Bjarni ávarpaði ársfund Landsvirkjunar: Metnaðarfull markmið í orkuskiptum
„Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í orkuskiptum og höfum tækifæri til að vera sjálfum okkur nóg. Tækifæri til að tryggja enn betur í sessi orkuöryggi Íslendinga eru til staðar.“ Þetta kom fram í ávarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 7. mars.
„Við getum sett okkar mark á loftslagsmálin í stærra samhengi og sýnt með því bæði ábyrgð gagnvart heimsbyggðinni allri og skapað frekari hagsæld og mikil tækifæri hér innanlands til þess að skapa til dæmis verðmæt störf og útflutningstekjur,“ sagði ráðherra.
Möguleikarnir væru víða og vöxtur í grænum iðnaði. „Það eru miklar breytingar fram undan t.d. í þungaflutningum, fyrsta rafknúna farþegaflugvélin var flutt til landsins nýlega og hvarvetna líta metnaðarfull áform dagsins ljós.“
Bjarni sagði eðlilegt og jákvætt að samkeppnismarkaður þrífist í orkumálum hér líkt og annars staðar. Ríkið hefði á sama tíma mjög mikilvægu hlutverki að gegna við stefnumörkun á sviðinu og við að setja almennar leikreglur.
Hlutlaust eignarhald grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði
Ráðherra ræddi nýleg kaup ríkisins á öllu hlutafé í Landsneti og sagði stórum áfanga hafa verið náð þegar hann náðist fyrir síðustu áramót. „Það hefur verið okkar sýn, og búið að festa í lög, að Landsnet eigi að vera eingöngu í eigu ríkis eða sveitarfélaga, sem birtist meðal annars í Orkustefnu til ársins 2050, að hlutlaust eignarhald sé grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði.“
Þá kom ráðherra inn á góða afkomu Landsvirkjunar en reksturinn í fyrra hefði gengið betur en nokkru sinni fyrr og nú væru arðgreiðslur orðnar verulegar og skuldastaða félagsins orðin afar sterk. „Það má gera ráð fyrir félagið greiði eiganda sínum, íslenska ríkinu, 20 milljarða í arð. Það munar um minna,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra.