Hoppa yfir valmynd
3. desember 2020

Ástandið í S-Kákasus, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu efst á baugi ÖSE-fundar

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri flutti ávarp fyrir hönd utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Óvissa í öryggismálum í okkar heimshluta var viðfangsefni í ávarpi Martins Eyjólfssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, á fjarfundi utanríkisráðherra aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í dag. Ávarpið flutti Martin fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Samþykktar voru efnismiklar ályktanir á sviði öryggis, efnahags og umhverfis og mannréttinda, og voru til umræðu deilumál, sem hátt ber um þessar mundir, svo sem ástandið í Suður-Kákasus, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Sagði ráðuneytisstjóri aðildarríki ÖSE standa frammi fyrir nýjum áskorunum af völdum kórónuveirunnar og skoraði á þau að uppfylla við skuldbindingar sínar um traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu, endurskoða Vínarskjalið um slíkar aðgerðir, uppfylla ákvæði samningsins um opna lofthelgi og taka þátt í samningnum um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu. Sagði hann ríki ekki geta brugðist við fjölþátta ógnum og netárásum á eigin spýtur. Þá fordæmdi hann nýlegar hryðjuverkaárásir í Austurríki og Frakklandi.

Í ávarpinu fagnaði ráðuneytisstjóri ennfremur friðarsamkomulagi Armeníu og Aserbaídsjan og sagði ófriðinn í Nagorno-Karabakh sýna að deilur gætu brotist út í ófriði með hörmulegum afleiðingum fyrir almenna borgara. Lýsti hann stuðningi Íslands við sjálfstæði Úkraínu, starfsemi eftirlitssveitar ÖSE þar og að Krímskagi yrði aftur hluti af Úkraínu. Ítrekaði hann einnig stuðning Íslands við Georgíu og hvatti til sátta í Transnistríu. Mikilvægt væri að framfylgja ályktun Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.

Loks hvatti ráðuneytisstjóri, fyrir hönd utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, yfirvöld í Hvíta-Rússlandi, til að fara að tillögum í ÖSE-skýrslunni um mannréttindabrot þar í landi. Sagði hann hina heildstæðu öryggishugmynd ÖSE styðja við heimsmarkmiðin með áherslu sinni á mannréttindi og umhverfið. Ísland stydddi grundvallarmannréttindi, ekki síst þeirra hópa í samfélaginu sem eiga undir högg að sækja, jafnrétti karla og kvenna og réttindi LGBTI-fólks.

Á meðal samþykkta ráðherrafundarins eru m. a. á sviði öryggismála yfirlýsing um að styrkja samvinnu aðildarríkja til að bregðast við skipulagðri afbrotastarfsemi yfir landamæri. Á sviði efnahags- og umhverfismála var tekin ákvörðun um að koma í veg fyrir og berjast á móti spillingu með stafrænni tækni og auknu gegnsæi. Í mannréttindamálum var tekin mikilvæg ákvörðun um að komið verði í veg fyrir pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð eða refsingar og slíkt upprætt með öllu. Þá voru teknar ákvarðanir um ráðningu nýs aðalframkvæmdastjóra ÖSE, nýrra fulltrúa fyrir frelsi fjölmiðla og fyrir réttindi þjóðernisminnihluta og nýs yfirmanns skrifstofu ÖSE fyrir lýðræðislegar stofnanir (ODIHR).

Ávarpið í heild sinni má lesa hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta