Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 292/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 292/2017

Miðvikudaginn 31. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. ágúst 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um annars vegar endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hans á árinu 2016 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfinu var kærandi krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. nóvember 2017, var kæranda tilkynnt um leiðréttingu á endurreikningi tekjutengdra bótagreiðslna hans á árinu 2016. Í bréfinu kemur fram að komið hafi í ljós að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um breytingu á búsetuhlutfalli úr 100% í 78,92% sem gert hafi verið í júlí 2016. Tryggingastofnun hafi því ákveðið að hækka búsetuhlutfall kæranda aftur í 100% frá 1. júlí 2016 til og með 31. desember 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 22. ágúst 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar. Í greinargerðinni kemur fram að þar sem erindi kæranda væri til meðferðar hjá stofnuninni óski stofnunin eftir því að málinu verði vísað frá að svo stöddu. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. ágúst 2017. Með tölvupósti, dags. 4. september 2017, hafnaði kærandi því að málinu yrði vísað frá og með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun. Þann 8. nóvember 2017 bárust athugasemdir frá kæranda vegna bréfs Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. nóvember 2017, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. nóvember 2017.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2017, barst efnisleg greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. nóvember 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, dags. 28. nóvember 2017, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 21. desember 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, dags. 8. janúar 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að innheimtukrafa Tryggingastofnunar verði felld niður.

Í kæru kemur fram að 21. júní 2017 hafi kæranda borist bréf frá Tryggingastofnun þar sem honum hafi verið tilkynnt um að honum bæri að endurgreiða stofnuninni X kr., sem með endurgreiðslu af afdreginni staðgreiðslu að fjárhæð X kr., gerði samtals X kr. Kærandi yrði krafinn um greiðslu á X kr. á mánuði þar til skuldin yrði greidd.

Kærandi geri athugasemdir við kröfuna á eftirfarandi grunni. Hann hafi ekki fengið frá Tryggingastofnun þá útreikninga sem liggi að baki niðurstöðunni. Hann hafi efasemdir um að þær tekjur og kostnaður sem lagður sé til grundvallar útreikningunum sé réttur.

Kærandi hafi 21. júní 2016 fengið tilkynningu frá Tryggingastofnun um að við endurútreikning fyrir árið 2015 hafi komið í ljós að réttmætar bætur fyrir árið 2015 hafi verið X kr. of lágar. Af þessari fjárhæð hafi síðan verið dreginn skattur X kr. þannig að til útborgunar komu X kr.

Samkvæmt skattalögum beri að telja tekjur fram til skatts á því ári sem þær séu greiddar. Því sé það skilningur kæranda að í stofninum sem Tryggingastofnun leggi til grundvallar kröfu sinni á hendur honum séu X kr. tilheyrandi skattstofni ársins 2015. Þær beri að taka til meðhöndlunar þar af skattayfirvöldum. Þetta skekki því álagningu hans fyrir árið 2015. Þar sem kærandi hafi ekki fengið neina athugasemd frá skattstjóra sé það skilningur hans að þessi fjárhæð sé í skattagrunni fyrir árið 2016. Endurútreikningur fyrir árið 2015 sé því tekinn til baka í endurútreikningi fyrir árið 2016. Kærandi spyr hvers vegna sé verið að endurútreikna nema til þess að refsa einstaklingum fyrir flækjustig kerfisins.

Í uppgjöri sem Tryggingastofnun hafi sent inn til skattyfirvalda fyrir árið 2016 séu taldar fram brúttótekjur að fjárhæð X kr., þ.e. útgreiddar bætur og skattur. Samkvæmt greiðsluskjali fyrir desember 2016 séu þessar greiðslur X kr. Hér sé því mismunur að fjárhæð X kr.

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 21. júní 2017 séu réttindi kæranda á árinu 2016 sögð vera X kr. Séu þar með teknar sameiginlegar vaxtatekjur hans og eiginkonu hans. Staðreyndin sé sú að reikningar kæranda hafi skilað X kr. árið 2016 og ætti Tryggingastofnun því að nota þá fjárhæð í uppgjöri sínu. Vegna samsköttunar séu vaxtatekjur hjóna taldar fram á sama skjali. Einnig beri að geta að vaxtatekjurnar beri 20% fjármagnstekjuskatt samkvæmt lögum en reiknireglur Tryggingastofnunar dragi þær frá 100%. Skattprósenta kæranda fyrir skattauppgjör ársins 2016 sé því 120%.

Í bréfinu séu einnig taldar til aðrar tekjur að fjárhæð X kr. Fjárhæðin sé styrkur frá B vegna sjúkraþjálfunar sem kærandi hafi þurft á að halda vegna slits á liðþófa í hægri öxl. Hann hafi í allmörg ár þjáðst af vöðvabólgu í hægri öxlinni og heimsókn til heimilislæknisins hafi endað með röntgenmyndum og heimsókn hjá sérfræðingi sem hafi dæmt öxlina ónýta með öllu. Ef kærandi hefði verið í fullri vinnu þá hefði hann getað notað sjúkrasjóðinn sem greiðslurnar koma frá og aðeins þurft að greiða skatt af þeim samkvæmt skattalögum. Nú þurfi hann að greiða 37,2% skatt auk þess að samþykkja mótreikning í greiðslum frá Tryggingastofnun upp á 100% af upphæðinni. Samanlögð skattheimta fyrir að óska eftir lífi án verkja og eðlilegs svefns á nóttunni sé 137,2%. Það sé heldur djúpt seilst í vasa þeirra sem ekkert eiga.

Í lok árs 2016 hafi kærandi sent inn tekjuáætlun fyrir árið 2017 og á þeim tímapunkti hafi hann verið nokkuð viss um hver niðurstaðan yrði. Hann hafi gert útreikning á heimasíðu Tryggingastofnunar. Samkvæmt upplýsingum á framsendri tekjuáætlun frá stofnuninni sé lífeyrir greiddur fyrsta hvers mánaðar samkvæmt tekjuáætlun 15. dags mánaðarins á undan. Honum hafi aftur á móti borist svar frá stofnuninni 30. desember 2016 með nýrri tekjuáætlun fyrir árið 2017. Þetta sé algjörlega í andstöðu við fyrrnefnda yfirlýsingu.

Kærandi hafi enga möguleika á að fá útskýringar á þessum starfsháttum Tryggingastofnunar. Útreikningur hans hafi ekki verið í samræmi við þá útreikninga sem hann hafi fengið með reiknivél stofnunarinnar. Rangt hafi verið farið með innsendar upplýsingar og því hafi verið enn ríkari ástæða til að fá upplýsingar frá stofnuninni um útreikninga áður en til útborgunar kæmi. Engir af þessum hlutum hafi verið til staðar og því hafi kæranda verið einn vegur fær sem hafi verið að skrifa tölvupóst til forstjóra stofnunarinnar. Að lokum hafi kærandi fengið leiðréttingu sem hafi ekki verið í samræmi við gefnar yfirlýsingar. Hann fái ekki útskýringu á útreikningum og misræmi á milli niðurstöðu úr reiknivél og niðurstöðu réttindasviðs.

Kærandi óski eftir því að geta treyst þeim upplýsingum sem Tryggingastofnun setji fram, en það hafi hann ekki getað hingað til. Hann fari fram á að boðaðar kröfur, sem stofnunin setji fram gagnvart honum, verði dregnar til baka. Hann fari fram á að upplýsingar sem Tryggingastofnun setji fram séu réttar og samkvæmt lögum þannig að kærandi sem móttakandi upplýsinganna geti unnið út frá þeim sem réttum. Hann fari fram á að réttur til andmæla verði virtur af starfsmönnum Tryggingastofnunar og upplýsingar frá stofnuninni verði studdar rökum.

Í athugasemdum kæranda frá 25. nóvember 2017 segir að greinargerð Tryggingastofnunar sé illlæsileg og illskiljanleg og skapi ekki skilning hjá kæranda á stjórnsýslugerðum Tryggingastofnunar. Í greinargerðinni geri stofnunin lítið úr aðgerðum sem varði styrk kæranda til þjónustu sjúkraþjálfara vegna stöðugra verkja í baki og fótum. Styrkurinn hafi komið frá sjúkrasjóði B þar sem kærandi hafi starfað sem [...] eftir aðgerðir á báðum mjöðmum. Tryggingastofnun setji það sem skilyrði fyrir greiðslu örorkubóta að sótt sé um bætur úr lífeyrissjóði en lífeyrissjóðurinn segi að kærandi sé vinnufær og geti því ekki fengið nema 50% af réttindum úr sjóðnum. Kærandi hafi því tekið fyrrnefnt starf frekar en ekkert.

Til að geta sinnt starfinu hafi kærandi þurft að fá aðstoð sjúkraþjálfara. Þegar starfsmaður C fari til sjúkraþjálfara eigi hann rétt á styrk úr sjúkrasjóði B. Hann nemi X kr. fyrir hvern tíma hjá sjúkraþjálfara. Þessi styrkur sé gefinn upp á skattframtali hvers árs og af honum sé reiknaður skattur sem samsvari þeirri skattprósentu sem hver einstaklingur greiði. Það hafi átt við um tilfelli kæranda (39%). Styrkurinn sé einnig dreginn 100% af kæranda í útreikningum Tryggingastofnunar (100% + 39% = 139%). Kæranda sé hér mismunað samkvæmt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Sama gildi einnig um innreikning af vaxtatekjum sem teknar séu að fullu hjá kæranda þrátt fyrir að hann sé kvæntur. Þannig eigi helmingur vaxtatekna að tilheyra eiginkonu hans. Kærandi þurfi bera 100% frádrátt af vaxtagjöldum ásamt 50% af skattgreiðslum vaxtagjalda.

Alla tíð hafi legið fyrir að kærandi hafi búið tæp X ár í D við nám og störf. Hann hafi óskað eftir aðstoð Tryggingastofnunar við umsókn til D en ekki hafi farið mikið fyrir eftirfylgni af hálfu stofnunarinnar kæranda til stuðnings. Hann hafi óskað eftir upplýsingum frá stofnuninni um hvernig þær breytingar, sem gerðar hefðu verið á greiðslum til kæranda um mitt árið 2016, væru tilkomnar. Engin svör hafi verið gefin. Kærandi telur að brotið hafi verið á sér með vísan til upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. III. kafla og 14. gr. laganna.

Tryggingastofnun hafi viðurkennt mistök sín í sambandi við útreikning á bótum og brot á framangreindum lögum. Kærandi telur að mikill vafi leiki á að meðferð stofnunarinnar í málum hans hafi verið eftir góðri stjórnsýslu. Kærandi mælist til þess að úrskurðarnefndin úrskurði honum í hag í öllum þeim atriðum sem kærandi hafi fært fram um samskipti hans og Tryggingastofnunar.

Í athugasemdum kæranda frá 8. janúar 2018 segir að þrátt fyrir að frádráttur styrks hans frá B sé 38,35% en ekki 100% þá sé það jafn mikið brot gegn fyrrnefndri 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hér sé honum gert að greiða 38,35% meira en aðili sem vinni samsvarandi starf hjá C eða öðrum stofnunum.

Samkvæmt skattalögum beri hjónum að telja fram sameiginlegar vaxtatekjur á skattframtali. Þar sem eiginkona kæranda beri ekki bætur samkvæmt almannatryggingalögum sé óréttlátt að færa hennar vaxtatekjur á kæranda þó að skattalögin geri ráð fyrir því. Kærandi vilji meina að hér sé einnig um brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar að ræða.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að stofnunin hafi farið fram á frávísun málsins hjá úrskurðarnefndinni þar sem breyta hafi þurft ákveðnum forsendum sem hafi legið að baki endurreikningi greiðslna ársins 2016 hjá kæranda. Í júlí 2016 hafi búsetuhlutfall kæranda verið lækkað úr 100% í 78,97%. Við meðferð þessa kærumáls hafi komið í ljós að kæranda hafi aldrei verið tilkynnt um þessa lækkun.

Þar sem kæranda hafi ekki verið tilkynnt um lækkað búsetuhlutfall hafi verið litið svo á að um formgalla væri að ræða. Því hafi verið ákveðið að hækka búsetuhlutfall kæranda aftur upp í 100% á tímabilinu júlí 2016 til desember 2017. Eftir leiðréttinguna hafi það verið mat Tryggingastofnunar að efnislegar forsendur kærunnar stæðu enn þó að búið væri að breyta búsetuhlutfalli kæranda.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar skuli til tekna teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað fjármagnstekjur og þar segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2016 hafi kærandi verið með örorkulífeyri og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins hafi leitt til 174.802 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu tekjuupplýsinga úr skattframtali 2017 vegna tekjuársins 2016 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun 11. janúar 2016. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2016 væri kærandi með X kr. í launatekjur, X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í sameiginlegar tekjur þeirra hjóna vegna vaxta og verðbóta. Einnig hafi verið gert ráð fyrir X kr. iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar launatekjum. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi honum verið greitt eftir henni allt árið 2016.

Við bótauppgjör ársins 2016 hafi svo komið í ljós að kærandi hafi verið með X kr. í launatekjur, X kr. í lífeyrissjóðstekjur, aðrar tekjur hafi verið X kr. og X kr. í sameiginlegar tekjur þeirra hjóna vegna vaxta og verðbóta. Einnig hafi kærandi greitt X kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar launatekjum. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu X kr. en hafi átt að fá greitt X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Við meðferð kærumálsins hafi komið í ljós að búsetuhlutfall kæranda hafi verið skert á miðju ári 2016. Því hafi verið breytt um mánaðamótin október og nóvember 2017. Miðað við þær forsendur hafi kærandi átt að fá greitt X kr. Við breytt búsetuhlutfall á árinu 2016 hafi kærandi því átt inni réttindi að fjárhæð X kr. Hluti þeirra réttindi hafi verið nýttur til lækkunar á kröfu úr uppgjöri ársins 2016 en X kr. hafi verið greiddar út. Krafa vegna uppgjör ársins 2016 standi því núna í X kr.

Í kæru komi fram að kærandi vilji fá útskýringar á því af hverju það séu ólíkar fjárhæðir sem komi fram um greiðslur til hans vegna ársins 2016. Því sé rétt að fara yfir framkvæmd Tryggingastofnunar við launamiða- og staðgreiðsluskil til ríkisskattstjóra vegna greiðslna ársins 2016 en hún hafi verið eftirfarandi:

Kærandi hafi á árinu 2016 verið greiddar X kr. í réttindi. Sú fjárhæð komi fram á launamiða undir „Greiðslur á árinu 2016“, enda sé það sú fjárhæð sem kærandi hafi átt rétt á miðað við tekjuáætlun ársins.

Tryggingastofnun hafi áætlað endurreiknuð réttindi í febrúar 2017 á grundvelli forskráðra tekna á skattframtali. Sá endurreikningur sé framkvæmdur í samvinnu við og að beiðni ríkisskattstjóra til að fækka þeim bréfum sem send séu vegna leiðréttinga á launamiðum þar sem í flestum tilvikum sé meira samræmi á milli forskráðra tekna og endanlegs skattframtals en tekjuáætlunar og endanlegs skattframtals. Niðurstaða þess endurreiknings hafi verið réttindi að fjárhæð X kr. og hafi sú fjárhæð verið forskráð í reit 40 á skattframtali.

Réttindi fyrir árið 2016 hafi svo verið endurreiknuð að nýju á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali og hafi niðurstaða endanlegs endurreiknings verið réttindi að fjárhæð X kr. en sú fjárhæð hafi verið miðuð við skert búsetuhlutfall ársins 2016.

Eins og áður hafi komið fram sé nú búið að reikna réttindi kæranda á nýjan leik miðað við 100% búsetuhlutfall allt árið 2016 og endanleg réttindi kæranda hafi því verið X kr.

Í kæru geri kærandi athugasemdir við að fjármagnstekjur maka hans hafi áhrif á lífeyrisréttindi hans. Þar sem fjármagnstekjur þeirra hjóna séu undir frítekjumörkum fjármagnstekna þá hafi þær ekki áhrif á greiðslur kæranda frá Tryggingastofnun. Að öðru leyti sé bent á 16. gr. laga um almannatryggingar sem reifuð sé hér að ofan.

Í kæru geri kærandi athugasemdir við að styrkur til hans frá stéttarfélagi hafi áhrif á réttindi hans. Eins og fram hafi komið þá sé í 16. gr. laga um almannatryggingar kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna og samkvæmt 1. málsl. þeirrar greinar sé meginreglan sú að „Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.“

Í 7. gr. laga um tekjuskatt sé að finna skilgreiningu á skattskyldum tekjum. Þeim sé skipt í þrjá flokka, þ.e. A, B og C eftir ýmsum tekjuflokkum. Í A-lið séu taldir fjórir flokkar tekna. Fyrstu tveir flokkarnir í A-lið séu annars vegar launatekjur og sambærilegar tekjur og hins vegar tryggingabætur, meðlög og styrkir, svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur.

Styrkir frá stéttarfélögum, líkt og sá sem hér um ræði, falli undir 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Áður hafi reynt á þetta atriði fyrir úrskurðarnefnd og megi meðal annars benda á úrskurð úrskurðarnefndar í máli nr. 316/2014.

Tryggingastofnun vilji að lokum ítreka það sem fram hafi komið varðandi breytingu á búsetuhlutfalli kæranda. Öll þau gögn sem séu frá því áður en hlutfallinu hafi verið breytt beri þess að sjálfsögðu enn merki og þurfi að skoða með hliðsjón af því.

Tryggingastofnun hafi nú breytt fyrri ákvörðun í samræmi við leiðréttar forsendur. Krafa vegna uppgjörs ársins 2016 standi því núna í 69.168 kr. Sú krafa sé í samræmi við lög um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar frá 21. desember 2017 kemur fram að það sé ekki rétt sem komi fram í athugasemdum kæranda að styrkur til hans frá B sé dreginn að fullu, þ.e. 100%, af greiðslum hans frá Tryggingastofnun heldur hafi þær 38,35% áhrif á tekjutryggingu til kæranda, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar.

Einnig komi fram í kæru að fjármagnstekjur kæranda og maka hans hafi allar áhrif á réttindi hans til greiðslna frá Tryggingastofnun. Það sé ekki rétt, fjármagnstekjum hjóna og sambýlisfólks sé alltaf skipti á milli þeirra. Í tilfelli kæranda sé það þó þannig, líkt og komi fram í upphaflegri greinargerð stofnunarinnar, að fjármagnstekjur kæranda séu undir frítekjumörkum fjármagnstekna og hafi því engin áhrif á réttindi hans.

Að lokum vilji Tryggingastofnun svara athugasemdum kæranda úr upphaflegri kæru að því er varðar afgreiðslu stofnunarinnar á tekjuáætlun kæranda um áramótin 2016 og 2017. Þann 22. desember 2016 hafi stofnuninni borist ný tekjuáætlun frá kæranda vegna ársins 2017. Við móttöku hennar hafi kæranda verið sent sjálfkrafa bréf þar sem móttakan hafi verið staðfest. Einnig komi fram að greitt sé 1. hvers mánaðar eftir tekjuáætlun eins og hún líti út þann 15. mánaðarins á undan. Þrátt fyrir þetta orðalag, sem verði tekið til endurskoðunar, þá reyni stofnunin að afgreiða þær tekjuáætlanir sem berist henni eftir 15. hvers mánaðar, ef hægt sé. Þetta sé gert til þess að greiðslur til greiðsluþega séu sem réttastar og í samræmi við nýjustu tekjuáætlun svo að ekki myndist kröfur að óþörfu.

Þann 30. desember 2016 hafi tekjuáætlun kæranda því verið breytt, að mestu, í samræmi við þá áætlun sem kærandi hafi skilað inn 22. desember. Fyrir mistök hafi gleymst að færa inn frádrátt (X kr.) á móti ökutækjastyrk (X) og hafi það verið leiðrétt 3. janúar 2017. Allt árið 2017 hafi kærandi fengið greitt miðað við þá tekjuáætlun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2016.

Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árinu 2016 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2016 ráð fyrir X kr. í launatekjur, X kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar, X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í sameiginlegar tekjur vegna vaxta og verðbóta. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2016 reyndust launatekjur kæranda vera X kr., X kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar, X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í aðrar tekjur og X kr. í sameiginlegar tekjur vegna vaxta og verðbóta. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2016 leiddi í ljós að tekjutrygging og orlofs- og desemberuppbætur hefðu verið ofgreiddar um samtals X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Undir rekstri málsins tilkynnti Tryggingastofnun kæranda með bréfi, dags. 2. nóvember 2017, um leiðréttingu á endurreikningi tekjutengdra bótagreiðslna hans á árinu 2016. Í bréfinu kemur fram að ákveðið hafði verið að hækka búsetuhlutfall kæranda úr 78,92% í 100% frá 1. júlí 2016 til og með 31. desember 2017. Samkvæmt greiðsluskjali Tryggingastofnunar frá 1. nóvember 2017 leiddi leiðréttingin í ljós réttindi kæranda að fjárhæð X kr. Af þeirri fjárhæð fóru X kr. í staðgreiðslu skatta, kæranda voru greiddar út X kr. og X kr. fóru í innborgun á áður myndaða innheimtukröfu. Með hliðsjón af afdregnum greiðslum stóð innheimtukrafan í X kr. þann 1. nóvember 2017.

Samkvæmt framangreindu gerði kærandi ráð fyrir lægri launatekjum og öðrum tekjum, þ.e. styrk frá stéttarfélagi, á árinu 2016 en skattframtal 2017 vegna tekjuársins 2016 sýndi fram á. Einnig liggur fyrir að umræddir tekjustofnar hafa áhrif á bótarétt en í áðurnefndri 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla launatekjur undir 1. tölulið A-liðar 7. gr. og styrkir undir 2. tölulið A-liðar 7. gr. Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar og fellst á að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð 69.168 kr. á árinu 2016, að teknu tilliti til leiðréttingar Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli kæranda og afdreginna greiðslna.

Kærandi telur það vera brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að styrkur frá stéttarfélagi skerði réttindi hans frá Tryggingastofnun ríkisins. Að sama skapi telur kærandi það vera brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að fjármagnstekjur maka skerði réttindi hans frá stofnuninni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sé í samræmi við 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. lög um tekjuskatt. Það er einungis á færi dómstóla að skera úr um hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrána. Úrskurðarnefndin er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem byggja á því að lagaákvæði brjóti í bága við stjórnarskrá. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur því ekki úrskurðarvald um hvort 16. gr. laga um almannatryggingar kunni að brjóta í bága við ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig telur úrskurðarnefnd rétt að benda kæranda á að fjármagnstekjur hans voru undir frítekjumarki fjármagnstekna og skertu því ekki réttindi hans frá Tryggingastofnun.

Í athugasemdum kæranda segir að hann hafi óskað eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hvernig þær breytingar á greiðslum til hans, sem gerðar voru um mitt ár 2016, væru tilkomnar. Þá segir að engar upplýsingar hafi borist og engin svör hafi verið gefin. Kærandi telur að Tryggingastofnun hafi brotið gegn upplýsingalögum nr. 140/2012 með vísan til III. kafla laganna, sbr. 14. gr.

Í 20. gr. upplýsingalaga er kveðið á um að heimilt sé að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Það fellur því utan valdsvið úrskurðarnefndar velferðarmála að fjalla um málsástæður sem byggja á því að brotin hafi verið ákvæði upplýsingalaga. Ekki liggur fyrir að stofnunin hafi synjað kæranda um aðgang að gögnum máls eða takmarkað að nokkru leyti. Því er ekki um stjórnvaldsákvörðun að ræða sem verður kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá liggur fyrir að Tryggingastofnun ákvað að endurreikna búsetuhlutfall kæranda honum til hagsbóta í ljósi þess að honum hafði ekki verið tilkynnt um breytingar á búsetuhlutfalli.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2016 og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, og innheimtu ofgreiddra bóta, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta