Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 374/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 374/2017

Miðvikudaginn 31. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. október 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. september 2017 um milligöngu meðlagsgreiðslna til hennar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn 31. júlí 2017 óskaði kærandi eftir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur. Með umsókninni fylgdi dómur Héraðsdóms C, dags. X 2016. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 26. september 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að meðlagsákvörðun kvæði á um greiðslu meðlags lengra aftur í tímann en Tryggingastofnun væri heimilt að hafa milligöngu um samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. október 2017. Með bréfi, dags. 17. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. október 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna til hennar verði endurskoðuð og að stofnuninni verði gert að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur með drengnum D samkvæmt dómi héraðsdóms.

Í kæru kemur fram að fyrrum eiginmaður kæranda hafi höfðað mál gegn henni á árinu 2015 fyrir Héraðsdómi C og krafist forsjár X sona þeirra, auk þess sem hann hafi gert kröfu um meðlagsgreiðslu frá kæranda. Kærandi hafi gert sambærilegar kröfur í málinu. Í maí 2016 hafi málinu lokið með dómsátt þar sem málsaðilar ákváðu að forsjá drengjanna yrði sameiginleg og lögheimili X eldri drengjanna yrði hjá föður en X yngri hjá kæranda.

Í málinu hafi verið deilt um meðlagsskyldu og hafi verið kveðið á um hana með dómi X 2016. Þar hafi verið fallist á kröfur kæranda um að fyrrum eiginmaður hennar skyldi greiða henni einfalt meðlag með [...], D, frá X 2014 til X 2016, en þann tíma hafi drengurinn verið búsettur hjá henni. Þá hafi verið fallist á kröfu kæranda um greiðslu meðlags með [...] frá X 2014 til 18 ára aldurs þeirra.

Fyrrum eiginmaður kæranda hafi áfrýjað dómi héraðsdóms til Hæstaréttar sem hafi fengið málsnúmerið X hjá Hæstarétti. Gjafsóknarnefnd hafi hafnað umsókn kæranda um gjafsókn við rekstur málsins í héraði og hafi hún ekki haft fjárhagslega burði til frekari málareksturs. Hún hafi því ákveðið að taka ekki til varna við meðferð málsins í Hæstarétti. Hún hafi ekki sótt um meðlag með D til Tryggingastofnunar, enda hafi hún talið sér það ekki heimilt fyrr en endanleg niðurstaða væri komin í Hæstarétti um meðlagsskyldu fyrrum eiginmanns hennar.

Í júlí 2017 hafi maður, sem tengist kæranda fjölskylduböndum, innt lögmann kæranda eftir því hvort búið væri að kveða upp dóm í málinu í Hæstarétti. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að fyrrum eiginmaður kæranda hafi fellt málið niður. Kæranda hafi ekki verið tilkynnt um þau málalok. […]

Þann 31. júlí 2017 hafi kærandi sótt um meðlag til Tryggingastofnunar með D. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. september 2017, hafi kröfu kæranda um að stofnunin hefði milligöngu um meðlagsgreiðslur samkvæmt dómi héraðsdóms verið hafnað. Kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð og geri kröfu um að stofnunin hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur með D samkvæmt dómi héraðsdóms.

Kærandi telji að ekki hafi verið tilefni til umsóknar til Tryggingastofnunar um milligöngu meðlagsgreiðslna fyrr en ljóst hafi verið að fyrrum eiginmaður hennar ætlaði ekki að halda áfram málarekstri sínum fyrir Hæstarétti. Eins og fram sé komið hafi kæranda verið það ljóst í júlí 2017 að ekki yrði hróflað við niðurstöðu héraðsdóms um skyldu fyrrum eiginmanns hennar til greiðslu meðlags. Þá hafi kærandi sótt um meðlag með börnum sínum. Sá dráttur er hafi orðið á umsókn kæranda sé henni ekki að kenna, enda hafi hún staðið í þeirri trú að mál fyrrum eiginmanns hennar væri enn til meðferðar í Hæstarétti. Að hennar mati sé þessi dráttur ekki óeðlilegur í ljósi þess að hún, sem E, tali litla íslensku og hafi frá uppkvaðningu héraðsdóms ekki notið lögmannsaðstoðar.

Kærandi telji að til staðar séu sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Ekki sé réttlætanlegt að kærandi missi rétt til milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu meðlags vegna atvika er hún hafi ekki getað haft áhrif á. Kærandi telji að horfa beri til þess að um mikilsverð réttindi sé að ræða sem ætlað sé að tryggja framfærslu barna. Útilokað sé að fyrrum eiginmaður hennar hafi getu eða vilja til að fullnægja þeim skyldum sem hér um ræði. Þá hafi kærandi ekki fjárhagslega getu til að fá það staðreynt.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveði á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

Í 4. mgr. sömu greinar segi síðan að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða meðlag aftur í tímann í allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni.

Um heimildarákvæði sé að ræða í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og sé því ekki um að ræða rétt umsækjanda um meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun aftur í tímann, heldur heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur aftur í tímann, þó aldrei lengur en eitt ár.

Í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar segi að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar. Það hafi verið gert með reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga.

Í 7. gr. reglugerðarinnar í III. kafla segi að heimilt sé að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berist Tryggingastofnun, þ.e. umsókn og meðlagsákvörðun. Í 2. mgr. ákvæðisins segi að þegar meðlagsákvörðun sé eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berist, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Þá segi að með sérstökum ástæðum sé meðal annars átt við ef meðlagsmóttakanda hafi af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé kveðið á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar. Þar segi að Tryggingastofnun sé skylt að greiða rétthafa greiðslna, samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Kærandi hafi sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagi með syni hennar D með rafrænni umsókn móttekinni 31. júlí 2017. Kærandi hafi óskað eftir greiðslum í samræmi við dóm Héraðsdóms C frá X 2016, en dómurinn hafi borist á sama tíma og umsókn. Í dómsorði komi fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða kæranda meðlag með D frá X 2014 til X 2016.

Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum sé Tryggingastofnun einungis heimilt að hafa milligöngu um meðlag 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem nauðsynleg gögn, þ.e. umsókn og meðlagsákvörðun, berast Tryggingastofnun. Þar sem umsókn kæranda og dómur Héraðsdóms C um meðlag hafi borist Tryggingastofnun í júlí 2017 hafi stofnunin ekki heimild til að hafa milligöngu um greiðslu meðlagsins frá X 2014 til X 2016 í ljósi þess að um sé að ræða tímabil sem sé lengra en 12 mánuðir aftur í tímann. Vegna þessara skýlausu ákvæða hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að breyta ákvörðun sinni um synjun á milligöngu meðlagsgreiðslna.

Að gefnu tilefni beri að taka það fram að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda samkvæmt dóminum til að greiða kæranda meðlag fyrir framangreint tímabil. Kærandi geti því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. september 2017 á umsókn kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. er Tryggingastofnun heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við. Þá er í 6. mgr. 63. gr. að finna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins.

Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um heimild til að greiða meðlag aftur í tímann. Í 2. mgr. 7. gr. segir að þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða samkvæmt 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt 10. gr., sé eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn samkvæmt 5. gr. berist, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Þá segir að með sérstökum ástæðum sé meðal annars átt við ef meðlagsmóttakanda hafi af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Af ákvæði 63. gr. laga um almannatryggingar leiðir að Tryggingastofnun ber að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar beiðni berst frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Heimild Tryggingastofnunar til að greiða meðlag samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laganna er takmörkuð við 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem meðlagsákvörðun berst stofnuninni.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms C, dags. X 2016, á kærandi rétt á meðlagsgreiðslum vegna D frá X 2014 til X 2016. Umsókn kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna ásamt meðlagsákvörðun barst Tryggingastofnun ríkisins 31. júlí 2017. Þar sem liðnir voru meira en 12 mánuðir frá því að meðlagsskyldu barnsföður kæranda lauk þegar umsókn og meðlagsákvörðun barst Tryggingastofnun er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að stofnuninni hafi ekki verið heimilt að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda, sbr. 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi telur að í hennar tilviki séu til staðar sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Úrskurðarnefnd telur rétt að benda á að skilyrðið um sérstaka ástæðu sem finna má í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar varðar heimild Tryggingastofnunar til að greiða meðlag aftur í tímann, allt að 12 mánuði, þegar meðlagsákvörðun er eldri en tveggja mánaða. Ákvæðið heimilar ekki Tryggingastofnun að greiða lengra aftur í tímann en 12 mánuði, enda er kveðið skýrt á um þau tímamörk í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Engin heimild er til þess að greiða meðlag lengra en 12 mánuði aftur í tímann vegna sérstakra aðstæðna.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hún geti sótt greiðslu meðlags úr hendi barnsföður síns samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Samkvæmt 66. gr. barnalaga má gera fjárnám fyrir meðlagi á grundvelli dóms, dómsáttar eða úrskurðar. Kæranda er því bent á að hún geti leitað til sýslumanns með kröfu sína.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. september 2017 á umsókn A, um milligöngu meðlagsgreiðslna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta