður endurreiknings beri með sér hafi niðurstaða starfsmanns Tryggingastofnunar ekki verið rétt. Útreikningur á lífeyrisgreiðslum sé flókinn og byggist á mörgum þáttum. Atriði sem hafi veigamikil áhrif á útreikninginn geti auðveldlega farið fram hjá starfsmönnum stofnunarinnar, jafnvel þeim reyndustu. Þetta geti sérstaklega átt við í tilvikum líkt og hjá kæranda þar sem um greiðslu sérstakrar uppbótar vegna framfærslu hafi verið um að ræða og fyrri tekjuupplýsingar hafi verið á þá leið að kærandi hafi ekki haft aðrar tekjur en greiðslur frá stofnuninni. Því hafi ekki verið um það að ræða í fyrri greinargerð stofnunarinnar að reynt hafi verið að gera útreikning starfsmannsins tortryggilegan heldur hafi þar verið bent á að vegna þess hve útreikningur sé flókinn sé það eingöngu endurreikningur á tekjutengdum greiðslum hvers árs sem gefi endanlega niðurstöðu um hver raunverulegur greiðsluréttur ársins hafi verið.

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 3. nóvember 2017 kemur fram að vegna sérstöðu máls þessa hafi málið verið tekið fyrir hjá samráðsnefnd um ofgreiðslur og kröfur. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að ráðlegging um að dreifa lífeyrissjóðstekjum sem kærandi fékk á árinu 2015 hafi verið mistök sem hafi haft í för með sér að réttindi kæranda á árinu 2014 hafi lækkað um X kr. eða X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Vegna þessara mistaka hafi því verið ákveðið að fella niður ofgreiðslukröfuna sem því næmi.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna áranna 2014 og 2015.

Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árunum 2014 og 2015 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Á árinu 2015 fékk hún greiðslur frá lífeyrissjóðum vegna áunninna réttinda fyrir árin 2012 til 2015. Í janúar 2016 fékk hún ráðleggingar frá starfsmanni Tryggingastofnunar um að dreifa lífeyrissjóðstekjunum afturvirkt á rétt ár hjá ríkisskattstjóra. Í ráðleggingunum kemur fram að í kjölfarið myndi Tryggingastofnun endurreikna síðustu tvö ár og þá myndaðist inneign sem næmi að minnsta kosti um X kr. Kærandi gerir kröfu um að útreikningur starfsmanns stofnunarinnar verði látinn standa óhaggaður.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa stofnunina um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Samkvæmt gögnum málsins gerði upphafleg tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2014 ráð fyrir engum tekjum. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2014 reyndust lífeyrissjóðstekjur vera X kr. og tekjur af vöxtum og verðbótum vera X kr. Ástæða ofgreiðslu bóta er því að rekja til vanáætlunar tekna í tekjuáætlun sem var forsenda stofnunarinnar við útreikning og greiðslu bóta á árinu 2014. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga stofnunarinnar og fellst á að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar.

Gögn málsins sýna fram á að tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2015 gerði upphaflega ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2015 reyndust lífeyrissjóðstekjur vera X kr. og tekjur af vöxtum og verðbótum vera X kr. Ástæða vangreiðslu bóta er því að rekja til ofáætlunar tekna í tekjuáætlun sem var forsenda stofnunarinnar við útreikning og greiðslu bóta á árinu 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga stofnunarinnar og fellst á að kærandi hafi fengið vangreiddar bætur að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og endurgreidds fyrra uppgjörs. Samtals var kærandi því í skuld við Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð X kr.

Kærandi var krafin um endurgreiðslu ofgreiddra bóta með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. nóvember 2016. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála var málið tekið fyrir hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar um ofgreiðslur og kröfur. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ráðlegging starfsmanns stofnunarinnar hafi verið mistök. Það hafi haft í för með sér að réttindi kæranda á árinu 2014 hafi lækkað um X kr. eða X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Vegna þessara mistaka ákvað Tryggingastofnun að fella niður ofgreiðsluna sem því næmi. Bréf þess efnis var sent kæranda 3. nóvember 2017. Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu kæranda til ákvörðunar Tryggingastofnunar um niðurfellingu á innheimtukröfunni. Þrátt fyrir ítrekanir bárust ekki svör frá kæranda.

Í ljósi ákvörðunar Tryggingastofnunar um niðurfellingu á innheimtukröfunni er ekki lengur fyrir hendi ágreiningur um ákvörðun Tryggingastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta. Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur því til skoðunar kröfu kæranda um að útreikningar starfsmanns stofnunarinnar frá 29. janúar 2016 verði látinn standa óhaggaður.

Að mati úrskurðarnefndar felur svar starfsmanns Tryggingastofnunar við fyrirspurn bótaþega þar sem fram kemur hugsanleg niðurstaða endurreiknings, ekki í sér bindandi niðurstöðu fyrir stofnunina. Eðli málsins samkvæmt getur slíkt svar ekki byggst á fullnægjandi upplýsingum þar sem skattframtal 2015 lá ekki fyrir á þeim tímapunkti. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir hins vegar athugasemd við að slíkur fyrirvari hafi ekki komið fram í bréfi starfsmannsins. Eins og áður hefur komið fram er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að endurreikningur Tryggingastofnunar vegna áranna 2014 og 2015 sé réttur. Að framangreindu virtu er ekki fallist á þá kröfu kæranda að taka mið af niðurstöðu útreiknings starfsmanns stofnunarinnar frá 29. janúar 2016.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum áranna 2014 og 2015.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árunum 2014 og 2015, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta